Kórónaveiran hefur haft gríðarleg áhrif á flugiðnað og ferðaþjónustu um allan heim, en hvergi hafa áhrifin verið meiri en í Kína og í öðrum Asíuríkjum. Á sumum stöðum hefur allt að 80 prósent samdráttur orðið, frá því að veiran kom upp í Wuhan í Kína, samkvæmt umfjöllun Wall Street Journal.
Mörg flugfélög í Asíu eru nú sögð leita leiða til að hagræða verulega í rekstri, með uppsögnum starfsfólks og öðrum nauðsynlegum aðgerðum. Ef það gengur ekki, eru fjöldagjaldþrot sögð í kortunum.
Sú dýfa sem flugiðnaðurinn hefur upplifað að undanförnu, vegna veirunnar, er sú mesta sem sést hefur frá því 11. september 2001, þegar turnarnir tveir í New York hrundu eftir að farþegaþotum var flogið á þá í hryðjuverkaárás.
Hong Kong Airlines fires 170 employees, mostly flight attendants, as it’s on brink of collapse https://t.co/EvQrxDEOqX pic.twitter.com/WZ1XAUTlgx
— Mothership.sg (@MothershipSG) February 20, 2020
Vísitölur hlutabréfamarkaða hafa fallið mikið á undanförnum tveimur dögum, eða um 3 til 6 prósent að meðaltali, sé horft til stöðu stærstu markaðana sérstaklega. Í Bandaríkjunum féll S&P500 vísitalan um 3 prósent, annan daginn í röð.
Á Íslandi hefur vísitala markaðarins fallið tvo daga í röð, og hefur meðal annars 20 prósent af markaðsvirði Icelandair þurrkast út, en það féll um 10,74 prósent í dag.
Ótti við að miklar neikvæðar efnahagslegar afleiðingar vegna kórónaveirunnar, eigi enn eftir að koma fram, er það sem nefnt er helst sem áhrifavaldur á mikla neikvæðni á mörkuðum og lækkun á markaðsvirði fyrirtækja.