Bára Huld Beck

Traust almennings á dómstólum

Auður Jónsdóttir rithöfundur hitti gamalreyndan lögmann, Ragnar Aðalsteinsson, til að ræða hið svokallaða Landsréttarmál. Málið vekur upp áleitnar spurningar og heldur það áfram að draga dilk á eftir sér – og ekki er enn fyrirséð hverjar afleiðingarnar verða.

Lands­rétt­ar­málið svo­kall­aða er nú til með­ferðar hjá efri deild Mann­rétt­inda­dóm­stóls­ins í Strass­borg. Neðri deildin þótti bregð­ast fljótt við erind­inu út af Lands­rétt­ar­mál­inu og málið gekk mjög hratt fyrir sig. Því er ekki úti­lokað að málið hljóti hraða máls­með­ferð hjá efri deild­inni en á meðan málið er þar veltum við vöng­um. Þetta mál vekur upp stórar spurn­ing­ar, kannski er ein stærsta spurn­ing­in: Getur almenn­ingur treyst dóm­stól­um, ef fram­kvæmd­ar­valdið nýtir valdið til að hafa af þeim afskipti?

Já, maður eða öllu heldur kona spyr sig um leið og hún staldrar við ummæli fyrr­ver­andi dóms­mála­ráð­herra, Sig­ríðar Á. And­er­sen, um dóm­stól­inn almennt og út frá þessu máli. Eitt­hvað í orðum Sig­ríðar kann að virð­ast hljóma smætt­andi fyrir dóms­ferlið, jafn­vel finnst konu hún greina pr-tón á milli lín­anna.

Kona spyr sig jafn­vel: Er við­eig­andi að Sig­ríð­ur, sem fyrr­ver­andi dóms­mála­ráð­herra, tjái opin­ber­lega sýn sína á málið og ferli þess á meðan það er til með­ferðar hjá dóm­stól­um?

Um dag­inn hitti ég Ragnar Aðal­steins­son í öðrum erinda­gjörð­um, en talið barst að þessu máli og vanga­veltur hans hljóm­uðu svo kjarn­aðar að mér fannst til­valið að þær fengju að fljóta út í sam­fé­lag­ið; sam­fé­lag þar sem fólk veltir nú vöngum yfir og tekst á um hversu alvar­legt þetta mál er í sjálfu sér. Mál þetta snertir grunn­stoðir lýð­ræð­is­ins á þann hátt að nauð­syn­legt er að við ræðum það og rök­ræð­um. Í dæg­ur­þras­inu hafa ein­hverjir viðrað áhyggjur af sjálf­stæði full­veld­is­ins þegar rætt er um aðild okkar að Mann­rétt­inda­dóm­stóln­um. En umhugs­un­ar­efnið er kannski öllu frekar hvernig við viljum standa að full­veld­inu. Ef ekki er staðið rétt að hlutum eins og skipan dóm­stóla er hætta á að við myljum sjálf full­veldið undan okk­ur.

Sólin lýsir upp Rétt

Á fyrsta sól­skins­degi árs­ins rölti ég á skrif­stof­una hans Ragn­ars. Lög­fræði­stofan heitir Réttur og á vegg and­spænis dyr­unum hangir plakat með áletr­un­inni: Rétt er rétt. Hús­næðið er skemmti­lega retró og ber með sér ilm af ótelj­andi gesta­komum; orðum og vanga­velt­um. Eitt­hvað ferskt loðir við húsa­kynnin um leið og inn­rétt­ing­arnar eru gam­al­grón­ar, á stöku vegg hanga plaköt og myndir og eitt­hvað við umhverfið fær mann til að hugsa að ásýnd lög­fræði­stof­unnar sé ekki skrif­stofu­lega dæmi­gerð.

Ragnar hefur alla ævi verið knú­inn áfram af for­vitni, eins konar þörf fyrir að greina hvar ann­markar kerf­is­ins kunna að birt­ast og láta reyna á þá. Hann hefur sjálfur sagt mér að for­vitni fái oft að ráða því hvaða mál hann taki að sér. Hann er iðu­lega for­vit­inn um virkni kerf­is­ins og umbreyt­inga­mátt­inn sem felst í því að praktísera lög.

