Hlutabréfavísitölur víða um heim lækkuðu mikið í dag – flestar á bilinu 3 til 6 prósent – en samkvæmt umfjöllun breska ríkisútvarpsins BBC, óttast margir fjárfestar að kórónaveiran, sem átti upptök í Wuhan í Kína, muni valda miklum vandræðum í heiminum á næstunni, vegna þess hve hratt hún er að breiðast út utan Kína.
Efnahagslegar afleiðingar veirunnar hafa nú þegar orðið verulegar í Kína og má meðal annars nefna, að bílasala hefur hrunið um rúmlega 90 prósent, smásala um tugi prósenta og flugferðum hefur fækkað um meira en 30 prósent til og frá landinu.
Þá hafa einnig verið miklir hnökrar á millríkjaviðskiptum með skipum, og þau ganga oft hægt fyrir sig.
Um 1.200 tilfelli hafa nú verið greind í 30 löndum, en samtals hafa nú 2.600 manns látið lífið vegna veirunnar og hafa 77 þúsund einstaklingar verið greindir.
Nokkur skjálfti var á mörkuðum hér á landi í dag, og sáust rauðar tölur lækkunar hjá öllum skráðum félögum. Icelandair lækkaði mest, eða um 8,74prósent, en vísitala íslenska markaðarins lækkaði um 3,67 prósent.