Mynd: Bára Huld Beck

Algjörlega tilbúinn í hið pólitíska at sem fylgir því að stýra RÚV

Stefán Eiríksson segist að sjálfsögðu hafa sínar pólitísku skoðanir og lífsviðhorf, en sé ekki tengdur neinum stjórnmálaflokkum og með góða reynslu af því að takast á við stjórnmálamenn. Hann segist því algjörlega tilbúinn að takast á við það mögulega pólitíska at sem getur fylgt því að vera útvarpsstjóri, en hann sest í þann stól 1. mars næstkomandi.

Nýr útvarpsstjóri hefur verið skipaður. Þar til fjórum dögum áður en tilkynnt var um hver myndi hreppa starfið hafði nafn hans vart verið nefnt í samhengi við það. Enda fáum sem datt í hug að lögfræðingur sem starfaði síðast á fjölmiðlum árið 1996, tveimur árum áður en mbl.is fór í loftið, væri að sækjast eftir því að stýra stærsta fjölmiðlafyrirtæki landsins. 

Aðspurður segir Stefán Eiríksson enda sjálfur að það sé ágætis spurning af hverju fyrrverandi lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins og borgarritari vilji verða útvarpsstjóri RÚV. 

„Ég hef haft þá trú og skoðun eftir að ég fór að vinna í stjórnunarstöðum innan stjórnsýslunnar að því ætti að vera afmarkaður tími. Að stjórnendur ættu að vera í tiltekinn tíma, fimm til tíu ár, á hverjum stað. Ég gaf það skýrt til kynna þegar ég tók við sem lögreglustjóri að þannig horfði ég á þetta og þannig er það enn. Ég er búinn að vera núna rúm fimm ár hjá Reykjavíkurborg. Það hefur verið frábær tími. 

En svo opnaðist þarna tækifæri þegar ég las auglýsinguna um starf útvarpsstjóra RÚV og ég ákvað að láta á þetta reyna. Ég hef mikinn áhuga á fjölmiðlum og þróun á því sviði, fyrir utan að vera sérstakur aðdáandi Ríkisútvarpsins.“

Það voru ekki allir sáttir með valið á Stefáni í stöðuna. Að minnsta kosti tveir hinna rúmlega 40 umsækjendanna hafa kallað eftir rökstuðningi fyrir valinu, þær Kristín Þorsteinsdóttir, fyrrverandi ritstjóri Fréttablaðsins, og Kolbrún Halldórsdóttir, fyrrverandi umhverfisráðherra, sem var ásamt Stefáni sú síðasta úr hópi umsækjenda sem stóð eftir. Stjórn RÚV kaus svo á milli þeirra. Kolbrún sagði nýlega í samtali við Stundina að hún teldi líkur á því að hún væri órétti beitt og að hennar persónulega mat væri „að þarna hafi minna hæfur karlmaður verið tekinn fram yfir hæfari konu“.

Í þessu samhengi hefur mikið verið bent á ætlað reynsluleysi Stefáns af fjölmiðlastörfum. Hann kippir sér þó ekkert upp við að vera beðinn um að rökstyðja hvað það sé sem geri það að verkum að það hafi verið réttlætanlegt að taka hann fram yfir aðra umsækjendur. „Ég horfði á þær kröfur sem stjórn RÚV gerði í sinni auglýsingu og sá að þar var verið að kalla eftir einstaklingi sem hefði mikla stjórnunarreynslu. Hefði reynslu af mótun og innleiðingu stefnu og hefði sýn á það hvernig væri hægt að takast á við þá þróun sem er framundan. En það var auðvitað líka verið að kalla eftir þekkingu og reynslu á sviði fjölmiðlunar, menningarmála og fleiri atriða. 

Ég taldi einfaldlega að ég hefði eitt og annað fram að færa. Minn styrkleiki felst auðvitað í því að ég hef verið stjórnandi hjá opinberum stofnunum, stjórnarformaður í opinberu hlutafélagi, verið í eigandahlutverki fyrir hönd Reykjavíkurborgar gagnvart hlutafélögum í eigu borgarinnar og svo framvegis. Þetta greinilega vóg þungt í mati stjórnar RÚV, myndi ég halda. Þó svo að fólk með mjög mikla reynslu af fjölmiðlum hafi auðvitað mjög margt fram að færa þá skoruðu þau kannski ekki jafnt hátt þegar kom að þessari stjórnunarreynslu.“

