„Við höfum verið að stórauka lífskjör þeirra sem eru neðst í launastiganum,“ sagði Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins í Silfrinu á RÚV í morgun. Hann hefur hug á því að halda áfram að leiða Sjálfstæðisflokkinn enda geti hann ekki ímyndað sér neitt merkilegra og skemmtilegra en að móta framtíð lands og þjóðar.
Bjarni sagði núverandi verkföll og þau sem eru yfirvofandi mikið áhyggjuefni. „Ég hefði ekki spáð því fyrir níu mánuðum síðan að við værum í þessari stöðu. Lífskjarasamningarnir slógu tón sem ég batt mjög miklar vonir við að myndu smitast út í allar samningaviðræður í framhaldinu. Það kemur mér verulega mikið á óvart að viðræður sem ganga út frá því að það merki sem lífskjarasamningarnir settu út í vinnumarkaðsumhverfið skuli ekki hafa dugað til að leiða til niðurstöðu.“
Bjarni nefndi að ríkið hefði náð miklum árangri í þeim kjaraviðræðum sem átt hafa sér stað, t.d. hvað varðar kerfisbreytingu á vaktafyrirkomulagi og styttingu vinnuvikunnar. „Jafnvel þótt að ekkert annað gerðist en menn skrifi undir það sem ríkið hefur lagt á borðið í dag myndum við samt sem áður sjá algjöra tímamótasamninga.“
Nám metið til fjár
Egill Helgason, stjórnandi Silfursins, sagði að deilurnar snérust mikið um láglaunafólk og láglaunakonur og að fara þyrfti í sérstakar aðgerðir fyrir þá hópa.
„Við höfum verið að stórauka lífskjör þeirra sem eru neðst í launastiganum,“ sagði Bjarni og tók m.a. dæmi af skattkerfisbreytingum og breytingum á barnabóta- og fæðingarorlofskerfinu. „En það eru ákveðin lögmál sem er ekki hægt að horfa fram hjá. Það eru stéttir sem eru rétt fyrir ofan þá sem eru á lægstu laununum sem munu alltaf spyrja sig: Var það þess virði að fara í fimm ára háskólanám? Varð það þess virði að taka námslán?“
Hann sagði það háværa kröfu BHM síðustu ár að menntun sé metin til launa. „Þannig að það er ekki hægt að nálgast þessa umræðu þannig að það sé bara einn tónn, ein rödd sem að heyrist sem að það verði bara að hækka laun þeirra sem eru neðst í launastiganum. Nei, við erum með miklu flóknara kerfi.“
Lífskjör eldri borgara og láglaunafólks batnað mest
Spurður hvort að ríkið hafi gengið að undan með vondu fordæmi svaraði Bjarni að „allt þetta tal um þróun launa þeirra sem heyra undir kjararáð og aðrar launabreytingar á opinbera markaðnum, það reyndi á það við gerð lífskjarasamningsins. Og þrátt fyrir allt þá tókust þar samningar. Við verðum auðvitað líka að skoða hlutina í stærra samhengi. Hvernig hefur gengið að auka kaupmátt á Íslandi?“
Hann segir að „eitt það merkilegasta“ sem gerst hefði í þessum málum á undanförnum árum væri það að ríkið hefði „opnað bækurnar“ og gert vefinn tekjusagan.is, „þar sem við einfaldlega flettum hulunni af því hvernig kjör hafa þróast á Íslandi frá árinu 1991.[...] Vefurinn dregur það fram að okkur hefur tekist stórkostlega að bæta lífskjörin á Íslandi og einna best við þá hópa sem helst eru í umræðunni í dag; eldri borgara og þá sem eru neðst í launastiganum.“
Eitt lengsta hagvaxtarskeið sögunnar
Bjarni var einnig spurður út í horfur í efnahagsmálum og sagði mikilvægt að hafa í huga að við stöndum núna á vissan hátt á krossgötum. „Við erum að ljúka einhverju lengsta, samfellda hagvaxtarskeiði Íslandssögunnar. Við höfum notið góðs af því með vaxandi kaupmætti á undanförnum árum, við höfum verið að skila því í út í betri laun. Fólk hefur það almennt miklu betra heldur en fyrir uppgangstímann.“
Ríkissjóður hefur styrkt stöðu sína, fyrirtækin og heimilin sömuleiðis. Nú hægi aðeins á en áfram verður sótt fram. „Við erum á mög góðum stað og höfum búið í haginn fyrir erfiðari tíma.“
Blóð, sviti og tár
Haustið 2021 mun núverandi ríkisstjórn hafa setið í fjögur ár. Rætt hefur verið um hvort að kosningum verði flýtt til vorsins þar sem hefð er fyrir þingkosningum þá. Bjarni sagði að engin niðurstaða væri komin í það ennþá. „Ef ég á að segja hug minn allan þá segi ég; það kostar blóð, svita og tár að komast til valda. Af hverju í ósköpunum ætti maður að gefa það frá sér hálfu ári áður en að lög segja til um?“
Spurður hvort að hann ætlaði sér að halda áfram að leiða Sjálfstæðisflokkinn svaraði Bjarni að sér liði þannig að hann sé ekki búinn og að hann hafi stuðning. „Mig langar til að halda áfram, hvað getur verið meira spennandi í lífinu en að fást við það að móta framtíð lands og þjóðar og vera að leggja á borðið tillögur? Ég get ekki séð neitt annað sem gæti verið merkilegra og skemmtilegra að gera.“