Ég tylli mér and­spænis honum og bið hann um að útskýra fyrir mér, hinum almenna, fávísa full­trúa almenn­ings, hitt og þetta um Lands­rétt­ar­málið sem er nú komið út fyrir land­stein­ana.

Þetta er ekki venju­leg áfrýjun eins og við köllum það, segir Ragnar hæg­lega og bætir við að í und­an­tekn­ing­ar­til­vikum sé hægt að vísa máli til efri deildar Mann­rétt­inda­dóm­stóls­ins, þó að málið sé ennþá til með­ferðar hjá neðri deild – en jafn­framt eftir að dómur gangi þar. 

Málið er síðan flutt í öllum atriðum og dæmt í öllum atriðum í efri deild­inni, fari málið þang­að, þannig að með­ferðin er ólík með­ferð áfrýj­un­ar­dóm­stóls, útskýrir hann og heldur áfram: Að vísu er rétt að í lög­un­um, sem lög­festu mann­rétt­inda­sátt­mál­ann hér á landi, þá er tekið fram að dómar dóm­stóls­ins séu ekki bind­andi fyrir Ísland. Þetta breytir ekki því að í fram­kvæmd höfum við ætíð tekið fullt til­lit til dóma dóm­stóls­ins og breytt íslenskum lögum í sam­ræmi við dómana; jafn­vel í grund­vall­ar­at­rið­um, eins og t.d. þegar mál sem fór fyrir dóm­stól­inn leiddi til að allri íslenskri dóm­skipan var breytt í grund­vall­ar­at­rið­um.

Þetta var mál Jóns, hjól­reiða­manns á Akur­eyri, bara ómerki­legt brot; náungi á hjóli sem braut ein­hverjar umferð­ar­regl­ur. En þá var það þannig að sami maður gat rann­sakað málið og dæmt, sýslu­maður og full­trúar hans fóru bæði með rann­sókn máls­ins og dóma. Málið leiddi til þess að það varð aðskiln­aður á milli dóms­valds og fram­kvæmd­ar­valds. Eiríkur Tóm­as­son fór með þetta mál til Strass­borgar og það hafði gríð­ar­lega rót­tæk áhrif. Mál­inu lauk með sátt en hluti af sátt­inni var að Ísland gjör­breytti skipan dóm­stól­anna.

Ragnar Aðalsteinsson og Auður Jónsdóttir ræða málin.
Bára Huld Beck

Í fram­haldi af þessu telur Ragnar rétt að minna á að nú sé æ meiri áhersla lögð á aðskilnað dóms­vald og fram­kvæmd­ar­valds í Evr­ópu og það nákvæm­lega sama gildi hér á landi.

Við höfum í nokkrum skrefum tekið valdið af dóms­mála­ráð­herra til að skipa dóm­ara og fært það til mats­nefndar sem skipuð er sér­fræð­ing­um. Þó gildir sú und­an­tekn­ing að vilji dóms­mála­ráð­herra breyta nið­ur­stöðum mats­nefndar getur hann lagt til­lögu um slíka breyt­ingu fyrir Alþingi, segir hann.

Alþingi fór ekki eftir fyr­ir­mælum lag­anna

Og þá aftur að hinum fávísa full­trúa almenn­ings sem biður Ragnar um að útskýra fyrir sér hvað hafi nákvæm­lega gerst í þess­ari atburða­rás sem við köllum Lands­rétt­ar­mál­ið.

Ragnar gefur sér augna­blik til að íhuga áður en orðin flauma, síðan má kona hafa sig alla við að hrað­skrifa útlist­ingar hans:

Það sem að gerð­ist í Lands­rétt­ar­mál­inu var að þessi mats­nefnd, skipuð sér­fræð­ing­um, komst að þeirri nið­ur­stöðu að fimmtán af þeim sem sóttu um stöðu dóm­ara í Lands­rétti væru hæf­ari en aðrir umsækj­end­ur.

