MYND: GAMMA Gamma-6.jpg

Hvað gerðist eiginlega hjá GAMMA?

Tveir sjóðir í stýringu GAMMA færðu niður virði eigna sinna um milljarða króna. Fleiri sjóðir á vegum félagsins hafa verið í vandræðum. Kaupendur af skuldabréfum sem gefin voru út í byrjun sumars eru fokillir með upplýsingarnar sem þeim voru gefnar. GAMMA, sem fór með himinskautum í nokkur ár, virðist vera í miklum vandræðum. Hvað gerðist?

GAMMA Capital Management hefur farið mikinn í íslensku fjármálalífi undanfarinn áratug. Þar hefur helst vakið athygli fjárfestingar í nafni félagsins í fasteignum sem leiddu meðal annars til þess að Almenna leigufélagið, eitt stærsta einkarekna leigufélag landsins, var sett á fót. Vöxturinn var mikill, félagið var komið með 137 milljarða króna í stýringu í lok árs 2017 og uppgefinn rekstrarhagnaður umtalsverður. GAMMA var orðið aðal styrktaraðili Sinfóníuhljómsveitar Íslands, styrkti skákmót og lét að sér kveða víða annars staðar í menningarlífinu með því t.d. að sýna dýr myndlistarverk í höfuðstöðvum sínum.

Í fyrra var orðið ljóst að eitthvað var ekki eins og það átti að vera. GAMMA tapaði 268 milljónum króna, dregið hafði verið úr útrás félagsins og annar stofnenda þess hafði horfið frá. Verið var að reyna að finna kaupanda að GAMMA og eftir nokkrar erfiðar tilraunar náðist samkomulag við Kviku banka um slíkt. 

Síðan að þau kaup gengu formlega í gegn, snemma á þessu ári, hefur staðið yfir tiltekt. Hún náði ákveðnu hámarki í gær þegar tilkynnt var um niðurfærslu á eigin fé tveggja sjóða upp á marga milljarða króna.

Verðið lækkaði

Í hálfsársuppgjöri Kviku banka fyrir árið 2019 er fjallað um kaupin á GAMMA. Í þeim texta sem þar er birtur kemur skýrt fram að áhyggjur voru af stöðu sjóða í stýringu hjá GAMMA. Upphaflega átti kaupverðið á GAMMA að vera 3,8 milljarðar króna, en það lækkaði hratt og þegar greint var frá því að skrifað hefði verið undir kaupsamning með fyrirvara, í nóvember 2018, var kaupverðið sagt 2,9 milljarðar króna. 

Miðað við bókfært virði árangurstengdra þóknana í lok júní 2018 átti það að fara niður í 2,4 milljarða króna. Það átti að greiðast með reiðufé upp á 839 milljónir króna, hlutdeildarskírteinum í sjóðum GAMMA að verðmæti 535 milljónir króna og árangurstengdum greiðslum upp á 1.032 milljónir króna. Kaupin gengi svo formlega í gegn í mars 2019.

Fyrir lá að staða sjóða GAMMA var ekki góð á þessum tíma. Í Frétta­­blað­inu í sumar var greint frá því að fjár­fest­inga­fé­lagið Stoðir hefði lánað GAMMA einn millj­­arð króna haustið 2018, þegar kaup Kviku voru yfir­vof­andi. Lánið var veitt til að bæta lausa­­fjár­­­stöðu GAMMA, sem var þá mjög döp­­ur. Stoðir fengu 150 millj­­ónir króna í þóknun fyrir að veita lánið sem var að fullu greitt upp í byrjun mars 2019, eða strax eftir að Kvika banki hafði gengið formlega frá kaupunum á GAMMA.

Um mitt þetta ár hafði Kvika einungis greitt tæplega 1,4 milljarð króna af kaupverðinu. Auk þess er greint frá því í hálfsársuppgjöri Kviku að 200 milljónir króna af kaupverðinu myndu verða lagðar inn á svokallaðan escrow-reikning til að mæta mögulegum kröfum sem Kvika banki gæti gert vegna kaupanna næstu þrjú árin eftir að kaupin voru frágengin. Ef slíkar kröfur myndast ekki á tímabilinu verður fjárhæðin greidd út til fyrrverandi eigenda GAMMA. 