Stefán hefur verið varfærinn á yfirlýsingar um þær áherslubreytingar sem kunni að fylgja honum þegar hann hefur störf á RÚV 1. mars næstkomandi. Þegar hann er spurður hvort að RÚV hafi aðlagast þeim breytingum í neysluhegðun og miðlun efnis sem kúvent hefur fjölmiðlaheiminum á örfáum árum, og hvort hann sé þegar búinn að sjá tækifæri fyrir ríkisfjölmiðilinn að gera betur í þeim efnum. þá segist hann telja að RÚV hafi staðið sig nokkuð vel í aðlöguninni hingað til. „En ég held að við þurfum að gera okkur grein fyrir því að RÚV er, í samanburði við þessar erlendu streymisveitur, pínulítill aðili. Þetta er örmiðill í samanburði við þessa stóru. Ef að RÚV á ekki að týnast þá er klárt mál í mínum huga að það þarf að hlúa mjög vel að þessu. Að öllum þessum málum sem snúa að hugbúnaði og hvernig efninu er miðlað og vera á tánum hvað það varðar.“

Ef það á að draga saman hjá RÚV þurfa stjórnmálamenn að segja hvernig

Tekjur RÚV á árinu 2018 voru 6,7 milljarðar króna. Þar af komu 4,3 milljarðar króna úr opinberum sjóðum vegna innheimtu á útvarpsgjaldi og tæpir 2,4 milljarðar króna vegna samkeppnistekna, sem eru að uppistöðu sala á auglýsingum í sjónvarpi og útvarpi. 

Sú framþróun sem átt hefur sér stað í fjölmiðlum hefur að mestu átt sér stað í ólínulegri dagskrá þar sem neytendur geta valið sér hvað þeir horfa eða hlusta á þegar þá langar til. Sú miðlun á sér að stóru leyti stað í gegnum efnisveitur og á internetinu, á sviðum sem RÚV má ekki afla sér tekna samkvæmt lögum. 

Stefán telur að línuleg dagskrá sé ekki á undanhaldi þótt RÚV verði að mæta ofangreindri þróun eins og aðrir fjölmiðlar. Hann gerir sér grein fyrir því að það séu töluverðar takmarkanir á því hvernig RÚV getur aflað sér samkeppnistekna en finnst hins vegar engin ástæða til að víkka út þann ramma sem RÚV hefur á því sviði. „ Þetta er auðvitað ein af þeim áskorunum sem Ríkisútvarpið mun standa frammi fyrir á næstu fimm til tíu árum. Það er alveg fyrirsjáanlegt að tekjur af auglýsingum munu í meira mæli fara í gegnum nýja miðla og nýjar leiðir til miðlunar þar sem RÚV hefur ekki heimild, samkvæmt lögum, að afla sér tekna, heldur verður að halda sig við, eins og ramminn er í dag, þessa hefðbundnu línulega dagskrá í þeim efnum.

RÚV er stærsta fjölmiðlafyrirtæki landsins og þrátt fyrir mikið traust almennings til þess þá er RÚV einnig afar umdeilt í mörgum kreðsum.
Mynd: Þórður Snær Júlíusson

Í mínum huga er það áskorun og ef að tekjur RÚV munu dragast umtalsvert saman, af hvaða ástæðu svo sem sem það er, þá er það eitthvað sem þarf að mæta með minna umfangi eða færri tækifærum til að koma efninu á framfæri. Það segir sig bara sjálft. Þetta snýst um hvaða rammi er settur utan um RÚV og það eru stjórnmálamenn sem gera það á hverjum tíma.“

Hann segir að sú þróun sem orðið hefur á fjölmiðlaumhverfinu á síðustu tíu árum sé sérlega áhugaverð. Hvernig miðlunarmöguleikar hafi breyst, hvernig eigi að koma fréttum og öðru efni sem fjölmiðlar séu að framleiða til þeirra sem nota þjónustuna. „Svipað og þegar að Kjarninn var að hefja sína starfsemi og gaf út sín fyrstu tölublöð á spjaldtölvu. Mér fannst það vera áhugaverð nýjung inn í ansi staðnað fjölmiðlaumhverfi. Ég skrifaði pistla í þessi fyrstu tölublöð sem lögreglustjóri og nýtti mér þann vettvang til að koma ýmsum málum á framfæri og inn í umræðuna.“

Algjörlega tilbúinn í atið

RÚV er sjá fjölmiðill á landinu sem nýtur mest trausts. Og það hefur vaxið frekar en hitt á undanförnum árum. Þótt staða fyrirtækisins sé sterk á meðal þjóðarinnar sem heildar þá velkist heldur enginn í vafa um að RÚV er umdeilt fyrirtæki. Framganga fréttastofunnar og einstakra dagskrárgerðarmanna er oft til almennrar umræðu og ratar jafnvel inn á hið pólitíska svið. 

