Mannréttindadómstóll Evrópu kvað upp dóm í máli Elínar Sigfúsdóttur, fyrrverandi framkvæmdastjóra fyrirtækjasviðs Landsbankans, gegn íslenska ríkinu í morgun. Íslenska ríkið þarf að greiða Elínu bætur að andvirði 1,7 milljóna króna auk 700 þúsund krónur í málskostnað.
Elín var dæmd í átján mánaða fangelsi í Hæstarétti vegna Ímon-málsins svokallaðs í október 2015. Þá var hún dæmd til að greiða rúmar fimmtán milljónir króna sakarkostnað. Sigurjón Þ. Árnason, fyrrum bankastjóri bankans, var á sama tíma dæmdur í þriggja og hálfs árs fangelsi vegna sama máls. Steinþór Gunnarsson, fyrrum forstöðumaður verðbréfamiðlunar bankans, var dæmdur í níu mánaða óskilorðsbundið fangelsi.
Hæstiréttiréttur snéri þar með við dómi héraðsdóms yfir Sigurjóni og Elínu, sem voru bæði sýknuð þar. Steinþór hlaut níu mánaða dóm í héraði en hluti hans var þá skilorðsbundinn. Sá dómur var kveðinn upp 5. júní 2014. Í dómi Hæstaréttar segir m.a.: „Brotin [...] beindust í senn að öllum almenningi og fjármálamarkaðinum hér á landi og verður tjónið, sem af þeim hlaust, ekki metið til fjár.“
Ímon-málið snýst um sölu Landsbankans á eigin bréfum til tveggja eignarhaldsfélaga í lok september og byrjun október árið 2008. Félögin tvö voru Imon ehf. og Azalea Resources Ltd. Landsbankinn fjármagnaði kaupin að fullu og taldi saksóknari viðskiptin vera markaðsmisnotkun og umboðssvik. Í dómi Hæstaréttar kom fram að Sigurjón væri fundinn sekur um að hafa framið umboðssvik og markaðsmisnotkun. Elín var fundin sek um umboðssvik og hlutdeild í markaðsmisnotkun og Steinþór var sakfelldur fyrir markaðsmisnotkun.
Málið tekið upp hér á landi
Fram kom í fréttum í maí á síðasta ári að endurupptökunefnd hefði fallist á endurupptöku tveggja hæstaréttarmála, þeirra Sigurjóns og Elínar. Þær ástæður sem tilteknar voru í endurupptökubeiðnum Sigurjóns og Elínar voru margvíslegar. Ein þeirra er sú að hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson og Eiríkur Tómasson sem dæmdu í málum þeirra, hefðu átt hluti í Landsbankanum fyrir hrun. Þeir hefðu orðið fyrir verulegu tjóni við fall bankans.
Helga Melkorka Óttarsdóttir, lögmaður Elínar, sagði í samtali við RÚV í maí 2019 að óskað hefði verið eftir því að Mannréttindadómstól Evrópu tæki upp mál Elínar, sem og hann gerði. Helga sagði að það yrði að koma í ljós hvort farið yrði fram á skaðabætur eftir að hæstaréttarmálið hefur verið endurupptekið.
„Ef niðurstaðan er annað hvort sýkna eða vægari dómur þá væntanlega eru komin skilyrði skaðabóta fyrir þann einstakling sem hefur verið dæmdur,“ sagði Helga.
Mátti draga óhlutlægni eins dómarans í efa
RÚV fjallar um nýjan dóm Mannréttindadómstólsins en þar kemur fram að Elín hafi farið með málið fyrir dómstólinn á þeim grundvelli að þrír dómaranna í Hæstarétti, þeir Markús Sigurbjörnsson, Eiríkur Tómasson og Viðar Már Matthíasson, hefðu átt hlutabréf í Landsbankanum og því ekki verið hlutlausir. Dómurinn hafi ekki gert athugasemdir við hlutabréfaeign Markúsar og Eiríks sem hafi verið óveruleg. Hins vegar hafi Viðar Már tapað átta og hálfri milljón króna við fall bankans og þar af leiðandi hafi mátt draga óhlutlægni dómsins í efa.
Elín fór fram á 700 milljónir króna í bætur og 28 milljónir króna í bætur vegna málskostnaðar sem hlaust af málarekstri fyrir íslenskum dómstólum. Mannréttindadómstóllinn hafnaði bókakröfu Elínar að stærstum hluta en gerði ríkinu að greiða henni 1,7 milljónir króna í bætur auk 700 þúsund krónur í málskostnað, eins og áður segir.