Bára Huld Beck

Traust almennings á dómstólum

Auður Jónsdóttir rithöfundur hitti gamalreyndan lögmann, Ragnar Aðalsteinsson, til að ræða hið svokallaða Landsréttarmál. Málið vekur upp áleitnar spurningar og heldur það áfram að draga dilk á eftir sér – og ekki er enn fyrirséð hverjar afleiðingarnar verða.

Landsréttarmálið svokallaða er nú til meðferðar hjá efri deild Mannréttindadómstólsins í Strassborg. Neðri deildin þótti bregðast fljótt við erindinu út af Landsréttarmálinu og málið gekk mjög hratt fyrir sig. Því er ekki útilokað að málið hljóti hraða málsmeðferð hjá efri deildinni en á meðan málið er þar veltum við vöngum. Þetta mál vekur upp stórar spurningar, kannski er ein stærsta spurningin: Getur almenningur treyst dómstólum, ef framkvæmdarvaldið nýtir valdið til að hafa af þeim afskipti?

Já, maður eða öllu heldur kona spyr sig um leið og hún staldrar við ummæli fyrrverandi dómsmálaráðherra, Sigríðar Á. Andersen, um dómstólinn almennt og út frá þessu máli. Eitthvað í orðum Sigríðar kann að virðast hljóma smættandi fyrir dómsferlið, jafnvel finnst konu hún greina pr-tón á milli línanna.

Kona spyr sig jafnvel: Er viðeigandi að Sigríður, sem fyrrverandi dómsmálaráðherra, tjái opinberlega sýn sína á málið og ferli þess á meðan það er til meðferðar hjá dómstólum?

Um daginn hitti ég Ragnar Aðalsteinsson í öðrum erindagjörðum, en talið barst að þessu máli og vangaveltur hans hljómuðu svo kjarnaðar að mér fannst tilvalið að þær fengju að fljóta út í samfélagið; samfélag þar sem fólk veltir nú vöngum yfir og tekst á um hversu alvarlegt þetta mál er í sjálfu sér. Mál þetta snertir grunnstoðir lýðræðisins á þann hátt að nauðsynlegt er að við ræðum það og rökræðum. Í dægurþrasinu hafa einhverjir viðrað áhyggjur af sjálfstæði fullveldisins þegar rætt er um aðild okkar að Mannréttindadómstólnum. En umhugsunarefnið er kannski öllu frekar hvernig við viljum standa að fullveldinu. Ef ekki er staðið rétt að hlutum eins og skipan dómstóla er hætta á að við myljum sjálf fullveldið undan okkur.

Sólin lýsir upp Rétt

Á fyrsta sólskinsdegi ársins rölti ég á skrifstofuna hans Ragnars. Lögfræðistofan heitir Réttur og á vegg andspænis dyrunum hangir plakat með áletruninni: Rétt er rétt. Húsnæðið er skemmtilega retró og ber með sér ilm af óteljandi gestakomum; orðum og vangaveltum. Eitthvað ferskt loðir við húsakynnin um leið og innréttingarnar eru gamalgrónar, á stöku vegg hanga plaköt og myndir og eitthvað við umhverfið fær mann til að hugsa að ásýnd lögfræðistofunnar sé ekki skrifstofulega dæmigerð.

Ragnar hefur alla ævi verið knúinn áfram af forvitni, eins konar þörf fyrir að greina hvar annmarkar kerfisins kunna að birtast og láta reyna á þá. Hann hefur sjálfur sagt mér að forvitni fái oft að ráða því hvaða mál hann taki að sér. Hann er iðulega forvitinn um virkni kerfisins og umbreytingamáttinn sem felst í því að praktísera lög.

Ég tylli mér andspænis honum og bið hann um að útskýra fyrir mér, hinum almenna, fávísa fulltrúa almennings, hitt og þetta um Landsréttarmálið sem er nú komið út fyrir landsteinana.

Þetta er ekki venjuleg áfrýjun eins og við köllum það, segir Ragnar hæglega og bætir við að í undantekningartilvikum sé hægt að vísa máli til efri deildar Mannréttindadómstólsins, þó að málið sé ennþá til meðferðar hjá neðri deild – en jafnframt eftir að dómur gangi þar. 

