Árið 2017, eftir margra ára niðurskurð í fjárveitingum til varnarmála, ákvað sænska ríkisstjórnin að snúa við blaðinu. Þá hafði skyndilega runnið upp fyrir sænskum stjórnmálamönnum að stórfelldur niðurskurður um langt árabil hafði gert sænska herinn að „hálfgerðum sýndarher“ eins og einn sænskur stjórnmálamaður komst að orði. Reyndar höfðu margir sérfræðingar á sviði hernaðar árum saman reynt að vekja athygli stjórnmálamanna á ástandinu en ætíð talað fyrir daufum eyrum. En nú var stjórnmálamönnunum ljóst að grípa yrði til aðgerða.
Óttinn við Rússa
Ástæða þess að Svíum varð ljóst að nauðsynlegt væri að efla varnir landsins og veita auknu fjármagni til hermála voru stóraukin umsvif Rússa. Ekki þarf að fjölyrða um hernað þeirra í Úkraínu en íbúar Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna, ásamt Bretum höfðu um langt skeið fylgst með síauknum umsvifum rússneska flughersins.
Herflugvélar Rússa sáust nú æ oftar á ferðinni yfir Eystrasalti og á fleiri svæðum þar sem flugumferð er mikil. Rússarnir eru oftar en ekki með slökkt á ratsjárvara vélanna , en það getur skapað mikla hættu. Kvartanir vegna þessa láta Rússar ætíð sem vind um eyru þjóta.
Þriggja ára áætlun og herskylda
Þegar sænski varnarmálaráðherrann, Peter Hultqvist, tilkynnti um aukin framlög til varnarmála greindi hann frá því að í fyrstu væri um einskonar „þriggja ára áætlun“ að ræða. Fjárveitingin skyldi á þessum þremur árum nema samtals 8.1 milljarði sænskra króna (105 milljarðar íslenskir) en „það er bara byrjunin,“ sagði ráðherrann. Hann sagði jafnframt að sænska stjórnin hefði ákveðið að endurvekja herskylduna, en hún hafði verið „sett í hlé“ árið 2010. Ekki þurfti lagabreytingu til, því herskyldan hafði einungis verið felld úr gildi, tímabundið, eins og áður sagði.
Ástæða þess að nauðsynlegt var talið að endurvekja herskylduna, sem hafði verið í gildi í 110 ár, var sú að of fáir höfðu valið að gerast hermenn og herinn orðinn alltof fámennur til að hann gæti sinnt þeim verkefnum sem honum voru ætluð. Samkvæmt áætlunum hersins var þörf á um það bil 4 þúsund nýjum hermönnum árlega en að jafnaði höfðu aðeins 1500 nýliðar árlega gengið til liðs við herinn.
Rétt er að geta þess að þessi „nýja“ herkvaðning var fyrst
og fremst endurvakning heimavarnarliðsins, sem er einskonar stuðningur við
herinn, þegar, og ef, á þarf að halda.
5. júní árið 2018 fengu 22 þúsund Svíar orðsendingu þar sem þeim var gert að mæta á stóra æfingu með hernum morguninn eftir, á þjóðhátíðardegi Svíþjóðar. Ugglaust hafa einhverjir klórað sér í kollinum yfir þessari orðsendingu, enda ekki daglegt brauð. Heimavarnarliðið var síðast kallað út til æfinga árið 1975, síðan voru liðin 43 ár.
Stórauknar fjárveitingar og ný tæki
Skömmu fyrir síðustu áramót tilkynnti sænski varnarmálaráðherrann að frá árinu 2021 verði árleg framlög til varnarmála aukin um 5 milljarða (65 milljarða íslenska) til ársins 2025. „Og við látum þar ekki staðar numið, áætlanir okkar gera ráð fyrir stórauknum fjárveitingum fram til ársins 2030.“
Sænski herinn hefur pantað 60 Gripen E orustuþotur, þessar þotur, sem eru sænskar, eiga að leysa af hólmi eldri þotur frá sama framleiðanda. Þær nýju sagðar fullkomnari í alla staði. Sænski flotinn hefur sömuleiðis hafið smíði tveggja kafbáta sem að sögn verða mjög fullkomnir. Þeir bætast við þá fimm sem flotinn á fyrir. Sænski herinn hefur einnig pantað nýjan bandarískan eldflaugavarnabúnað af gerðinni Patriot.
Aukin varnarsamvinna við aðrar þjóðir
Þótt Svíar hafi um langt skeið fyrst og fremst treyst á eigin hernaðarmátt, og hlutleysisstefnu, hafa þeir þó á síðustu árum í auknum mæli horft til samvinnu við aðrar þjóðir. Sænski herinn hefur tekið þátt í heræfingum, meðal annars með Bandaríkjamönnum og skipulagt slíkar æfingar á sænskri jörð.
Svíar eru aðilar að Nordefco sem er samstarfsvettvangur Norðurlandanna á sviði varnar- og öryggismála. Auk Svíþjóðar eiga Ísland, Noregur, Finnland og Danmörk aðild að þessum samtökum, sem voru stofnuð árið 2009. Þegar sænski varnarmálaráðherrann kynnti ákvarðanir stjórnarinnar um aukin framlög til hermála, og áður var á minnst, gat hann þess jafnframt að Svíar stefndu að enn nánari samvinnu við Eystrasaltslöndin þrjú og fleiri lönd.
Þótt ráðherrann nefndi ekki NATO fór ekki milli mála hvað hann átti við. Til marks um þessa auknu samvinnu má nefna að í nóvember árið 2018 fór fram í Noregi ein stærsta heræfing sem haldin hefur verið í Norður-Evrópu, Trident Juncture. Um 50 þúsund manns tóku þátt í þessari æfingu, þar á meðal bæði Svíar og Finnar.
Skoðanakannanir sýna að meirihluti Svía styður ákvarðanir stjórnvalda um uppbyggingu hersins. Einni mikilvægri spurningu varðandi þessa uppbyggingu hersins er þó ósvarað: hvaðan eiga peningarnir að koma. Þegar varnarmálaráðherrann var spurður um þetta á fréttamannafundi svaraði hann því til að „við tökum upp bankaskatt, það fleytir okkur langt“. Hvort fjármunir frá slíkum skatti dugi til að fjármagna stóraukin hernaðarumsvif er svo önnur, og ósögð, saga.