„Borgarstjóri, Dagur B. Eggertsson: þér hefur nú verið boðið að ræða kröfur okkar á fundum með félagsmönnum Eflingar ítrekað. Þú hefur ætíð hafnað þeim boðum. Þess í stað hefur þú aðeins látið sjá þig þegar þú færð að sitja einn í sjónvarpsviðtali, þar sem þú hefur talað niður okkar kjara- og réttlætisbaráttu. Þú kennir þig við stjórnmál samræðunnar. Við hörmum og fordæmum að þú viljir ekki eiga samtal við okkur, þitt eigið starfsfólk.“
Þetta segir í yfirlýsingu sem stéttarfélagið Efling hefur birt á heimasíðu sinni í kjölfar þess að Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri í Reykjavík, mætti í viðtal við Kastljós á RÚV í gærkvöldi. Dagur hafði áður hafnað því að mæta á sama vettvang með Sólveigu Önnu Jónsdóttur, formanni Eflingar.
Í viðtalinu sagði Dagur að grunnlaun ófaglærðra starfsmanna í leikskólum Reykjavíkur muni hækka úr 310 þúsund krónum á mánuði í 420 þúsund krónur á líftíma þess kjarasamnings sem borgin hefur boðið. Ofan á þetta myndu bætast 40 þúsund krónur á mánuði vegna álagsgreiðslna. Ófaglærðir starfsmenn myndu því verða með 460 þúsund krónur á mánuði í laun við lok samningstímans.
Ófaglærður deildarstjóri, sem í dag er með 417 þúsund á mánuði, á að hækka í 520 þúsund krónur á mánuði. Grunndagvinnulaun ófaglærðs deildarstjóra á leikskóla í lok samningstíma, með álagsgreiðslum, yrðu þá 572 þúsund krónur. Ofan á þetta myndi koma til að mynda stytting vinnuvikunnar.
Fegra mögur tilboð borgarinnar
Í yfirlýsingu Eflingar segir að þær upphæðir sem Dagur nefndi byggðu á því að telja ekki núverandi sérgreiðslur í byrjunarupphæð en telja þær með í lokaupphæð. „Framsetning borgarstjórans er í anda þeirra vinnubragða sem samninganefnd Reykjavíkurborgar hefur viðhaft, þar sem þegar umsamin réttindi eru sett í búning kjaraviðbóta. Virðist þetta gert í þeim tilgangi að fegra mögur tilboð borgarinnar.
Staðreyndin er sú að samninganefnd Eflingar myndi samþykkja, og hefur ítrekað boðið, að grunnlaun hækki sem samsvarar lífskjarasamningnum, að viðbættri leiðréttingu á bilinu 17-46 þúsund krónur. Sú leiðrétting þyrfti ekki að vera í formi grunnlaunahækkunar heldur gæti verið sérstakt álag sem ekki kæmi inn í grunn til útreiknings á yfirvinnu og vaktavinnu.“
Samninganefnd Eflingar segist hafa lagt fram þrjú tilboð byggð á tveimur ólíkum nálgunum til að ná fram leiðréttingu launa sinna félagsmanna. „Samninganefndin hefur lýst sig reiðubúna til viðræðu um upphæðir og forsendur slíkra viðbótarhækkana í tilviki ólíkra starfa og vinnustaða. Reykjavíkurborg hefur hafnað þessum nálgunum án viðræðu um hugsanlegar útfærslur og leiðir sem þær kynnu að bjóða upp á.“