Málið er síðan flutt í öllum atriðum og dæmt í öllum atriðum í efri deildinni, fari málið þangað, þannig að meðferðin er ólík meðferð áfrýjunardómstóls, útskýrir hann og heldur áfram: Að vísu er rétt að í lögunum, sem lögfestu mannréttindasáttmálann hér á landi, þá er tekið fram að dómar dómstólsins séu ekki bindandi fyrir Ísland. Þetta breytir ekki því að í framkvæmd höfum við ætíð tekið fullt tillit til dóma dómstólsins og breytt íslenskum lögum í samræmi við dómana; jafnvel í grundvallaratriðum, eins og t.d. þegar mál sem fór fyrir dómstólinn leiddi til að allri íslenskri dómskipan var breytt í grundvallaratriðum.

Þetta var mál Jóns, hjólreiðamanns á Akureyri, bara ómerkilegt brot; náungi á hjóli sem braut einhverjar umferðarreglur. En þá var það þannig að sami maður gat rannsakað málið og dæmt, sýslumaður og fulltrúar hans fóru bæði með rannsókn málsins og dóma. Málið leiddi til þess að það varð aðskilnaður á milli dómsvalds og framkvæmdarvalds. Eiríkur Tómasson fór með þetta mál til Strassborgar og það hafði gríðarlega róttæk áhrif. Málinu lauk með sátt en hluti af sáttinni var að Ísland gjörbreytti skipan dómstólanna.

Ragnar Aðalsteinsson og Auður Jónsdóttir ræða málin.
Bára Huld Beck

Í framhaldi af þessu telur Ragnar rétt að minna á að nú sé æ meiri áhersla lögð á aðskilnað dómsvald og framkvæmdarvalds í Evrópu og það nákvæmlega sama gildi hér á landi.

Við höfum í nokkrum skrefum tekið valdið af dómsmálaráðherra til að skipa dómara og fært það til matsnefndar sem skipuð er sérfræðingum. Þó gildir sú undantekning að vilji dómsmálaráðherra breyta niðurstöðum matsnefndar getur hann lagt tillögu um slíka breytingu fyrir Alþingi, segir hann.

Alþingi fór ekki eftir fyrirmælum laganna

Og þá aftur að hinum fávísa fulltrúa almennings sem biður Ragnar um að útskýra fyrir sér hvað hafi nákvæmlega gerst í þessari atburðarás sem við köllum Landsréttarmálið.

Ragnar gefur sér augnablik til að íhuga áður en orðin flauma, síðan má kona hafa sig alla við að hraðskrifa útlistingar hans:

Það sem að gerðist í Landsréttarmálinu var að þessi matsnefnd, skipuð sérfræðingum, komst að þeirri niðurstöðu að fimmtán af þeim sem sóttu um stöðu dómara í Landsrétti væru hæfari en aðrir umsækjendur.

Dómsmálaráðherra sætti sig ekki við niðurstöður matsnefndarinnar, heldur tók hún nöfn fjögurra af þessum fimmtán af lista matsnefndar og setti þeirra í stað fjóra umsækjendur sem matsnefndin hafði skipað neðar, talið hæfa en ekki hæfasta, heldur hann áfram. Hún tók sér þannig vald sem henni er heimilað í lögum um skipan dómara, en þetta vald hefur hún ekki ein, heldur verður hún að fá samþykki Alþingis fyrir breytingunni. Í þessu sérstaka tilviki, þar sem verið var að fjalla um skipan dómara í nýjan dómstól, fimmtán að tölu, hafði verið sett ákvæði í lög þess efnis að ef til þess kæmi að málið færi fyrir Alþingi, vegna þess að dómsmálaráðherra féllist ekki á niðurstöðu matsnefndar, þá væri Alþingi skylt að taka afstöðu til hvers og eins dómaraefnanna sem ráðherra lagði til við Alþingi. Í þessu tilviki, þá fór Alþingi ekki eftir fyrirmælum laganna heldur ákvað að greiða atkvæði um allan hópinn sem ráðherra lagði til – í einu lagi. Óumdeilanlegt er að þetta er annmarki á meðferð málsins hjá Alþingi, en ágreiningurinn er um það hvort þetta sé mikilvægt eða óverulegt brot á lögum.

