Virði allra félaga sem skráð eru á aðalmarkað íslensku kauphallarinnar féll í dag. Alls lækkaði úrvalsvísitalan um 3,67 prósent. Það er mesta lækkun sem verið hefur innan eins dags frá 9. júlí 2018, þegar úrvalsvísitalan lækkað um 3,72 prósent.
Mest lækkuðu bréf í Icelandair Group, eða um 8,74 prósent. Það þýðir að alls skófust um fjórir milljarðar króna af markaðsvirði félagsins í dag og stóð það í um 42 milljörðum króna í lok dags.
Alls lækkaði gengi í níu félögum á milli 3-4 prósent í viðskiptum dagsins. Þar á meðal lækkaði gengi Marel, langverðmætasta félagsins sem skráð er í kauphöllina, úr 470 milljörðum króna í 453 milljarða króna. Það hurfu því um 17 milljarðar króna af virði félagsins í viðskiptum dagsins.
Ástæðan fyrir hinum miklu lækkunum er rakin til þróunar á mörkuðum erlendis, þar sem útbreiðsla á kórónaveirunni svokölluðu hefur valdið skörpum lækkuðum víða um heim.