Lilja D. Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins, vill að ríkið ráðist í allt að 50 milljarða króna viðbótarinnspýtingu í opinberar framkvæmdir á þessu ári til að örva hagkerfið. Þá vill hún auk þess að tryggingargjald verði lækkað og að sveitarfélög lækki fasteignagjöld til að styðja við þær aðgerðir. Frá þessu er greint í Morgunblaðið í dag en Lilja, sem er einn þriggja ráðherra sem situr í ráðherranefnd um efnahagsmál og endurskipulagningu fjármálakerfisins, segir þar líka að tryggja þurfi samkeppnishæfni álvera sem starfa á Íslandi, en miklar umræður hafa verið um stöðu þeirra síðustu daga eftir að Rio Tinto, eigandi álversins í Straumsvík, opnaði á þann möguleika að loka verinu.
Lilja nefnir í viðtalinu, sem var við Viðskiptapúlsinn, hlaðvarp ViðskiptaMoggans, að hægt sé að ráðast í uppbyggingu snjóflóðavarna, bæta hafnaraðstöðu, bæta raforkukerfið, auka íbúðauppbyggingu, stuðning við kvikmyndagerð, fjölga hjúkrunarrýmum og byggja við menntaskóla á landinu. Auk þess sé nýr Listaháskóli á teikniborðinu og hægt sé að hefja uppbyggingu nýrra þjóðarleikvanga, en mikill þrýstingur hefur verið á umbætur á Laugardalsvelli og uppbyggingu á nýjum þjóðarleikvangi fyrir hópíþróttir innanhúss, þar sem Laugardalshöll þykir úrelt. Lilja segir að samstaða sé milli ráðherra í ríkisstjórn að ráðast í aðgerðir.
Minni hagvöxtur en vænst var
Fyrr í þessum mánuði fékkst staðfest að það hefði verið hagvöxtur í hagkerfinu á síðasta ári, þrátt fyrir mikil efnahagsáföll með gjaldþroti WOW air, loðnubresti og vandræðum Icelandair Group vegna kyrrsetningar á 737 Max-vélunum. Hann var þó ekki mikill, eða einungis 0,6 prósent.
Því er ljóst að hagvaxtarskeiðið sem hófst árið 2011 stendur enn yfir. Þótt að landsframleiðslan hafi aukist lítillega í fyrra þá er sú aukning ekki í neinum takti við það sem átti sér stað árin áður. Mestur varð hagvöxturinn á þessu tímabili 2016, 6,6 prósent, en minnstur 1,3 prósent árið 2012. Árið 2018 var hann 4,8 prósent.
Í Peningamálum Seðlabankans, sem birt voru fyrr í mánuðinum, kemur hins vegar fram að hagvaxtarhorfur fyrir 2020 og 2021 hafi versnað frá því í fyrrahaust.
Því er talið að hagvöxtur í ár verði einungis 0,8 prósent, en í nóvember hafði Seðlabankinn spáð því að hann yrði 1,6 prósent. Væntur hagvöxtur 2020 hefur því helmingast á örfáum mánuðum samhliða versnandi horfum í atvinnulífinu.
Spár gera þó ráð fyrir því að hagvöxtur taki við sér á næsta ári og verði 2,4 prósent. Það er hins vegar líka minna en spáð var í nóvember, þegar búist var við 2,9 prósent hagvexti á árinu 2021. „Horfur fyrir árið 2022 breytast hins vegar lítið samkvæmt Peningamálum.
Tökum aðlögun út í atvinnuleysi
Ólíkt því sem áður hefur gerst í niðursveiflu þá hefur gengi íslensku krónunnar lítið gefið eftir og verðbólga haldið áfram að lækka. Því hefur aðlögunin átt sér stað í gegnum atvinnuleysi, sem mælist nú 4,8 prósent og hefur ekki verið meira frá því snemma árs 2012. Á Suðurnesjum, þar sem það er hæst, mælist atvinnuleysið níu prósent.
Staða ríkissjóðs til að ráðast í innviðafjárfestingar er góð. Skuldir eru um 20 prósent af landsframleiðslu og hafa lækkað gríðarlega á fáum árum. Líkur eru til þess að hægt yrði að nálgast lánsfjármagn á mörkuðum á lágum og jafnvel neikvæðum vöxtum sem gæti nýst í þær fjárfestingar sem Lilja ræddi við Morgunblaðið.
Seðlabankinn hefur reynt að bregðast við þessari stöðu með því að lækka vexti meira en nokkru sinni áður í sögunni, alls um 1,75 prósentustig frá því í maí í fyrra. Þeir eru nú 2,75 prósent. Þessar vaxtalækkanir hafa ekki haft tilætluð áhrif þar sem samdráttur hefur verið í útlánum banka til atvinnulífsins frekar en aukning, og á árinu 2019 nam samdrátturinn í útlánum til fyrirtækja 60 prósent.