Ragnar sýpur á vatni, eilítið fjarrænn og segir síðan: Þá komum við aftur að hlutverki dómsmálaráðherra. Dómsmálaráðherra fer að sjálfsögðu með stjórnvald og er bundinn af lögum um meðferð stjórnsýsluvalds. Ein mikilvægasta meginregla á því sviði fjallar um rannsóknarskyldu stjórnvalda. Þar sem að fyrrverandi dómsmálaráðherra hafði hug á því að breyta niðurstöðum matsnefndar var henni skylt að rannsaka málið ýtarlega og færa fram rök fyrir breytingu sem ráðherra vildi gera. Af því að ráðherrann vildi koma fjórum nýjum umsækjendum að og taka fjóra í burtu, þá var henni skylt, samkvæmt þessari rannsóknarreglu, að bera saman, hið minnsta, þessa fjóra sem hún vildi koma að og þá fjóra sem hún vildi taka í burtu. En að mínu áliti átti hún að bera saman alla nítján dómarana, þá fimmtán sem matsnefndin valdi og þá fjóra sem hún vildi koma að. Og síðan rökstyðja, á málefnalegan hátt, þær breytingar sem hún vildi gera. Til að framkvæma þessa rannsókn og eftirfarandi mat hefði hún þurft að leita til sérfræðinga sér til aðstoðar, botnar hann.

Með því að gúggla dálítið rakst hinn fávísi fulltrúi almennings á eftirfarandi ummæli Sigríðar Á. Andersen í Víglínunni: „Hæstiréttur kemst að þessari niðurstöðu í desember 2017 að ég hafi ekki rannsakað málið nægilega. Hæstiréttur kemst hins vegar að því stuttu seinna að þrátt fyrir þetta þá sé þetta ekki þannig annmarki að hafi varðað lögmæti skipunar dómaranna og ekki heldur að Alþingi hafi ákveðið, sem ég kom ekkert nálægt, Alþingi ákvað að greiða í einu lagi um fimmtán tillögur í stað þess að bera hverja og eina tillögu upp fyrir sig.“ Hún vísar þar í dóm Hæstaréttar sem féll í desember 2017 um skipun dómara við Landsrétt.

Pólitískur vandi

Ragnar segir að miðað við gögn dómstólanna þá hafi ráðherra ekki talið ástæðu til að leita til sérfræðinga við þessa rannsókn og þetta mat, heldur ákveðið að byggja á eigin mati. Hann tekur fram að við ákvörðunina hafi dómsmálaráðherra verið í hlutverki stjórnmálamanns en ekki sérfræðings í lögfræði. 

Hún lagði síðan sína nýju tillögu fyrir Alþingi, án þess að þeim tillögum fylgdi fullnægjandi rökstuðningur, hvorki fyrir vali hinna fjögurra sem hún bætti við né hinna fjögurra sem hún tók af lista matsnefndar, segir hann. Dómstólar hafa komist að þeirri niðurstöðu að rökstuðningur hennar hafi verið ófullnægjandi. Alþingi átti þess kost að krefja ráðherrann um frekari og fullnægjandi rökstuðning en lét það undir höfuð leggjast.

Sitthvað gekk þó á og við upprifjun á þessu fann hinn fávísi fulltrúi almennings frétt á Stundinni sem rifjaði upp að Viðreisn hefði á sínum tíma gert athugasemdir við hæfislistann vegna kynjasjónarmiða, en þar má lesa eftirfarandi: „Þingmenn Viðreisnar greindu frá því á opna fundinum í gær að það hefði verið á grundvelli jafnréttissjónarmiða sem þeir vildu fara fram hjá vali hæfisnefndar, sem hafði valið tíu karlmenn og fimm konur.

Við breytingu Sigríðar á listanum urðu konurnar sjö, en karlarnir átta. Sigríður tók ekki undir það í viðtölum strax eftir ákvörðunina að jafnréttissjónarmið hefðu legið að baki vali hennar, en vísaði síðar til þess að það ætti við.“ 

Annars vegar voru þeir Eiríkur Jónsson, Jón Höskuldsson, Jóhannes Rúnar Jóhannsson og Ástráður Haraldsson teknir af listanum og hins vegar komu í staðinn Arn­­­­­­fríður Ein­­­­­­ar­s­dótt­ir, Ragn­heiður Braga­dótt­ir, Ásmundur Helga­­­­­­son og Jón Finn­­­­­­björns­­­­­­son. 

Meirihluti Sjálfstæðisflokksins, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar hleypti málinu í gegn á sínum tíma. Björt Ólafsdóttir, umhverfisráðherra úr Bjartri framtíð, gagnrýndi femínista fyrir að leggjast gegn breytingu Sigríðar. Hún sagði að svokallað faglegt mat hæfisnefndar á umsækjendum væri í anda gamla Íslands.

Ragnar Aðalsteinsson
Bára Huld Beck

Þegar Ragnar er spurður hvað þetta óvissuástand, sem nú ríkir, segi um Alþingi sem slíkt svarar hann að þarna lúri pólitískur vandi, fólginn í því að þeir ráðherrar ríkisstjórnar, sem ekki eru í flokki dómsmálaráðherra, telji sér skylt að una tillögum ráðherrans og jafnframt að styðja þær á Alþingi.

Þetta byggist á því að formaður hvers stjórnmálaflokks, sem myndar ríkisstjórn, er talinn hafa forræði yfir ráðherrum sínum, útskýrir hann. Ráðherrum annarra flokka er talið skylt að styðja framgöngu, í þessu tilviki dómsmálaráðherra, jafnvel þótt þeir hafi verið andstæðir henni. Á þessum tíma voru dómsmálaráðherra og forsætisráðherra í sama flokki og ætla verður að flokkurinn hafi ekki talið ástæðu til að bregðast við framgöngu dómsmálaráðherra.

Svo hefur verið talað um undirritun forsetans, segir hann næst, en skipunarbréf dómaranna fimmtán voru undirrituð af forseta Íslands. Forsetinn virðist hafa fengið álitsgerð frá skrifstofu Alþingis um að afgreiðslan þar hafi ekki verið í andstöðu við lög og á þeim forsendum undirritaði forsetinn skipunarbréfin. Samkvæmt stjórnarskránni ber hins vegar ráðherra ábyrgð á þessari stjórnarathöfn en ekki forsetinn, bætir Ragnar við og minnist snöggvast eldra máls: Þegar dómarnir um annmarkana hjá dómsmálaráðherra voru kveðnir upp í Hæstarétti varð mér hugsað til að fyrir tíu árum var fjallað um sambærilegt mál; skipan dómara, þar sem settum dómsmálaráðherra láðist að rannsaka málið sjálfstætt áður en hann gerði tillögu að skipan dómara í andstöðu við álit matsnefndar.

Síðan beinir hann talinu aftur að Landsréttarmálinu og segir:

Afleiðingar þessara málsmeðferðar segja okkur að það hefði verið rétt af þáverandi forsætisráðherra að koma í veg fyrir að málið fengi þá afgreiðslu sem það fékk á Alþingi. Með stofnun Landsréttar var stigið merkilegt skref til að auka veg réttarríkisins hér á landi en það tókst ekki að gera það á þann hátt sem fyrirhugaður var og það hefur leitt til þess að Landsréttur hefur ekki þá stöðu sem hann ella hefði haft. Traust almennings er meginskilyrði til að dómstólar fái starfað.

Dómstólar síðasta vígi borgaranna

Nú liggur beinast við að spyrja að hvaða leyti það hafi mistekist að skapa Landsrétti ásættanlega stöðu.

Þar komum við að ákveðnum prinsippum, segir Ragnar. Þetta mál snýst í fyrsta lagi um skilin á milli framkvæmdarvalds og dómsvalds. Bæði samkvæmt stjórnarskrá og stjórnskipunarþróun, þá eru gerðar æ ríkari kröfur um sjálfstæði dómstóla. Að þeir séu óháðir framkvæmdarvaldinu með öllu. Annað meginatriðið er að dómstólaskipan og ráðning dómara sé með þeim hætti að almenningur beri traust til dómstólanna og sé þess fullviss að dómstólarnir séu með öllu óháðir framkvæmdarvaldinu. Um leið og framkvæmdarvaldið hefur afskipti af skipun dómara, þá rýrnar þetta traust almennings á dómstólunum og staða þeirra í samfélaginu verður veikari en ella. Í tilviki Landsréttar tel ég að afskipti framkvæmdarvaldsins hafi haft afar neikvæð áhrif á stöðu Landsréttar og það muni taka Landsrétt nokkur ár að ávinna sér viðunandi traust á meðal almennings – vegna þess. 

Þar sem traust almennings á dómstólum er nauðsynlegt í líminu sem heldur saman frjálslyndu lýðræði er ekki úr vegi að spyrja: Hversu alvarleg eru meint mistök?

Þau eru alveg grafalvarleg vegna þess að fátt er mikilvægara en að dómstólar njóti trúnaðar og trausts landsmanna. Og það má ekki grafa undan þessu trausti eins og með þeim vinnubrögðum sem tíðkuðust við skipan hinna nýju Landsréttardómara, svarar Ragnar hiklaust.

Nú hafa heyrst raddir sem segja að réttarríkið á Íslandi sé í uppnámi út af þessu máli, er eitthvað hæft í því?

Til að réttarríkið sé virt, þá þarf ríkið að búa við dómstóla sem borgararnir treysta því iðulega eru dómstólarnir síðasta vígi borgaranna, þegar allt annað þrýtur. Borgararnir hafa ekki í annan stað að leita.

Nú er hefur líka verið rætt um óvissuástand, hvernig lýsir það sér?

Ein afleiðingin af þessari aðferð við að skipa dómarana er sú að það ríkir óvissa um skipan dómara við réttinn. Og jafnvel hefur sú skoðun verið sett fram að vera kunni að allir dómararnir fimmtán í Landsrétti séu rangt skipaðir, svarar Ragnar sem er þeirrar skoðunar að Mannréttindadómstóll Evrópu muni ekki ganga svo langt að telja alla dómarana vanhæfa.

Verði niðurstaðan í Strassborg sú að skipan dómaranna fjögurra hafi ekki uppfyllt lagaskilyrði, þá kann að vera að einhverjir aðilar dómsmála sem þessir dómarar hafa tekið þátt í að dæma muni krefjast endurupptöku þeirra eða ógildingu, heldur hann áfram. Við höfum fordæmi, tengt því að Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu fyrir allmörgum árum að dómar, sem fulltrúar héraðsdómaranna kváðu upp, stæðust ekki lög. Þau mál voru endurflutt og dæmd að nýju af öðrum dómurum sem uppfylltu skilyrði um sjálfstæði sem dómarar. Jafnframt var sá kostnaður, sem þessu fylgdi fyrir aðilanna, felldur á ríkissjóð, segir Ragnar.

Hvað ætli þetta mál og mögulegar eftiröldur þess eigi eftir að kosta okkur?

Það er ómögulegt að segja. Þetta er búið að kosta okkur mikla peninga en hversu mikla vitum við ekki. Það verður erfitt að meta þetta þannig, eftir á, í krónum og aurum.

Ragnar Aðalsteinsson
Bára Huld Beck

Síbreytileg samfélög

Næst legg ég á borð fyrir Ragnar þessi ummæli Sigríðar í Víglínunni: „Ég lít nú á þennan dómstól svolítið eins og hefur verið rætt, síðustu fjörutíu árin hefur hann verið að fara aðrar leiðir en hefðbundnir dómstólar gera og sérstaklega undanfarin tíu ár, í því sem hefur verið kallað meðal lögfræðinga lifandi túlkun á mannréttindasáttmálanum og það er svona eins og dómstóllinn hafi mikinn áhuga á því að dæma ekki bara samkvæmt sáttmálanum eftir orðanna hljóðan eða eins og hann var túlkaður í upphafi þegar aðildarríkin gengust undir hann á sínum tíma heldur hefur það verið dálítið kappsmál hjá dómstólnum að fara inn á svið stefnumótunar og stefnumörkunar meðal aðildarríkjanna.“