Það liggur einfaldlega fyrir að til staðar eru margir stjórnmálamenn sem vilja leggja RÚV niður eða hið minnsta takmarka starfsemi fyrirtækisins verulega, þó þeir séu líkast til sem stendur fjarri því að vera í meirihluta. Nánast daglega má sjá umræður á samfélagsmiðlum þar sem þekktir álitsgjafar, fólk tengt stjórnmálaflokkum eða aðrir sem halda á gjallarhorninu hverju sinni, opinbera meiningar um ætlaða slagsíðu RÚV í hinum og þessum málum. Fólk til vinstri ætlar fréttastofunni að vera málpípa íhaldsins og skilgreindir hægrimenn segja hana margir hverjir vera óopinbera deild félagshyggjuflokka. 

Hvort sem Stefáni Eiríkssyni líkar betur eða verr þá var hann að ráða sig í stöðu sem fylgir mikið pólitískt at. Er hann tilbúinn í það?

„Ég er algjörlega tilbúinn í það. Ég hef starfað í þessu umhverfi innan stjórnsýslunnar þar sem það hefur verið mikið nálægð við pólitíkina. Kannski fyrst og síðast í ráðuneytinu og í Reykjavíkurborg þar sem ég hef unnið mjög náið með kjörnum fulltrúum að ýmsum málum. Ég held að sumu leyti sé meiri fjarlægð frá pólitíkinni hjá Ríkisútvarpinu þótt það sé oft í umræðunni. Þetta jafnvægi, að gagnrýnin kemur úr öllum áttum, frá hægri til vinstri, frá frjálslyndum og íhaldssömum og svo framvegis, held ég að sýni að RÚV gangi, og hefur gengið, nokkuð vel á liðnum árum og áratugum að finna jafnvægi þarna á milli.“

Með sínar skoðanir og lífsviðhorf

Stefán er ekki reynslulaus þegar kemur að átökum við kjörna fulltrúa. Hann var lögreglustjóri þegar lekamálið stóð yfir og Hanna Birna Kristjánsdóttir, þáverandi dómsmálaráðherra, hótaði honum að þegar málinu yrði lokið þyrfti „að rann­saka rann­sókn lög­reglu og rík­is­sak­sókn­ara“. Hanna Birna baðst síðar afsökunar á þeim ummælum en þurfti samt sem áður að segja af sér embætti vegna málsins í lok árs 2014. 

Sem borgarritari skrifaði Stefán stöð­u­­upp­­­færslu í lok­aðan Facebook-hóp ­starfs­­manna Reykja­vík­­­ur­­borgar þann 21. febr­­úar 2019 þar sem hann sagði fáeina borg­­ar­­full­­trúa ítrekað hafa vænt starfs­­fólk borg­­ar­innar um óheið­­ar­­leika og vegið með ýmsum öðrum hætti að starfs­heiðri þeirra, bæði beint og óbeint. Sagði hann þessa hegð­un, atferli og fram­komu vera til skammar og um leið til mik­ils tjóns fyrir Reykja­vík­­­ur­­borg, starfs­­fólk hennar og íbúa alla. Stefán nefndi hins vegar engan borg­­ar­­full­­trúa í færslu sinn­i, en nokkuð víst er að hann átti þar við full­trúa úr minni­hluta borg­ar­stjórn­ar, sem höfðu gagn­rýnt starfs­menn borg­ar­innar opin­ber­lega. Þar fór fremst í flokki Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins, sem brást við ráðningu Stefáns í stól útvarpsstjóra með því að segja á Facebook: „Eru allir búnir að gleyma því að hann kall­aði okkur í minni­hlut­anum „tudda á skóla­lóð“. Þetta eru mjög slæmar fréttir fyrir okkur verð ég að segja – hlut­leysi hvað?“.

Stefán Eiríksson hefur verið bæði lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu og borgarritari.
Mynd: Bára Huld Beck

Það fór enda mikill samkvæmisleikur í gang strax og tilkynnt var um ráðningu Stefáns þar sem reynt var að setja á hann ákveðinn pólitískan hatt og sá hattur rökstuddur með einhverri vísun í fyrri störf hans. 

