Frosti Ólafsson, sem verið hefur forstjóri ORF Líftækni frá árinu 2017, hefur óskað eftir að láta af störfum hjá fyrirtækinu. Stjórn ORF Líftækni hefur þegar hafist handa við að finna nýjan forstjóra. Frosti mun áfram sinna starfinu þar til nýr forstjóri hefur verið ráðinn og verður jafnframt stjórn félagsins og stjórnendum innan handar næstu misserin.
Frosti var framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs áður en að hann tók við forstjórastöðunni hjá ORF Líftækni.
Frosti starfaði hjá ráðgjafafyrirtækinu McKinsey & Company í Kaupmannahöfn áður en hann tók við sem sem framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs. Hann vann meðal annars að gerð skýrslu fyrirtækisins um Ísland og vaxtarmöguleika þess í framtíðinni sem kom út árið 2012. Á grunni skýrslunnar var skipaður samráðsvettvangur um aukna hagsæld, þverpólitískur og þverfaglegur vettvangur sem ætlað var að stuðla að heildstæðri og málefnalegri umræðu um leiðir til að tryggja hagsæld Íslendinga til lengri tíma litið.
Hann er hagfræðimenntaður og með MBA-gráðu frá London Business School.