Ragnar svarar á þessa leið: Fyrrverandi dómsmálaráðherra hefur látið að því liggja að Mannréttindadómstóll Evrópu sé ólýðræðislegur eða að minnsta kosti skipaður á ólýðræðislegan hátt. Því er til að svara að skipan dómara í Mannréttindadómstól Evrópu er talin lýðræðislegri en skipan í nokkurn annan alþjóðlegan dómstól sem fjallar um mannréttindi. Nýleg rannsókn virtra aðila sýnir fram á að val og skipan dómara í dómstólinn í Strassborg beri af vali og skipan dómara í aðra alþjóðlega mannréttindadómsóla. Um þetta er hægt að lesa í ýtarlegri skýrslu Alþjóða lögfræðingaráðsins og Open Society síðan 2017.

Ragnar hugsar eilítið málið og segir síðan: Lengst af hefur Mannréttindadómstóllinn beitt því sem kallað er framsækin túlkun á ákvæðum mannréttindasáttmálans og hefur það að mínu viti verið til þess fallið að bæta við og auka mannréttindum borgaranna bæði gagnvart opinberu valdi og einkavaldi. Dómstóllinn hefur tekið tillit til þróunar á ýmsum sviðum mannréttinda í Evrópu við túlkun ákvæðanna og er ekki einn um það. Fyrir þetta hefur dómstóllinn sætt nokkurri gagnrýni og telja gagnrýnendur dómstólinn ganga of langt í framsækinni beitingu sáttmálans. Tvær meginreglur draga úr framsæknum túlkunum dómstólsins, annars vegar reglan um svigrúm aðildarríkjanna til mats og hins vegar svonefnd nálægðarregla.

Hann útskýrir þetta nánar: Fyrri reglunni er ætla að draga úr því að Mannréttindadómstóllinn beiti eigin mati á álitaefni máls en uni við mat heimadómstóla. Nálægðarreglan er að því leyti sama marki brennd, að henni er ætlað aukið vægi heimadómstólanna við mat á því hvort brotið hafi verið gegn mannréttindaákvæðum. Þekkt dæmi er að dómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu að fangar í Bretlandi hefðu kosningarétt eins og aðrir borgarar. Vakti þetta gríðarlega óánægju meðal áhrifaaðila í Bretlandi og þeir héldu því fram að þarna væru afskipti af innanríkismálum, ekki ósvipað og fyrrverandi dómsmálaráðherra lætur liggja að.

Ragnar tekur sér málhvíld, íhugar næstu orð og segir því næst: Ég aðhyllist framsækna túlkun á ákvæðum um mannréttindi, bæði hjá alþjóðlegum dómstólum og landsdómstólum. Við lifum í síbreytilegum samfélögum og lögin sæta ekki þeim sömu öru breytingum og samfélögin, því verða dómstólar að líta til tilgangs mannréttindaákvæða og túlka þau í samræmi við aðstæður í samfélaginu á hverjum tíma, klykkir hann út með, sýpur á vatni og segir því næst að það sé hlutverk dómstólsins að taka við erindum frá einstaklingum, og reyndar einnig samtökum, sem varða hugsanleg brot á ákvæðum mannréttindasáttmálans.

Við meðferð slíkra mála kemst dómstóllinn ekki hjá því í sumum tilvikum að kanna lög viðkomandi heimalands og framkvæmd þeirra laga fyrir dómstólum, útskýrir Ragnar. Almennt séð er það ekki hlutverk dómstólsins að setjast í sæti æðstu dómstóla í heimalandinu en það gerist þó í undantekninga tilvikum, eins og í þessu máli. Þar sem dómstóllinn verður að gera er að taka afstöðu til þess hvort stjórnvöld eða dómstólar í heimalandinu hafi brotið með freklegum hætti gegn réttindum borgarans sem leitar til Mannréttindadómstólsins. Dómstóllinn notar hugtakið fragrant violations um það.

