Tap ársins nam 1,7 milljörðum króna miðað við hagnað upp á 443 milljónir króna árið 2018.
Hagnaður ársins að frádreginni niðurfærslu á viðskiptavild var 703 milljónir króna, að því er segir í tilkynningu félagsins til kauphallar.
Einskiptiskostnaður ársins nam 358 milljónum króna.
Tap á síðustu þremur mánuðum ársins 2019 nam tveimur milljörðum króna samanborið við 193 milljón króna hagnað á sama tímabili í fyrra.
Viðskiptavild var færð niður um 2,4 milljarða króna sem skýrir tapið á síðustu þremur mánuðum ársins.
„Uppgjör síðasta árs liggur nú fyrir með tap uppá 1.748 milljónir króna. Það ætti ekki að vera margt þar sem kemur á óvart enda eru sjóðstreymi og EBITDA ársins í takt við horfur. Árið markast af því að verið var að framkvæma miklar breytingar á rekstrinum og færa niður viðskiptavild. Jákvæð breyting er verulega bætt sjóðstreymi en frjálst fjárflæði eykst um yfir milljarð króna. Á síðasta ári fór fyrirtækið fyrst í sameiginlega stefnumótun. Í framhaldi af því var skipuriti breytt og nýir framkvæmdastjórar eru nú í öllum stöðum, utan tæknisviðs. Tæknisviði var skipt upp og sett að hluta undir rekstrarsvið, sem mun auk skilvirkni og hraða framförum í starfrænni aðlögun. Við innleiddum nýja vörumerkja– og samskiptastefnu og fórum í framhaldi af því í 4DX átaksverkefni. Ánægja viðskiptavina jókst strax umtalsvert í kjölfarið. Nú erum við í stöðu til að sækja fram,“ segir Heiðar Guðjónsson, forstjóri, í tilkynningu.
Hann segir enn fremur að lykillinn að rekstrarárangri sé fólginn í því að umbreyta föstum kostnaði í breytilegan. „Þar eru ýmis verkefni í gangi. Við erum að auka útvistun verkefna auk þess sem við erum enn að hagræða með því að efla frekari samvinnu á milli deilda fyrirtækisins. Varðandi framtíð fjarskipta þá skiptir mestu að fjárfestingar séu markvissar með tilliti til öryggis og hagkvæmni. Mikilvægur liður í því var yfirlýsing fjarskiptafyrirtækjanna frá 19. desember síðast liðnum, þó enn sé of snemmt að fullyrða um árangur af því starfi,“ segir Heiðar ennfremur.
Helstu atriði úr uppgjöri félagsins, má sjá hér að neðan.
• Tap ársins nam 1.748 milljónum króna miðað við hagnað upp á 443 milljónir króna árið 2018. Hagnaður ársins að frádreginni niðurfærslu á viðskiptavild var 703 milljónir króna. Einskiptiskostnaður ársins nemur 358 milljónum króna.
• Handbært fé frá rekstri á fjórðungnum nam 1.953 milljónum króna samanborið við 1.358 milljónir króna á sama tímabili árið áður, sem er aukning um 44%.
• Heildarfjárfestingar félagsins á árinu námu 4.719 milljónum króna þar af eru fjárfestingar í varanlegum rekstrarfjármunum og óefnislegum eignum (án sýningarrétta) 1.833 milljónir króna og fjárfesting í sýningarréttum 2.789 milljónir króna.
• Fjármögnunarhreyfingar félagsins á árinu voru neikvæðar um 380 milljónir króna á móti jákvæðum hreyfingum upp á 434 milljónum króna á árinu 2018 sem er breyting um 814 milljónir króna.
• Eiginfjárhlutfall Sýn hf. var 27,5% í lok árs 2019.
• Markmið stjórnenda er að ná aukinni framlegð og betra sjóðstreymi úr rekstri félagsins á árinu 2020. Fjárfestingar ársins verða í kringum 1 milljarð.