Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra hefur ákveðið að setja þær Ásu Ólafsdóttur prófessor og Söndru Baldvinsdóttur héraðsdómara í tvo embætti dómara við Landsrétt sem auglýst voru laus til umsóknar 20. desember 2019, samkvæmt frétt á vef dómsmálaráðuneytisins. Ása hefur verið sett í embætti frá 25. febrúar til 30. júní 2020 og Sandra frá 2. mars til 30. júní 2020.
Dómnefnd hafði metið Ásu hæfasta umsækjenda um embættin en Söndru og Ástráð Haraldsson héraðsdómara næst á eftir henni. Því situr Ástráður eftir úr þriggja manna hópnum.
Samkvæmt gögnum sem Kjarninn hefur undir höndum þá var niðurstaðan dómnefndar, þegar drög að umsögn hennar voru send á umsækjendur 3. febrúar síðastliðinn önnur en endanleg niðurstaða hennar. Í drögunum eru Ása og Ástráður metin hæfust til að verða sett í embætti. Átta dögum síðar, 11. febrúar, eftir að umsækjendum gafst færi á andmælum, hafði Sandra hins vegar líka verið metin á meðal þeirra hæfustu.
Sandra og Ástráður voru bæði á meðal þeirra sem sóttu um embætti Landsréttardómara í aðdraganda þess að dómstigið tók til starfa. Þá voru 15 dómarar skipaðir og taldi dómnefnd að Ástráður væri á meðal þeirra 15 hæfustu. Hann lenti, nánar tiltekið, í 14. sæti á lista nefndarinnar en Sandra var í 22. sæti. Síðan þá hefur Ástráður verið skipaður héraðsdómari og bætt við sig dómarareynslu, en Sandra hefur verið settur, og síðar skipaður, héraðsdómari frá árinu 2006.
Sigríður Á. Andersen, þáverandi dómsmálaráðherra, ákvað hins vegar að færa fjóra umsækjendur sem dómnefndin hafði mælt með að yrðu skipaðir af skipunarlistanum og bæta fjórum öðrum inn á hann. Alþingi samþykkti svo breyttan lista Sigríðar. Ástráður var því ekki skipaður á þeim tíma. Hann, og annar umsækjandi sem var í sömu stöðu, stefndu ríkinu vegna þessa.
Þær stöður sem þær Ása og Sandra hafa verið settar í eru stöður tveggja þeirra dómara sem Mannréttindadómstóllinn taldi að væru ólöglega skipaðir. Niðurstöðu hans var skotið til yfirdeildar Mannréttindadómstólsins og fór málflutningur þar fram fyrr í mánuðinum. Búist er við niðurstöðu fyrir árslok. Þangað til munu dómararnir fjórir ekki dæma.
Áskildi sér rétt til að stefna
Auk þess var ein laus staða við Landsrétt til frambúðar auglýst til umsóknar í desember. Fjórir sóttust eftir skipun í hana. Ástráður og Sandra eru bæði þar á meðal. Hinir þrír eru Ásmundur Helgason Ragnheiður Bragadóttir, sem eru bæði dómarar við Landsrétt og eru á meðal þeirra fjögurra sem mega ekki dæma við réttinn eftir dóm Mannréttindadómstóls Evrópu.
Eftir að greint var frá umsækjendum sendi Ástráður dómsmálaráðherra bréf þar sem hann sagðist áskilja sér að hann áskilji sér allan rétt til þess að láta á það reyna fyrir dómstólum ef þegar skipaðir dómarar við Landsrétt verði skipaðir í lausa stöðu við réttinn.
Í bréfi hans, sem Kjarninn hefur undir höndum og var einnig sent til Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra, segir að það sé að mati Ástráðs augljós hætta á því að ef umsókn skipaðs Landsréttardómara sé talin gild og myndi svo leiða til nýrrar skipunar umsækjandans í embætti Landsréttardómara gætu þeir sem svo kysu látið á það reyna hvort slík skipun teldist lögmæt.
Með slíkri skipan væri í raun verið að gera tilraun til að löghelga eftir á skipun dómara sem þegar hefði verið metin ólögmæt. „Ég tel talsverðar líkur á að niðurstaða dómstóla yrði sú að slík skipan stæðist ekki. Það væri, svo vægt sé til orða tekið, í ljósi forsögunnar, afar óheppilegt bæði fyrir dómskerfið og umsækjandann ef það yrði niðurstaðan. Slíkur framgangur væri auk þess til þess fallinn að draga á langinn ríkjandi réttaróvissu um framtíðarskipan Landsréttar og fæli í sér afar sérkennileg skilaboð inn í yfirstandandi málarekstur fyrir Mannréttindadómstóli Evrópu. Ég tel raunar að Landsréttur megi illa við frekari slíkum skakkaföllum.“
Ekki hefur verið greint frá því hvern dómsmálaráðherra hyggst skipa í hina lausu stöðu.