Vegna þess að stór hluti kaupverðs Kviku banka á GAMMA er bundinn í árangurstengdum þóknunum þá liggur áhættan á því að eignir GAMMA súrni hjá fyrrverandi eigendum félagsins, ekki bankanum. 

Í gær var greint frá því að slík súrnun hefði átt sér stað. 

Eigið fé þurrkaðist út

Snemma í gærmorgun birtist tilkynning í Kauphöll Íslands um að tveir fagfjárfestasjóðir í rekstri GAMMA, Novus og Anglia, væru í mun verra ásigkomulagi en gert hafði verið ráð fyrir. Skráð gengi þeirra hefði verið lækkað sem því nemur. Áhrifin af þessu á afkomu Kviku banka yrðu engin. Það saman verður ekki sagt um þá sem áttu hlutdeildarskírteini í sjóðnum. 

Kjarninn greindi frá því síðdegis í gær að samkvæmt hálfsársuppgjör Novus-sjóðsins í fyrra hafi eigið fé hans verið 4,8 milljarðar króna. Um síðustu áramót var það sagt 4,4 milljarðar króna.

Í einblöðungi sem sendur var út til hlutdeildarskírteinishafa í gær kom fram að eigið fé hans væri 42 milljónir króna. Eigið féð hafði gufað upp og fyrir lá að virði eigna hafði verið stórlega ofmetið. Helsta eign sjóðs­ins er Upp­haf fast­eigna­fé­lag slhf. sem hefur byggt nokkur hundruð íbúðir á höfuðborgarsvæðinu frá því að sjóðurinn var settur á laggirnar 2013. 

Í einblöðungnum var niðurfærslan á eignum Novus útskýrð með því að raunveruleg framvinda tiltekinna verkefna hefði verið ofmetin. „Þá hefur fram­kvæmda­kostn­aður verið tals­vert yfir áætl­unum á árinu. Fyrri mats­að­ferðir tóku ekki að fullu til­lit til fjár­magns­kostn­aðar félags­ins auk þess sem hann hækk­aði veru­lega með útgáfu skulda­bréfs (UPPH21 0530) í vor. Vænt­ingar um sölu­verð íbúða og þró­un­ar­eigna hafa einnig verið end­ur­metn­ar.“

Skuldabréfaútboð fyrir örfáum mánuðum

Þetta skuldabréfaútboð, upp á 2,7 milljarða króna að nafnverði, sem gefið var út í vor á eftir að reynast mikið þrætuepli næstu misserin. Viðmælendur Kjarnans sem tengjast aðilum sem keyptu í því útboði telja að það hafi farið fram á blekkingargrundvelli. Reyndar gekk alls ekki vel að selja útgáfuna til að byrja með. Viðmælendur Kjarnans úr fjármálageiranum segja að það hafi þurft að hækka vextina verulega til að því. Á endanum urðu þeir 15 prósent og áttu að greiðast í einni greiðslu með höfuðstólnum þann 30. maí 2021. 

Útgáfudagur skuldabréfaflokksins er 5. júní 2019. 

Sigurður Viðarsson, forstjóri tryggingafélagsins TM, sagði við Morgunblaðið í dag að þegar þessi sjóður hafi verið að selja skuldabréf í maí á þessu ári hafi stöðunni verið lýst sem allt annarri. Þ.e. að eigið fé sjóðsins væri yfir fimm milljarðar króna. „Þetta er náttúrlega grafalvarlegt mál að menn sem eru að selja sig út sem sérfræðingar á þessu sviði halda ekki betur á spöðunum en þetta. Ég myndi halda að skuldabréfaeigendur myndu allavega vilja skoða málið vel.“

Skuldabréfin voru seld með veði í fjölmörgum eignum, meðal annars öllu hlutafé í Upphafi fasteignafélagi, Upphafi fasteignum og fjórum öðrum félögum. Auk þess voru ýmsar fjárkröfum settar að veði og hlutdeildarskírteini í eigu Upphafs í Almenna leigufélaginu eignarhaldssjóði. 

Óánægja Sigurðar og TM er skiljanleg. Félagið þurfti að senda frá sér afkomuviðvörun í gær vegna niðurfærslu sjóðanna. Bók­fært tap TM vegna GAMMA: Novus nemur um 300 millj­ónum króna. Tryggingafélagið Sjóvá þurfti einnig að bókfæra tap upp á 155 milljónir króna vegna sjóðins. 