Dóms­mála­ráð­herra sætti sig ekki við nið­ur­stöður mats­nefnd­ar­inn­ar, heldur tók hún nöfn fjög­urra af þessum fimmtán af lista mats­nefndar og setti þeirra í stað fjóra umsækj­endur sem mats­nefndin hafði skipað neð­ar, talið hæfa en ekki hæf­asta, heldur hann áfram. Hún tók sér þannig vald sem henni er heim­ilað í lögum um skipan dóm­ara, en þetta vald hefur hún ekki ein, heldur verður hún að fá sam­þykki Alþingis fyrir breyt­ing­unni. Í þessu sér­staka til­viki, þar sem verið var að fjalla um skipan dóm­ara í nýjan dóm­stól, fimmtán að tölu, hafði verið sett ákvæði í lög þess efnis að ef til þess kæmi að málið færi fyrir Alþingi, vegna þess að dóms­mála­ráð­herra féllist ekki á nið­ur­stöðu mats­nefnd­ar, þá væri Alþingi skylt að taka afstöðu til hvers og eins dóm­ara­efn­anna sem ráð­herra lagði til við Alþingi. Í þessu til­viki, þá fór Alþingi ekki eftir fyr­ir­mælum lag­anna heldur ákvað að greiða atkvæði um allan hóp­inn sem ráð­herra lagði til – í einu lagi. Óum­deil­an­legt er að þetta er ann­marki á með­ferð máls­ins hjá Alþingi, en ágrein­ing­ur­inn er um það hvort þetta sé mik­il­vægt eða óveru­legt brot á lög­um.

Ragnar sýpur á vatni, eilítið fjar­rænn og segir síð­an: Þá komum við aftur að hlut­verki dóms­mála­ráð­herra. Dóms­mála­ráð­herra fer að sjálf­sögðu með stjórn­vald og er bund­inn af lögum um með­ferð stjórn­sýslu­valds. Ein mik­il­væg­asta meg­in­regla á því sviði fjallar um rann­sókn­ar­skyldu stjórn­valda. Þar sem að fyrr­ver­andi dóms­mála­ráð­herra hafði hug á því að breyta nið­ur­stöðum mats­nefndar var henni skylt að rann­saka málið ýtar­lega og færa fram rök fyrir breyt­ingu sem ráð­herra vildi gera. Af því að ráð­herr­ann vildi koma fjórum nýjum umsækj­endum að og taka fjóra í burtu, þá var henni skylt, sam­kvæmt þess­ari rann­sókn­ar­reglu, að bera sam­an, hið minnsta, þessa fjóra sem hún vildi koma að og þá fjóra sem hún vildi taka í burtu. En að mínu áliti átti hún að bera saman alla nítján dóm­ar­ana, þá fimmtán sem mats­nefndin valdi og þá fjóra sem hún vildi koma að. Og síðan rök­styðja, á mál­efna­legan hátt, þær breyt­ingar sem hún vildi gera. Til að fram­kvæma þessa rann­sókn og eft­ir­far­andi mat hefði hún þurft að leita til sér­fræð­inga sér til aðstoð­ar, botnar hann.

Með því að gúggla dálítið rakst hinn fávísi full­trúi almenn­ings á eft­ir­far­andi ummæli Sig­ríðar Á. And­er­sen í Víg­lín­unni: „Hæsti­réttur kemst að þess­ari nið­ur­stöðu í des­em­ber 2017 að ég hafi ekki rann­sakað málið nægi­lega. Hæsti­réttur kemst hins vegar að því stuttu seinna að þrátt fyrir þetta þá sé þetta ekki þannig ann­marki að hafi varðað lög­mæti skip­unar dóm­ar­anna og ekki heldur að Alþingi hafi ákveð­ið, sem ég kom ekk­ert nálægt, Alþingi ákvað að greiða í einu lagi um fimmtán til­lögur í stað þess að bera hverja og eina til­lögu upp fyrir sig.“ Hún vísar þar í dóm Hæsta­réttar sem féll í des­em­ber 2017 um skipun dóm­ara við Lands­rétt.

Póli­tískur vandi

Ragnar segir að miðað við gögn dóm­stól­anna þá hafi ráð­herra ekki talið ástæðu til að leita til sér­fræð­inga við þessa rann­sókn og þetta mat, heldur ákveðið að byggja á eigin mati. Hann ­tekur fram að við ákvörð­un­ina hafi dóms­mála­ráð­herra verið í hlut­verki stjórn­mála­manns en ekki sér­fræð­ings í lög­fræð­i. 

Hún lagði síðan sína nýju til­lögu fyrir Alþingi, án þess að þeim til­lögum fylgdi full­nægj­andi rök­stuðn­ing­ur, hvorki fyrir vali hinna fjög­urra sem hún bætti við né hinna fjög­urra sem hún tók af lista mats­nefnd­ar, segir hann. Dóm­stólar hafa kom­ist að þeirri nið­ur­stöðu að rök­stuðn­ingur hennar hafi verið ófull­nægj­andi. Alþingi átti þess kost að krefja ráð­herr­ann um frek­ari og full­nægj­andi rök­stuðn­ing en lét það undir höf­uð ­leggj­ast.

Sitt­hvað gekk þó á og við upp­rifjun á þessu fann hinn fávísi full­trúi almenn­ings frétt á Stund­inni sem rifj­aði upp að Við­reisn hefði á sínum tíma gert athuga­semdir við hæf­is­list­ann vegna kynja­sjón­ar­miða, en þar má lesa eft­ir­far­andi: „Þing­menn Við­reisnar greindu frá því á opna fund­inum í gær að það hefði verið á grund­velli jafn­rétt­is­sjón­ar­miða sem þeir vildu fara fram hjá vali hæf­is­nefnd­ar, sem hafði valið tíu karl­menn og fimm kon­ur.

Við breyt­ingu Sig­ríðar á list­anum urðu kon­urnar sjö, en karl­arnir átta. Sig­ríður tók ekki undir það í við­tölum strax eftir ákvörð­un­ina að jafn­rétt­is­sjón­ar­mið hefðu legið að baki vali henn­ar, en vís­aði síðar til þess að það ætti við.“ 

Ann­ars vegar voru þeir Eiríkur Jóns­son, Jón Hösk­ulds­son, Jóhannes Rúnar Jóhanns­son og Ást­ráður Har­alds­son teknir af list­anum og hins vegar komu í stað­inn Arn­­­­­­­fríður Ein­­­­­­­ar­s­dótt­ir, Ragn­heiður Braga­dótt­ir, Ásmundur Helga­­­­­­­son og Jón Finn­­­­­­­björns­­­­­­­son. 

Meiri­hluti Sjálf­stæð­is­flokks­ins, Við­reisnar og Bjartrar fram­tíðar hleypti mál­inu í gegn á sínum tíma. Björt Ólafs­dótt­ir, umhverf­is­ráð­herra úr Bjartri fram­tíð, gagn­rýndi femínista fyrir að leggj­ast gegn breyt­ingu Sig­ríð­ar. Hún sagði að svo­kallað fag­legt mat hæf­is­nefndar á umsækj­endum væri í anda gamla Íslands.

Ragnar Aðalsteinsson
Bára Huld Beck

Þegar Ragnar er spurður hvað þetta óvissu­á­stand, sem nú rík­ir, segi um Alþingi sem slíkt svarar hann að þarna lúri póli­tískur vandi, fólg­inn í því að þeir ráð­herrar rík­is­stjórn­ar, sem ekki eru í flokki dóms­mála­ráð­herra, telji sér skylt að una til­lögum ráð­herr­ans og jafn­framt að styðja þær á Alþingi.

Þetta bygg­ist á því að for­maður hvers stjórn­mála­flokks, sem myndar rík­is­stjórn, er tal­inn hafa for­ræði yfir ráð­herrum sín­um, útskýrir hann. Ráð­herrum ann­arra flokka er talið skylt að styðja fram­göngu, í þessu til­viki dóms­mála­ráð­herra, jafn­vel þótt þeir hafi verið and­stæðir henni. Á þessum tíma voru dóms­mála­ráð­herra og for­sæt­is­ráð­herra í sama flokki og ætla verður að flokk­ur­inn hafi ekki talið ástæðu til að bregð­ast við fram­göngu dóms­mála­ráð­herra.

Svo hefur verið talað um und­ir­ritun for­set­ans, segir hann næst, en skip­un­ar­bréf dóm­ar­anna fimmtán voru und­ir­rituð af for­seta Íslands. For­set­inn virð­ist hafa fengið álits­gerð frá skrif­stofu Alþingis um að afgreiðslan þar hafi ekki verið í and­stöðu við lög og á þeim for­sendum und­ir­rit­aði for­set­inn skip­un­ar­bréf­in. Sam­kvæmt stjórn­ar­skránni ber hins vegar ráð­herra ábyrgð á þess­ari stjórn­ar­at­höfn en ekki for­set­inn, bætir Ragnar við og minn­ist snöggvast eldra máls: Þegar dóm­arnir um ann­mark­ana hjá dóms­mála­ráð­herra voru kveðnir upp í Hæsta­rétti varð mér hugsað til að fyrir tíu árum var fjallað um sam­bæri­legt mál; skipan dóm­ara, þar sem settum dóms­mála­ráð­herra láð­ist að rann­saka málið sjálf­stætt áður en hann gerði til­lögu að skipan dóm­ara í and­stöðu við álit mats­nefnd­ar.

Síðan beinir hann tal­inu aftur að Lands­rétt­ar­mál­inu og seg­ir:

Afleið­ingar þess­ara máls­með­ferðar segja okkur að það hefði verið rétt af þáver­andi for­sæt­is­ráð­herra að koma í veg fyrir að málið fengi þá afgreiðslu sem það fékk á Alþingi. Með stofnun Lands­réttar var stigið merki­legt skref til að auka veg rétt­ar­rík­is­ins hér á landi en það tókst ekki að gera það á þann hátt sem fyr­ir­hug­aður var og það hefur leitt til þess að Lands­réttur hefur ekki þá stöðu sem hann ella hefði haft. Traust almenn­ings er meg­in­skil­yrði til að dóm­stólar fái starf­að.

Dóm­stólar síð­asta vígi borg­ar­anna

Nú liggur bein­ast við að spyrja að hvaða leyti það hafi mis­tek­ist að skapa Lands­rétti ásætt­an­lega stöðu.

Þar komum við að ákveðnum prinsipp­um, segir Ragn­ar. Þetta mál snýst í fyrsta lagi um skilin á milli fram­kvæmd­ar­valds og dóms­valds. Bæði sam­kvæmt stjórn­ar­skrá og stjórn­skip­un­ar­þró­un, þá eru gerðar æ rík­ari kröfur um sjálf­stæði dóm­stóla. Að þeir séu óháðir fram­kvæmd­ar­vald­inu með öllu. Annað meg­in­at­riðið er að dóm­stóla­skipan og ráðn­ing dóm­ara sé með þeim hætti að almenn­ingur beri traust til dóm­stól­anna og sé þess full­viss að dóm­stól­arnir séu með öllu óháðir fram­kvæmd­ar­vald­inu. Um leið og fram­kvæmd­ar­valdið hefur afskipti af skipun dóm­ara, þá rýrnar þetta traust almenn­ings á dóm­stól­unum og staða þeirra í sam­fé­lag­inu verður veik­ari en ella. Í til­viki Lands­réttar tel ég að afskipti fram­kvæmd­ar­valds­ins hafi haft afar nei­kvæð áhrif á stöðu Lands­réttar og það muni taka Lands­rétt nokkur ár að ávinna sér við­un­andi traust á meðal almenn­ings – vegna þess. 

Þar sem traust almenn­ings á dóm­stólum er nauð­syn­legt í lím­inu sem heldur saman frjáls­lyndu lýð­ræði er ekki úr vegi að spyrja: Hversu alvar­leg eru meint mis­tök?

Þau eru alveg grafal­var­leg vegna þess að fátt er mik­il­væg­ara en að dóm­stólar njóti trún­aðar og trausts lands­manna. Og það má ekki grafa undan þessu trausti eins og með þeim vinnu­brögðum sem tíðk­uð­ust við skipan hinna nýju Lands­rétt­ar­dóm­ara, svarar Ragnar hik­laust.

Nú hafa heyrst raddir sem segja að rétt­ar­ríkið á Íslandi sé í upp­námi út af þessu máli, er eitt­hvað hæft í því?

Til að rétt­ar­ríkið sé virt, þá þarf ríkið að búa við dóm­stóla sem borg­ar­arnir treysta því iðu­lega eru dóm­stól­arnir síð­asta vígi borg­ar­anna, þegar allt annað þrýt­ur. Borg­ar­arnir hafa ekki í annan stað að leita.

Nú er hefur líka verið rætt um óvissu­á­stand, hvernig lýsir það sér?

Ein afleið­ingin af þess­ari aðferð við að skipa dóm­ar­ana er sú að það ríkir óvissa um skipan dóm­ara við rétt­inn. Og jafn­vel hefur sú skoðun verið sett fram að vera kunni að allir dóm­ar­arnir fimmtán í Lands­rétti séu rangt skip­að­ir, svarar Ragnar sem er þeirrar skoð­unar að Mann­rétt­inda­dóm­stóll Evr­ópu muni ekki ganga svo langt að telja alla dóm­ar­ana van­hæfa.

Verði nið­ur­staðan í Strass­borg sú að skipan dóm­ar­anna fjög­urra hafi ekki upp­fyllt laga­skil­yrði, þá kann að vera að ein­hverjir aðilar dóms­mála sem þessir dóm­arar hafa tekið þátt í að dæma muni krefj­ast end­ur­upp­töku þeirra eða ógild­ingu, heldur hann áfram. Við höfum for­dæmi, tengt því að Hæsti­réttur komst að þeirri nið­ur­stöðu fyrir all­mörgum árum að dóm­ar, sem full­trúar hér­aðs­dóm­ar­anna kváðu upp, stæð­ust ekki lög. Þau mál voru end­ur­flutt og dæmd að nýju af öðrum dóm­urum sem upp­fylltu skil­yrði um sjálf­stæði sem dóm­ar­ar. Jafn­framt var sá kostn­að­ur, sem þessu fylgdi fyrir aðil­anna, felldur á rík­is­sjóð, segir Ragn­ar.

Hvað ætli þetta mál og mögu­legar eft­ir­öldur þess eigi eftir að kosta okk­ur?

Það er ómögu­legt að segja. Þetta er búið að kosta okkur mikla pen­inga en hversu mikla vitum við ekki. Það verður erfitt að meta þetta þannig, eftir á, í krónum og aur­um.

Ragnar Aðalsteinsson
Bára Huld Beck

Síbreyti­leg sam­fé­lög

Næst legg ég á borð fyrir Ragnar þessi ummæli Sig­ríðar í Víg­lín­unni: „Ég lít nú á þennan dóm­stól svo­lítið eins og hefur verið rætt, síð­ustu fjöru­tíu árin hefur hann verið að fara aðrar leiðir en hefð­bundnir dóm­stólar gera og sér­stak­lega und­an­farin tíu ár, í því sem hefur verið kallað meðal lög­fræð­inga lif­andi túlkun á mann­rétt­inda­sátt­mál­anum og það er svona eins og dóm­stóll­inn hafi mik­inn áhuga á því að dæma ekki bara sam­kvæmt sátt­mál­anum eftir orð­anna hljóðan eða eins og hann var túlk­aður í upp­hafi þegar aðild­ar­ríkin geng­ust undir hann á sínum tíma heldur hefur það verið dálítið kapps­mál hjá dóm­stólnum að fara inn á svið stefnu­mót­unar og stefnu­mörk­unar meðal aðild­ar­ríkj­anna.“

Ragnar svarar á þessa leið: Fyrr­ver­andi dóms­mála­ráð­herra hefur látið að því liggja að Mann­rétt­inda­dóm­stóll Evr­ópu sé ólýð­ræð­is­legur eða að minnsta kosti skip­aður á ólýð­ræð­is­legan hátt. Því er til að svara að skipan dóm­ara í Mann­rétt­inda­dóm­stól Evr­ópu er talin lýð­ræð­is­legri en skipan í nokkurn annan alþjóð­legan dóm­stól sem fjallar um mann­rétt­ind­i. Ný­leg rann­sókn virtra aðila sýnir fram á að val og skipan dóm­ara í dóm­stól­inn í Strass­borg beri af vali og skipan dóm­ara í aðra alþjóð­lega mann­rétt­inda­dóm­sóla. Um þetta er hægt að lesa í ýtar­legri skýrslu Alþjóða lög­fræð­inga­ráðs­ins og Open Soci­ety síðan 2017.

Ragnar hugsar eilítið málið og segir síð­an: Lengst af hefur Mann­rétt­inda­dóm­stóll­inn beitt því sem kallað er fram­sækin túlkun á ákvæðum mann­rétt­inda­sátt­mál­ans og hefur það að mínu viti verið til þess fallið að bæta við og auka mann­rétt­indum borg­ar­anna bæði gagn­vart opin­beru valdi og einka­valdi. Dóm­stóll­inn hefur tekið til­lit til þró­unar á ýmsum sviðum mann­rétt­inda í Evr­ópu við túlkun ákvæð­anna og er ekki einn um það. Fyrir þetta hefur dóm­stóll­inn sætt nokk­urri gagn­rýni og telja gagn­rýnendur dóm­stól­inn ganga of langt í fram­sæk­inni beit­ingu sátt­mál­ans. Tvær meg­in­reglur draga úr fram­sæknum túlk­unum dóm­stóls­ins, ann­ars vegar reglan um svig­rúm aðild­ar­ríkj­anna til mats og hins vegar svo­nefnd nálægð­ar­regla.

Hann útskýrir þetta nán­ar: Fyrri regl­unni er ætla að draga úr því að Mann­rétt­inda­dóm­stóll­inn beiti eigin mati á álita­efni máls en uni við mat heima­dóm­stóla. Nálægð­ar­reglan er að því leyti sama marki brennd, að henni er ætlað aukið vægi heima­dóm­stól­anna við mat á því hvort brotið hafi verið gegn ­mann­rétt­inda­á­kvæð­um. Þekkt dæmi er að dóm­stóll­inn komst að þeirri nið­ur­stöðu að fangar í Bret­landi hefðu kosn­inga­rétt eins og aðrir borg­ar­ar. Vakti þetta gríð­ar­lega óánægju meðal áhrifa­að­ila í Bret­landi og þeir héldu því fram að þarna væru afskipti af inn­an­rík­is­mál­um, ekki ósvipað og fyrr­ver­andi dóms­mála­ráð­herra lætur liggja að.

Ragnar tekur sér mál­hvíld, íhugar næstu orð og segir því næst: Ég aðhyllist fram­sækna túlkun á ákvæðum um mann­rétt­indi, bæði hjá alþjóð­legum dóm­stólum og lands­dóm­stól­um. Við lifum í síbreyti­legum sam­fé­lögum og lögin sæta ekki þeim sömu öru breyt­ingum og sam­fé­lög­in, því verða dóm­stólar að líta til til­gangs mann­rétt­inda­á­kvæða og túlka þau í sam­ræmi við aðstæður í sam­fé­lag­inu á hverjum tíma, klykkir hann út með, sýpur á vatni og segir því næst að það sé hlut­verk dóm­stóls­ins að taka við erindum frá ein­stak­ling­um, og reyndar einnig sam­tök­um, sem varða hugs­an­leg brot á ákvæðum mann­rétt­inda­sátt­mál­ans.

Við með­ferð slíkra mála kemst dóm­stóll­inn ekki hjá því í sumum til­vikum að kanna lög við­kom­andi heima­lands og fram­kvæmd þeirra laga fyrir dóm­stól­um, útskýrir Ragn­ar. Almennt séð er það ekki hlut­verk dóm­stóls­ins að setj­ast í sæti æðstu dóm­stóla í heima­land­inu en það ger­ist þó í und­an­tekn­inga til­vik­um, eins og í þessu máli. Þar sem dóm­stóll­inn verð­ur­ að gera er að taka afstöðu til þess hvort stjórn­völd eða dóm­stólar í heima­land­inu hafi brotið með frek­legum hætti gegn rétt­indum borg­ar­ans sem leitar til Mann­rétt­inda­dóm­stóls­ins. Dóm­stóll­inn notar hug­takið fra­gr­ant violations um það.

Í Lands­rétt­ar­mál­inu taldi Mann­rétt­inda­dóm­stóll­inn að brotið hefði verið frek­lega gegn ákvæðum um skipan dóm­stóla, sam­kvæmt ákvæðum mann­rétt­inda­sátt­mál­ans. Þetta byggð­ist á heild­ar­mati á máls­með­ferð­inni, bæði hjá dóms­mála­ráð­herra og Alþingi. En jafn­framt á álykt­unum Hæsta­réttar um ann­marka á máls­með­ferð­inni hjá sömu aðil­um. Mun­ur­inn er sá að Mann­rétt­inda­dóm­stóll­inn ákvað að taka afstöðu til þess hvort brotið hefði verið frek­lega gegn við­eig­andi rétt­indum – en það láð­ist Hæsta­rétti hins vegar að gera.

Að skipan dóm­ara stand­ist kröfur lag­anna

Nú hefur Sig­ríður sagt lík­legt að yfir­deildin stað­festi úrskurð dóm­stóls­ins sem dæmdi rík­inu í óhag, enda hafi hann hags­muni af því. Hún hefur gagn­rýnt að íslenski dóm­ar­inn skuli fylgja mál­inu upp í efri deild og segir það ankanna­legt að dóm­ari end­ur­skoði sína eigin nið­ur­stöðu. Í Víg­lín­unni sagði hún: „Mér finnst skjóta skökku við að það skuli vera sami dóm­ari sem sitji í und­ir­rétt­in­um, íslenski dóm­ar­inn, og hann sitji aftur í yfir­deild­inni. Þetta er í sam­ræmi við reglur dóm­stóls­ins og er kannski regla á gömlu meið­i.“

Ragnar svarar þessu rólynd­is­lega: Það sem hún er þá vænt­an­lega að reyna að segja er að Róbert Ragnar Spanó muni í yfir­deild­inni berj­ast fyrir óbreyttri nið­ur­stöðu, vegna þess að hann sé ekki reiðu­bú­inn til að breyta um skoð­un. Ég minni á að efri deildin er ekki áfrýj­un­ar­dóm­stóll. Þar er málið flutt um öll þau sömu atriði og þau voru flutt í neðri deild­inni og málið dæmt sjálf­stætt, um sér­hvert atriði sem á reyn­ir. Efri deildin er skipuð sautján dóm­urum og nokkrir þeirra eiga sjálf­krafa sæti í efri deild­inni, þar á meðal for­seti og vara­for­seti dóm­stóls­ins, for­menn deild­anna, svo og við­kom­andi lands­dóm­ari, þ.e. dóm­ari sem skip­aður er af land­inu sem aðild á að mál­inu. Og í þessu til­viki er það Róbert Spanó.

Hann segir þetta fyr­ir­komu­lag lík­lega eiga sér rót í því að ríkin vilji hafa nokkuð um það að segja hvernig með­ferð mál þeirra fá fyrir alþjóð­legum dóm­stólum og tryggja þannig að sjón­ar­mið þeirra kom­ist að.

Ég fæ á til­finn­ing­una að hún hugsi þetta þannig, segir Ragn­ar, að Róbert muni berj­ast fyrir sömu nið­ur­stöðu í efri deild og hann stóð fyrir í neðri deild. Að hann muni líta á það sem per­sónu­legan ósigur ef efri deild breyti nið­ur­stöðu neðri deild­ar. Þó að hann sé sjálf­stæður gagn­vart íslensku rík­is­valdi í dóm­störfum sín­um, þá er hann upp­haf­lega til­nefndur sem dóm­ari af íslenska rík­inu án aðkomu almenn­ings. Þannig stendur staða hans nær rík­inu en almenn­ingi í land­inu. En dóm­ara­valið fer eftir mjög ströngum skil­yrð­um. Ef þessi skil­yrði eru ekki upp­fyllt, þá er til­nefn­ingum við­kom­andi ríkis hafnað og kraf­ist nýrra til­nefn­inga.

Er mögu­legt að ýja að ein­hvers konar póli­tísku hags­muna­drifi í þessu máli?

Ég sé enga póli­tíska hlið á þessu máli, hvorki hjá íslenska dóm­ar­anum né öðrum dóm­urum í mál­inu, svarar Ragnar og segir að sér virð­ist nið­ur­staðan í neðri deild vera í fullu sam­ræmi við þá þróun sem birst hafi í dómum evr­ópskra dóm­stóla á síð­ari árum, þar sem gerðar eru ríkar kröfur til þess að fyllt sé lögum nákvæm­lega við skipan dóm­ara í dóm­stóla. Það er meg­in­skil­yrði þess að skipan dóm­ara til starfa við dóm­stól stand­ist kröfur lag­anna, að farið sé að settum reglum og lögum í hví­vetna, bæði í smá­at­riðum og stórum atrið­um.

Þessi loka­orð Ragn­ars segja allt sem segja þarf, hugsa ég með mér, enda kaffið orðið kalt, kom­inn tími á ábót og ég búin að fá svör við spurn­ingum mín­um, aðeins minna fávís en þegar ég vakn­aði.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnAuður Jónsdóttir
Meira úr sama flokkiViðtal