Skipulagsstofnun hefur tekið ákvörðun um að fyrirhugað hótel í landi Svínhóla í Lóni, Sveitarfélaginu Hornafirði, sé ekki líklegt til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skuli því ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Hótelið yrði miðja vegu milli Djúpavogs og Hafnar og því töluvert frá annarri ferðaþjónustu á svæðinu.
Skipulagsstofnun barst í september á síðasta ári tilkynning frá Alfaland Hotel ehf. um fyrirhugaða byggingu hótelsins og bárust frekari gögn þar til í febrúar. Í greinargerð kemur fram að eigendur jarðarinnar Svínhóla fyrirhugi uppbyggingu hótels með blöndu af íbúðum og herbergjum.
Um umfangsmikla framkvæmd er að ræða: 70 herbergi, ýmist í aðalbyggingu eða sérstökum smáhýsum. Gert er ráð fyrir að hótelið geti hýst 203 gesti og að þar starfi 160 manns. Einnig stendur til að byggja 20 einbýlishús, hvert um sig 2-5 herbergi að stærð. Húsin verði seld og að eigendur geti kosið að tengjast hótelinu sem myndi leigja þau út þegar þau væru ekki nýtt af eigendum.
Þá er áformað að á svæðinu verði 1.500 fermetra heilsulind sem samanstandi af margskonar aðstöðu, þar á meðal blöndu af gufuböðum, heitum og köldum pottum. Einnig er gert ráð fyrir starfsmannaaðstöðu. Samanlagt byggingarmagn verður um 20.000 fermetrar. Stefnt er að því að hótelið verði rekið árið um kring og í fréttatilkynningu sem fyrirhugaður rekstraraðili sendi frá sér í fyrra er stefnt að opnun árið 2022.
Fram kemur í greinargerð Alfaland Hotel ehf. að samið hafi verið við Six Senses Hotels Resorts Spas um rekstur hótelsins. Six Senses hafi getið sér gott orð sem hótelkeðja sem leggi ríka áherslu á sjálfbærni í byggingaframkvæmdum og rekstri. Hús verði lágreist og að rík áhersla verði á að nýta gæði landsins. Allur frágangur á að taka mið af umhverfisaðstæðum og að mannvirki falli vel að umhverfinu. Til að mynda er stefnt að gróðurklæddum þökum til að draga úr sjónrænum áhrifum.
Í umsögn Náttúrufræðistofnunar Íslands um tillöguna kemur fram að framkvæmd sem geri ráð fyrir að hýsa allt að 360 manns muni hafa í för með sér töluverða breytingu á umhverfinu, aukna umferð fólks um svæðið og truflun, m.a. ljósmengun. Þótt fyrirhugað sé að halda sjónrænum áhrifum í lágmarki þá muni svæðið taka stakkaskiptum frá því sem nú er. Mikið byggingarmagn þétt við jaðar verndarsvæðis sem auk þess muni breyta hefðbundnu landbúnaðarlandi í ferðaþjónustusvæði muni því hafa margvísleg áhrif.
Hótelið yrði skammt frá Lónsfirði sem er á náttúruminjaskrá, meðal annars sem mikilvægur viðkomustaður farfugla. Hann telst einnig til mikilvægra fuglasvæða á Íslandi. Náttúrufræðistofnun Íslands hefur lagt til að Lónsfjörður verði verndaður sérstaklega þar sem mikið af fuglum fari þar um vor og haust. Allt að þriðjungur íslenska álftarstofnsins hafi sést þar samtímis.
Framkvæmdaaðili segir í svörum sínum við þessu að allar byggingar verði utan við skilgreint svæði á náttúruminjaskrá sem og fuglaverndarsvæði í Lóni. Settar verði kvaðir um takmörkun á aðgengi að Lóni á viðkvæmasta tíma ársins með tilliti til fuglalífs.
Í ákvörðun Skipulagsstofnunar segir að fyrirhugað framkvæmdasvæði sé að mestu tún og framræst votlendi en í næsta nágrenni við Lónsfjörð og Hvalnes sem séu á náttúruminjaskrá. Það er mat stofnunarinnar að um nokkuð umfangsmikla framkvæmd sé að ræða og að gera megi ráð fyrir að uppbyggingin auk fyrirhugaðar starfsemi komi til með að auka álag á nærliggjandi vistkerfi, þ.e. verndarsvæðið Lónsfjörð. „Með hliðsjón af boðuðum mótvægisaðgerðum telur Skipulagsstofnun þó ólíklegt að fyrirhuguð framkvæmd komi til með að hafa áhrif á verndargildi Lónsfjarðar.“
Að mati Skipulagsstofnunar er enn fremur mögulegt að útfæra skilmála í deiliskipulagi til að tryggja að byggingar falli vel að umhverfi fjarðarins. Segir stofnunin afar mikilvægt að tilhögun verksins verði með þeim hætti sem boðað hafi verið og telur rétt að binda leyfisveitingar með skilyrðum, m.a. því að haft verði samráð við Minjavernd vegna fornleifa sem og við Náttúrufræðistofnun og Umhverfisstofnun um stýringu ferðamanna við Lónið. Þá er bent á að við gerð deiliskipulags þurfi meðal annars að huga að lýsingarhönnun til að draga úr ljósmengun með tilliti til fuglalífs sem og hönnun göngustíga í sama tilgangi.
Að teknu tilliti magra þátta telur Skipulagsstofnun ólíklegt að framkvæmdin komi til með að hafa í för með sér veruleg óafturkræf umhverfisáhrif sem ekki sé hægt að fyrirbyggja eða bæta úr með mótvægisaðgerðum.