Stefán Eiríksson, verðandi útvarpsstjóri, segist telja það mjög mikilvægt En að ef að til stendur að setja einhverjar takmarkanir á því hvernig RÚV vinnur á auglýsingamarkaði þá verði að fylgja með mjög skýr skilaboð frá stjórnmálamönnum um úr hverju eigi að draga í starfsemi fyrirtækisins samhliða. „Hvað eigi þá að láta undan í rekstri RÚV. Það hlýtur þá að kalla á breytingar á lögunum sem um Ríkisútvarpið gilda því þú getur ekki á sama tíma sett kröfu um það að þú sinnir einhverju hlutverki en dregið svo úr tekjunum án þess að taka stefnumarkandi ákvörðun um það hvað eigi að gera. Það er í höndum stjórnmálamanna.“
Þetta er meðal þess sem fram kom í ítarlegu viðtali við Stefán í Kjarnanum sem birtist um helgina.
Tekjur RÚV á árinu 2018, samkvæmt síðasta birta ársreikningi fyrirtækisins, voru 6,7 milljarðar króna. Þar af komu 4,3 milljarðar króna úr opinberum sjóðum vegna innheimtu á útvarpsgjaldi og tæpir 2,4 milljarðar króna vegna samkeppnistekna, sem eru að uppistöðu sala á auglýsingum í sjónvarpi og útvarpi.
Starfsemi RÚV hefur verið að styrkjast umtalsvert á undanförnum árum, að hluta til vegna þess að stjórnendur fyrirtækisins hafa gripið til óhefðbundinna aðgerða til að bæta rekstrarumhverfið. Sú sem mestu máli skipti var að selja byggingalóðir í kringum höfuðstöðvar RÚV í Efstaleiti fyrir hátt í tvo milljarða króna og endursamning á ógreiddum lífeyrisskuldbindingum inn í framtíðina með því að lengja í greiðsluferli þeirra til ársins 2057.
Stefán segist þó ekki hafa neinar áhyggjur af því að RÚV sé í betri rekstrarstöðu en samkeppnisaðilar þess. „Ég upplifi það ekki þannig að RÚV sé of stórt í vissum skilningi, en það er vissulega stórt. Hlutverkið sem að Ríkisútvarpinu er ætlað lögum samkvæmt og samkvæmt þjónustusamningi hefur mjög víðtæku og fjölbreyttu hlutverki í samfélaginu að gegna. Ég held satt best að segja að það sé mikill meirihluti almennings og stjórnmálamanna sem vilja að Ríkisútvarpið haldi áfram að sinna því hlutverki en að sama skapi er mikilvægt að það séu starfandi sjálfstæðir aðrir óháðir fjölmiðlar og að þeir fái stuðning, eins og menntamálaráðherra er búin að teikna upp með ákveðnum hætti í sínu frumvarpi, til þess að sinna sínum störfum með góðum hætti.“
Hægt er að lesa viðtalið við Stefán í heild sinni hér.