Í Landsréttarmálinu taldi Mannréttindadómstóllinn að brotið hefði verið freklega gegn ákvæðum um skipan dómstóla, samkvæmt ákvæðum mannréttindasáttmálans. Þetta byggðist á heildarmati á málsmeðferðinni, bæði hjá dómsmálaráðherra og Alþingi. En jafnframt á ályktunum Hæstaréttar um annmarka á málsmeðferðinni hjá sömu aðilum. Munurinn er sá að Mannréttindadómstóllinn ákvað að taka afstöðu til þess hvort brotið hefði verið freklega gegn viðeigandi réttindum – en það láðist Hæstarétti hins vegar að gera.

Að skipan dómara standist kröfur laganna

Nú hefur Sigríður sagt líklegt að yfirdeildin staðfesti úrskurð dómstólsins sem dæmdi ríkinu í óhag, enda hafi hann hagsmuni af því. Hún hefur gagnrýnt að íslenski dómarinn skuli fylgja málinu upp í efri deild og segir það ankannalegt að dómari endurskoði sína eigin niðurstöðu. Í Víglínunni sagði hún: „Mér finnst skjóta skökku við að það skuli vera sami dómari sem sitji í undirréttinum, íslenski dómarinn, og hann sitji aftur í yfirdeildinni. Þetta er í samræmi við reglur dómstólsins og er kannski regla á gömlu meiði.“

Ragnar svarar þessu rólyndislega: Það sem hún er þá væntanlega að reyna að segja er að Róbert Ragnar Spanó muni í yfirdeildinni berjast fyrir óbreyttri niðurstöðu, vegna þess að hann sé ekki reiðubúinn til að breyta um skoðun. Ég minni á að efri deildin er ekki áfrýjunardómstóll. Þar er málið flutt um öll þau sömu atriði og þau voru flutt í neðri deildinni og málið dæmt sjálfstætt, um sérhvert atriði sem á reynir. Efri deildin er skipuð sautján dómurum og nokkrir þeirra eiga sjálfkrafa sæti í efri deildinni, þar á meðal forseti og varaforseti dómstólsins, formenn deildanna, svo og viðkomandi landsdómari, þ.e. dómari sem skipaður er af landinu sem aðild á að málinu. Og í þessu tilviki er það Róbert Spanó.

Hann segir þetta fyrirkomulag líklega eiga sér rót í því að ríkin vilji hafa nokkuð um það að segja hvernig meðferð mál þeirra fá fyrir alþjóðlegum dómstólum og tryggja þannig að sjónarmið þeirra komist að.

Ég fæ á tilfinninguna að hún hugsi þetta þannig, segir Ragnar, að Róbert muni berjast fyrir sömu niðurstöðu í efri deild og hann stóð fyrir í neðri deild. Að hann muni líta á það sem persónulegan ósigur ef efri deild breyti niðurstöðu neðri deildar. Þó að hann sé sjálfstæður gagnvart íslensku ríkisvaldi í dómstörfum sínum, þá er hann upphaflega tilnefndur sem dómari af íslenska ríkinu án aðkomu almennings. Þannig stendur staða hans nær ríkinu en almenningi í landinu. En dómaravalið fer eftir mjög ströngum skilyrðum. Ef þessi skilyrði eru ekki uppfyllt, þá er tilnefningum viðkomandi ríkis hafnað og krafist nýrra tilnefninga.

Er mögulegt að ýja að einhvers konar pólitísku hagsmunadrifi í þessu máli?

Ég sé enga pólitíska hlið á þessu máli, hvorki hjá íslenska dómaranum né öðrum dómurum í málinu, svarar Ragnar og segir að sér virðist niðurstaðan í neðri deild vera í fullu samræmi við þá þróun sem birst hafi í dómum evrópskra dómstóla á síðari árum, þar sem gerðar eru ríkar kröfur til þess að fyllt sé lögum nákvæmlega við skipan dómara í dómstóla. Það er meginskilyrði þess að skipan dómara til starfa við dómstól standist kröfur laganna, að farið sé að settum reglum og lögum í hvívetna, bæði í smáatriðum og stórum atriðum.

Þessi lokaorð Ragnars segja allt sem segja þarf, hugsa ég með mér, enda kaffið orðið kalt, kominn tími á ábót og ég búin að fá svör við spurningum mínum, aðeins minna fávís en þegar ég vaknaði.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnAuður Jónsdóttir
Meira úr sama flokkiViðtal