Hann segir að það skipti örugglega máli, nú þegar hann sest í stól útvarpsstjóra, að hafa þá reynslu sem hann hefur af samskiptum við stjórnmálamenn, og rakin er hér að ofan. „En þetta er ekkert sem truflar mig eða ég óttast eða er kvíðinn fyrir því að að takast á við þetta samtal. Það góða við þetta, eins og með Ríkisútvarpið, er að ég hef verið staðsettur á öllum stöðum á hinum pólitíska kvarða. Ég hef að sjálfsögðu mínar pólitísku skoðanir og mín lífsviðhorf þó að ég hafi ekki verið í flokkspólitísku starfi eða komið nálægt því, nema á síðustu árum í einstaka prófkjörum til að styðja vini mína, á unglingsárum og í háskóla og eitthvað slíkt. Ég hef engar sérstakar áhyggjur af þessu pólitíska umhverfi og það er bara hluti af Ríkisútvarpinu, eðli málsins samkvæmt, að þar er mikil pólitík og miklar bollalengingar um ýmsa hluti.“

RÚV ekki of stórt

Rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla á Íslandi hefur verið ansi skrautlegt á undanförnum árum. Síðustu tíu ár sérstaklega, samhliða því að helstu hefðbundnu tekjustoðir þeirra, auglýsinga- og áskriftarsala, hafa gefið verulega undan. Margir stærstu miðlarnir hafa til að mynda verið reknir í botnlausu tapi árum saman. 

Á meðan má færa rök fyrir því að starfsemi RÚV hafi verið að styrkjast umtalsvert. Þar skiptir mestu máli að fyrirtækið seldi byggingalóðir í kringum höfuðstöðvar sínar í Efstaleiti fyrir hátt í tvo milljarða króna og samdi síðan um að ýta ógreiddum lífeyrisskuldbindingum inn í framtíðina með því að lengja í greiðsluferli þeirra til ársins 2057. Með þessu var skapað mun skaplegra rekstrarumhverfi fyrir stjórnendur RÚV á síðustu árum. Og það rekstrarumhverfi mun Stefán, að einhverju leyti, ganga inn í. Að minnsta kosti að óbreyttu.

Hann segist ekki hafa neinar áhyggjur af því að RÚV sé í betri rekstrarstöðu en samkeppnisaðilar þess. „Ég upplifi það ekki þannig að RÚV sé of stórt í vissum skilningi, en það er vissulega stórt. Hlutverkið sem að Ríkisútvarpinu er ætlað lögum samkvæmt og samkvæmt þjónustusamningi hefur mjög víðtæku og fjölbreyttu hlutverki í samfélaginu að gegna. Ég held satt best að segja að það sé mikill meirihluti almennings og stjórnmálamanna sem vilja að Ríkisútvarpið haldi áfram að sinna því hlutverki en að sama skapi er mikilvægt að það séu starfandi sjálfstæðir aðrir óháðir fjölmiðlar og að þeir fái stuðning, eins og menntamálaráðherra er búin að teikna upp með ákveðnum hætti í sínu frumvarpi, til þess að sinna sínum störfum með góðum hætti.

En að saman skapi verða allir fjölmiðlar, Ríkisútvarpið, sem er á auglýsingamarkaði að hluta, og síðan aðrir fjölmiðlar að aðlaga sig að þessu breytta samfélagi. Og aðlaga sig að breyttu umhverfi um miðlun og sölu auglýsinga og slíks efnis. Ef að viðkomandi er ekki á tánum hvað það varðar þá verður hann hratt og örugglega undir. Og við höfum séð alveg gríðarlegar sviptingar á þessum markaði.“

Stefán minntist á frumvarp mennta- og menningarmálaráðherra um stuðning við einkarekna fjölmiðla, sem mælt var fyrir í desember í fyrra og situr nú fast inni í allsherjar- og menntamálanefnd. Staða RÚV, og sérstaklega þátttaka þess á auglýsingamarkaði, er ítrekað tengd við umræðu um það frumvarp og jafnvel því að það fái fram að ganga. 