Á meðal stærstu eigenda beggja tryggingafélaganna eru íslenskir lífeyrissjóðir, sem tapa þar af leiðandi óbeint á málinu. 

Fleiri sjóðir sem voru súrir

Þetta eru ekki einu sjóðirnir í stýringu GAMMA sem verið hafa til vandræða. Snemma á þessu ári var greint frá því að tveir sjóð­ir í stýr­ing­u GAMMA keyptu sam­an­lagt skulda­bréf fyrir tvær millj­­ónir evra í frægu skuldabréfaútboði WOW air í september í fyrra. 

Í lok júní var greint frá því að tveimur fjárfestingasjóðum félagsins, GAMMA: Total Return Fund og GAMMA: Global, hefði verið lokað og sjóðsfélögum tilkynnt að við slit þeirra yrðu þeim fjármunum sem myndu fást við sölu eigna ráðstafað til hlutdeildarskírteinishafa. 

GAMMA: Total Return Fund mat um tíma eignir sínar á yfir fimm milljarða króna, á árinu 2017. Þegar ákveðið var að loka sjóðnum voru eignir í stýringu hjá honum um 1,5 milljarðar króna. Hluti þeirra var í óskráðum félögum. 

Skömmu áður en að ofangreindum tveimur sjóðum var lokað þá var fjórum sjóðum GAMMA rent saman við sjóði Júpíters, sem er líka í eigu Kviku banka

Þótt Kvika banki hafi keypt GAMMA, og þegar greint frá því opinberlega í byrjun september að stjórn bankans hefði ákveðið að sameina alla eigna- og sjóða­­stýr­ing­­ar­­starf­­semi sam­­stæð­unn­­ar í eitt dótturfélag þá er enn starfsemi í gömlu höfuðstöðvum GAMMA. 

Samhliða þeirri tilkynningu var greint frá því að Valdimar Ármann myndi hætta sem forstjóri GAMMA. Í gær var greint frá því að Máni Atlason yrði nýr framkvæmdastjóri og tæki um leið yfir stýringu á Novus-sjóðnum. Áður  var Ingvi Hrafn Ósk­ars­son, fyrr­ver­andi fram­kvæmda­stjóri sér­hæfðra fjár­fest­inga hjá GAMMA, sjóðs­stjóri Novus. 

Viðmælendur Kjarnans sem þekkja til eru á einu máli um að það verði frekari afleiðingar af málinu í nánustu framtíð.

Stofnaður til að fjárfesta eftir haftalosun

Hinn sjóðurinn sem færður var niður, GAMMA: Anglia, var stofnaður sumarið 2017. Um var að ræða fimm millj­arða króna fast­eigna­sjóð í London sem átti að fjár­festa í hinum ýmsu verk­efn­um. Í frétt Við­skipta­blaðs­ins frá  þeim tíma var haft eftir Gísla Hauks­syni, þáver­andi stjórn­ar­for­manni og for­stjóra GAMMA, að frá­bær tíma­punktur væri fyrir Íslend­inga til að fjár­festa erlend­is. Ákveðið hefði verið að setja sjóð­inn á lagg­irnar í kjöl­far frétta um aflétt­ingu hafta á Íslandi og að umfang hans væri fimm milljarðar króna. Þeir sem settu fé í sjóð­inn voru íslenskir einstaklingar, tryggingafélag og lífeyrissjóðir. 

Í fréttinni sagði Gísli að sjóðurinn hefði getað orðið enn stærri, slíkur hefði áhuginn á honum verið. 

Enn hefur ekki verið greint frá því opinberlega um hversu mikið Anglia-sjóðurinn var færður niður, í hvaða fjárfestingar hann réðst né hverjir það voru sem sett fjármuni inn í hann.

Gísli, sem var annar stofnenda GAMMA ásamt Agnari Tómasi Möller, lét af störfum hjá félaginu í mars í fyrra eftir að endurskoðun hafði átt sér stað á erlendri starfsemi þess. Í henni fólst meðal annars að loka skrifstofu GAMMA í Zürich í Sviss, innan við ári eftir að hún var opnuð. Auk þess hafði GAMMA verið með starfsemi í London og New York og haustið 2017 greindi Fréttablaðið frá því að rekstrarkostnaður GAMMA hefði aukist um 65 prósent á fyrstu sex mánuðum ársins 2017 miðað við sama tímabil árið áður, þrátt fyrir að hagnaður hefði dregist saman. 

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar