Í drögum að nýju frumvarpi sem ríkisstjórnin hefur lagt fram í samráðsgátt stjórnvalda er lögð til sú grundvallarbreyting að ársreikningar og samstæðureikningar allra félaga sem skila ársreikningi sínum til ársreikningaskrár verði aðgengilegir almenningi og fjölmiðlum að kostnaðarlausu á opinberu vefsvæði.
Í frumvarpsdrögunum segir að með breytingunni sé meðal annars ætlunin að auka aðgengi almennings að upplýsingum sem félögum sé skylt að útlista í ársreikningi. „Eðlilegt þykir að almenningur hafi greiðan aðgang að slíkum upplýsingum frá félögum. Greiðari aðgangur að ársreikningum er til þess fallinn að auka aðhald með rekstri félaga, stuðla að upplýstri umræðu og efla þannig traust almennings.“
Annað frumvarp í þinglegri meðferð
Frumvarp um gjaldfrjálst aðgengi almennings og fjölmiðla liggur reyndar þegar fyrir á Alþingi, og var lagt fram í fyrrahaust. Fyrsti flutningsmaður þess er Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata. Mælt var fyrir því fyrr á þessu ári og það gekk til efnahags- og viðskiptanefndar í janúar. Umsagnarfrestur hagsmunaaðila vegna þess rann út í liðinni viku.
Þeir sem hagnist af núverandi fyrirkomulagi virðast fyrst og síðast vera þriðju aðilar sem selja aðgang að upplýsingum um fyrirtæki sem milliliðir. „Fjárhagslegir hagsmunir þeirra fyrirtækja, sem eru örfá, geta vart trompað lýðræðislegt mikilvægi þess að fjölmiðlar og almenningur allur hafi frjálst, frítt og takmarkalaust aðgengi að opinberum upplýsingum um fyrirtækin sem starfa hérlendis.“
Í frumvarpsdrögum ríkisstjórnarinnar sem birt voru í vikunni segir að ljóst sé að ríkið verði af tekjum verði frumvarpið að lögum, þar sem ársreikningaskrá verðu óheimilt að taka gjald fyrir aðgengi að ársreikningum félaga sem birtir verða á opinberu vefsvæði. Auk þess sem kostnaður muni hljótast af smíði tæknilegrar lausnar svo hægt sé að birta ársreikninga á opinberu vefsvæði.
Frítt í nágrannalöndunum
Í nágrannalöndunum eru starfsræktar sérstakar vefsíður þar sem hægt er að nálgast grunnupplýsingar um fyrirtæki á borð við eigendur, stjórnendur og lykiltölur úr rekstri fyrirtækjanna.
Vefsíðan Allabogal í Svíþjóð þjónar til að mynda þessum tilgangi, en þar er að finna helstu upplýsingar um fyrirtæki þar í landi. Hægt er að nálgast grunnupplýsingar án kosnaðar en ef þörf er á þá er hægt að greiða fyrir frekari upplýsingar. Samkvæmt síðunni er hún uppfærð daglega með upplýsingum frá yfirvöldum þar í landi.
Sambærilegar síður eru í Danmörku og Noregi, þar sem hægt er að fletta upp grunnupplýsingum um dönsk og norsk fyrirtæki.
Hagaðilar hafa mótmælt
Það frumvarp sem Björn Leví mælti fyrir í janúar er ekki það fyrsta um þessi mál sem hann hefur lagt fram. Slíkt frumvarp var til að mynda lagt fram í desember 2017 og gekk þá til efnahags- og viðskiptanefndar sem kallaði eftir umsögnum um málið, sem rataði síðan aldrei út úr þeirri nefnd.
Á Íslandi er stærsta fyrirtækið á þeim markaði sem selur upplýsingar úr ársreikningaskrá Creditinfo. Það skilaði umsögn til efnahags- og viðskiptanefndar snemma árs 2018 þar sem sagði meðal annars að upplýsingarnar væru fyrst og fremst nýttar af atvinnulífinu. „Kaupendur upplýsinganna eru að langmestu leyti fjármálafyrirtæki, lögmenn, endurskoðendur og aðrir þátttakendur í viðskiptalífinu. Framangreindir aðilar hafa hagsmuni af því að afla upplýsinganna í tengslum við ákvarðanatökur og ekki óeðlilegt að þeir sem nota upplýsingarnar greiði fyrir slíkar upplýsingar með gjöldum sem lögð eru á skv. heimild í lögum, í stað þess að almannafé verði nýtt til að standa straum af kostnaði við rekstur skránna.“
Ekki verði séð að það takmarki aðgang almennings að upplýsingum úr framangreindum skrám að greitt sé sanngjarnt gjald fyrir öflun þeirra að mati Creditinfo, enda sé væntanlega í flestum tilfellum um að ræða öflun á einstaka upplýsingum fremur en að þörf sé á öflun viðamikilla skráa. „Það ætti þó helst við í tilfelli fræðimanna en skoða mætti afhendingu gagna til slíkra aðila sérstaklega, sem þá tilgreindu í hvaða tilgangi þörf væri á viðamiklum skrám, hvernig þær yrðu nýttar og hvernig meðferð persónuupplýsinga yrði tryggð. Magnafsláttur í gjaldskrá væri hugsanlegur í slíkum tilfellum.“