„Ég held að það sé mjög mikilvægt að ef að til stendur að gera einhverjar takmarkanir á því hvernig RÚV vinnur á auglýsingamarkaði þá verði að fylgja með mjög skýr skilaboð um úr hverju eigi að draga, segir Stefán Eiríksson.
Mynd: Bára Huld Beck

Stefán segist ekki hafa sett sig neitt inn í það pólitíska umhverfi sem fylgi frumvarpinu né umræðunni sem því fylgir um RÚV umfram það sem hann hafi lesið í fjölmiðlum. „Ég er ekki tekinn við sem útvarpsstjóri og hef ekki fengið innsýn í þau mál frá þeim sjónarhóli. En ég held að það sé mjög mikilvægt að ef að til stendur að gera einhverjar takmarkanir á því hvernig RÚV vinnur á auglýsingamarkaði þá verði að fylgja með mjög skýr skilaboð um úr hverju eigi að draga. Hvað eigi þá að láta undan í rekstri RÚV. Það hlýtur þá að kalla á breytingar á lögunum sem um Ríkisútvarpið gilda því þú getur ekki á sama tíma sett kröfu um það að þú sinnir einhverju hlutverki en dregið svo úr tekjunum án þess að taka stefnumarkandi ákvörðun um það hvað eigi að gera. Það er í höndum stjórnmálamanna.“

Hefur mikinn áhuga á að auka sérhæfingu

RÚV, og sérstaklega fréttastofu fyrirtækisins, er gert að vera með fréttaþjónustu allan sólarhringinn. Þar eru því gengnar vaktir. Annað veifið hafa yfirmenn fréttadeildar, þar með talin núverandi fréttastjóri Rakel Þorbergsdóttir, greint frá því opinberlega að það sé takmarkað hvað fréttamenn sem „séu í mokstri allan daginn“, eins og hún orðaði það í bókinni Þjáningarfrelsið sem kom út árið 2018, geti sérhæft sig. 

Aðspurður hvort það sé eitthvað sem hann muni leggja áherslu á, að auka tækifæri starfsmanna RÚV, sérstaklega innan fréttastofunnar, til að sérhæfa sig, svarar Stefán því játandi. „Alveg tvímælalaust. Ég held að það sé eitt af þessum mikilvægu hlutverkum sem RÚV sinnir í sambandi við fréttir og miðlun þeirra að sinna dýpri fréttamennsku. Að gefa þeim sem að starfa á fréttastofunni og í sérhæfðum þáttum tækifæri til að helga sig tilteknum málum, eða málaflokkum jafnvel. Eins og hefur raunar verið gert á undanförnum árum, með nokkrum góðum árangri myndi ég segja. Ég held að það  sé alveg klárt mál að sérstaða Ríkisútvarpsins hlýtur að liggja þarna. Þess vegna hef ég mikinn áhuga á því að leggja mikla áherslu á þetta.“

Hefur áhyggjur af falsfréttum og upplýsingabjögun

Við lifum á tímum upplýsingabjögunar og falsfrétta og svartsýnustu greinendur telja að slíkir hlutir, blandað saman við samfélagsmiðla án nokkurrar ritstýringar og takmarkaðs eftirlits með sannleika, sé uppskrift að falli lýðræðisins. Stefán viðurkennir að hann hafi áhyggjur af þessum málum þótt hann sjái, engu að síður, ýmisjákvæð merki hjá þjóðum heims til þess að takast á við þessi verkefni.

Hann telur að RÚV geti leikið mikilvægt hlutverk til að berjast gegn þessari þróun hérlendis. „RÚV hefur lýðræðishlutverki að gegna og það er hægt að sinna því með fjölbreyttum hætti. Til dæmis með aukinni samvinnu við grunnskóla, menntaskóla jafnvel háskóla. Ég sé það, í gegnum fjölskyldutengsl þar sem konan mín er grunnskólakennari, og veit það frá Reykjavíkurborgar að það er gott samstarf milli borgarinnar, Skóla- frístundasviðs, og RÍkisútvarpsins við framleiðslu á ýmsu efni sem grunnskólarnir nota svo í kennslu og fræðslu og þjálfun.“

Hann segir þó að allir fjölmiðlar verði að leggja sín lóð á vogarskálarnar. „Það sama á við um alla fjölmiðla hér á landi sem vilja taka þátt í því að dreifa réttum upplýsingum. Það þarf umhverfið allt saman. Bæði Ríkisútvarpið en líka aðra frjálsa og vandaða gæðafjölmiðla sem þarf auðvitað að styrkja með fullnægjandi hætti þannig að þeir gæti allir sinnt þessu hlutverki.“

RÚV er auðvitað ekki venjulegt fjölmiðlafyrirtæki. Það hefur til að mynda víðtækum öryggisskyldum að gegna samkvæmt sérlögum þess, þar sem stendur m.a.: Ríkisútvarpið skal í samvinnu við til þess bær stjórnvöld tryggja nauðsynlega öryggisþjónustu með upplýsingamiðlun um útvarp og þegar við á eftir öðrum boðleiðum. Ríkisútvarpið skal í því skyni setja sér öryggisstefnu um órofinn rekstur hljóðvarpsþjónustu um land allt og á næstu miðum.“

Stefán þekkir almannavarnahlutverki vel úr annarri átt, frá því að hann var lögreglustjóri. Þegar hann er spurður hvort að RÚV sé að beita réttum miðlunarleiðum til að fullnægja þessu öryggishlutverki sem fyrirtækinu er ætlað samkvæmt lögum segir að það sé hlutur sem hann hafi velt töluvert fyrir sér. „Sérstaklega þegar ég var hinum megin við borðið hjá lögreglunni og var þar í ákveðnu hlutverki í almannavarnarástandi til dæmis. Mér þótti það á þessum tíma að RÚV héldi sig á þessum tíma, kannski af tillitsemi við aðra fjölmiðla, örlítið til baka, þrátt fyrir mjög skýrt hlutverk samkvæmt lögum þegar að slíkt ástand er uppi. 

Ég held að RÚV eigi ekkert að vera feimið við það að sinna þessu hlutverki og sinna því í þágu alls almennings í landinu og í rauninni í þágu allra fjölmiðla í landinu. Ég held að það sé atriði sem ég myndi vilja skoða og ræða innan veggja Ríkisútvarpsins hvernig við getum nálgast öryggishlutverkið og fleiri hlutverk með það fyrir augum að við séum ekki að búa alltaf til einhver mismunandi lið, við og þið, heldur að Ríkisútvarpið hafi það hlutverk að vera í samstarfi með öðrum fjölmiðlum og eftir atvikum fleiri, í slíkum verkum.“

Vill opna safn RÚV fyrir öllum til afnota

Stefán sér líka tækifæri í að breyta og þróa þegar kemur að öllu því efni sem er framleitt hjá RÚV, og er til staðar í safni fyrirtækisins. „Ég vil að þetta sé opið og aðgengilegt öllum almenningi og öðrum fjölmiðlum til frjálsra nota. Í rauninni eru einu takmarkanir þá rétthafatakmarkanir sem tengjast þá samningum við listamenn og eitthvað slíkt. En svoleiðis opnun held ég að geti skipt mjög miklu máli. Þannig að miðill eins og til dæmis Kjarninn geti nýtt sé efni sem er aðgengilegt hjá RÚV og hafi í rauninni fulla heimild til að gera það.“

Hann viðurkennir að búa ekki persónulega yfir tæknilegu þekkingunni til að framkvæma þessa hugmynd né átta sig, eins og stendur, almennilega á umfangi þess að gera allt þetta efni aðgengilegt. Stefán er hins vegar sannfærður um að ríkið geti fundið leiðir til að sinna þessu hlutverki sínu með hagkvæmum hætti, að geyma og miðla efni. „Það er auðvitað gríðarlega mikið efni sem er verið að framleiða á vegum ríkisins. Ef þú horfir bara á lögregluna, þar sem að allar yfirheyrslur eru teknar upp og vistaðar á einhverjum ákveðnum stað og aðgengilegar fyrir lögreglu, ákæruvald og dómstóla ef svo ber undir. Allt sem gerist inni hjá dómstólunum er tekið upp. Og ýmsir fleiri opinberir aðilar sem eru í þessu svo ég tali ekki um opinber söfn eins og Þjóðskjalasafnið, Borgarskjalasafnið, bókasöfnin í landinu og allt það. 

Af hverju búum við ekki til einhvern einn stað þar sem við getum vistað þetta efni? Og gert það aðgengilegt að teknu tilliti til að það þarf auðvitað að takmarka aðgang að ýmsu af þessu efni með ýmsum hætti, en þetta ætti að vera hægt að gera með ákveðnum hætti.

Ríkisútvarpið er auðvitað að starfa í þágu allra landsmanna. Það efni sem þar hefur orðið til á að vera aðgengilegt öllum landsmönnum. Ég held að það væri rétt og eðlilegt að stiga það skref að aðrir fjölmiðlar geti nýtt sér þetta.“


Vilt þú vera með?

Frjálsir, hugrakkir fjölmiðlar eru ómetanlegir en ekki ókeypis. Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda og með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og við ætlum að standa vaktina áfram og bjóða almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Fyrir þá lesendur sem nú þegar eru stoltir styrkjendur Kjarnans þá leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar