Verðmiðinn á Gamma, sem Kvika keypti, heldur áfram að lækka frá því að fyrst var tilkynnt um kaupin á félaginu. Þetta má meðal annars lesa út úr uppgjöri Kviku, vegna reksturs bankans í fyrra, en hagnaðurinn nam 2,6 milljörðum króna.
Þegar fyrst var tilkynnt um að Kvika væri að kaupa Gamma, um mitt ár 2018, var frá því greint að kaupverðið gæti numið allt að 3,75 milljörðum króna.
Nú er áætlað að kaupverðið verði 2,1 milljarður króna.
Eins og fjallað var ítarlega um á vef Kjarnans, þá þurfti að færa niður virði eigna hjá tveimur sjóðum Gamma, Novus og Anglia. Novus hafði fjárfest í félaginu Upphafi, en eigið fé sjóðsins var lækkað úr 4,4 milljörðum í nær ekkert, eða rúmlega 40 milljónir.
Eigendur skuldabréfa Novus, og síðan Kvika, lögðu til einn milljarð króna til að styrkja stöðuna, og þá voru vaxtakjör lækkuð einnig.
Marinó Örn Tryggvason, forstjóri Kviku, segir í tilkynningu til kauphallar, að rekstur Kviku hafi gengið vel, og að áætlanir hafi staðist.
Hann segir enn fremur, að rekstrarumhverfið sé um margt krefjandi.
„Aðstæður á fjármálamörkuðum eru krefjandi þessi misserin en Kvika er í góðri stöðu til þess að takast á við þær áskoranir sem fylgja nauðsynlegum breytingum á fjármálakerfinu meðal annars vegna nýrra tæknilausna og áframhaldandi hagræðingar. Það er áhyggjuefni hversu flókið rekstrarumhverfi fjármálafyrirtækja og annarra aðila á fjármálamarkaði er orðið. Fjármálakerfið er hluti af nauðsynlegum innviðum samfélagsins og það hefur ekki náð að þróast nægjanlega til að uppfylla hlutverk sitt. Þrátt fyrir hátt sparnaðarstig á landinu hefur verið erfitt fyrir mörg fyrirtæki og frumkvöðla að afla fjármagns. Fjármagna þarf rekstur og fjárfestingar fyrirtækja til þess að viðhalda og auka verðmætasköpun sem er nauðsynleg forsenda lífskjara. Heilbrigður rekstur fyrirtækja er forsenda þess að þau ráði starfsmenn og greiði laun sem er forsenda fyrir því að hið opinbera fái skatttekjur, sem er forsenda fyrir því að hægt sé að halda uppi öflugri opinberri þjónustu. Uppbygging fjármálakerfisins kemur því öllum við og mikilvægt að það þróist í takt við þarfir hagkerfisins,“ segir Marinó Örn í tilkynningu.