Mynd: Bára Huld Beck

Ríkisstjórnin vill auka gagnsæið hjá 30 óskráðum en þjóðhagslega mikilvægum fyrirtækjum

Í drögum að nýju frumvarpi, sem ríkisstjórnin hefur lagt fram til að auka traust á íslenskt atvinnulíf, er lagt til að skilgreining á „einingum tengdum almannahagsmunum“ verði víkkuð verulega út og nái meðal annars til stóriðju og sjávarútvegsrisa. Þau fyrirtæki þurfa þá að auka gagnsæi reksturs síns verulega. Auk þess ætlar ríkisstjórnin að gera aðgang að ársreikningum gjaldfrjálsan fyrir almenning og fjölmiðla.

Ríkisstjórnin hefur lagt fram drög að frumvarpi í samráðsgátt stjórnvalda sem hefur þann tilgangi að láta stærri sjávarútvegsfyrirtæki, stóriðju- og orkufyrirtæki, flugfélög, fjarskiptafélög og skipafélög sem stunda millilandaflutninga verða skilgreind sem „einingar tengdar almannahagsmunum“ jafnvel þótt þau séu ekki skráð á hlutabréfamarkað. Gera má ráð fyrir að rúmlega 30 fyrirtæki bætist við skilgreininguna „eining tengd almannahagsmunum“ verði frumvarpið óbreytt að lögum en um helmingur þeirra eru sjávarútvegsfyrirtæki.

Um slík fyrirtæki, sem þá teljast kerfislega mikilvæg, gilda mun strangari reglur um gagnsæi og upplýsingagjöf en önnur. Með öðrum orðum, þau munu þurfa að sýna mun meira inn á hvað þau eru að gera en hingað til og allar kröfur sem gerðar verða til þeirra verða auknar verulega. Þessar breytingar eiga að undirstrika „þjóðhagslegt mikilvægi“ slíkra fyrirtækja.

Til að undirstrika þetta enn frekar segir í greinargerð sem fylgir frumvarpsdrögunum að ástæða þess að þetta sé mikilvæg breyting sé meðal annars sú að „röskun á starfsemi, þjónustu eða rekstri slíkra félaga getur haft umtalsverð áhrif á efnahagsstarfsemi eða stöðugleika vegna þess hversu umfangsmikil hún er, markaðshlutdeildar hennar, mikilvægi á atvinnumarkaði, tengsla við aðra starfsemi, flækjustigs eða starfsemi yfir landamæri eða vegna þess að önnur sambærileg starfsemi eða rekstur hér á landi er takmörkuð eða ekki í boði. Þá þykir einnig rétt að gera auknar kröfur til félaga sem með starfsemi sinni standa fyrir nýtingu á auðlindum þjóðarinnar, s.s. nytjastofnum á Íslandsmiðum eða orkuauðlindum.“

Sjávarútvegur og stóriðja þurfa að auka upplýsingagjöf

Breytingarnar munu ná yfir öll fyrirtæki í áðurnefndum atvinnuflokkum sem teljast sem stór félög eða stórar samstæður í skilningi ársreikningalaga. Til að teljast til slíkra þarf fyrirtæki að fara yfir mörk á að minnsta kosti tveimur af þremur viðmiðum sett eru fram í lögunum. Þau eru fyrir samstæðu að niðurstöðutala efnahagsreiknings sé að minnsta kosti þrír milljarðar króna, að hrein velta sé að minnsta kosti sex milljarðar króna eða að meðalfjöldi ársverka sé að minnsta kosti 250. Fyrir stór félög þarf að uppfylla tvennt af eftirfarandi þrennu: að eiga heildareignir yfir þremur milljörðum króna, að vera með hreina veltu sem er yfir sex milljörðum króna eða að vera með meðalfjölda ársverka yfir 250.

Verði frumvarpið að lögum mun það ná til 30 fyrirtækja sem eru ekki skilgreind kerfislega mikilvæg í lögum í dag. Flest þeirra eru ekki skráð á hlutabréfamarkað og lúta því ekki þeim auknu skilyrðum um upplýsingagjöf sem fylgir því. Þó eru sum það, til dæmis Brim, Síminn og Eimskip.

Um helmingur þeirra sem bætast við eru stærstu sjávarútvegsfyrirtækja landsins (meðal annars Samherji). Á meðal annarra fyrirtækja sem falla munu þar undir eru allra stærstu fyrirtækin sem stunda stóriðju og stórtæk raforkukaup hérlendis (til dæmis Río Tinto á Íslandi í Straumsvík, Alcoa Fjarðaláls og Norðuráls), óskráð fjarskiptafyrirtæki á borð við Nova og óskráð skipafélög á borð við Samskip. 

Á meðal þeirra fyrirtækja sem munu falla undir nýju skilgreininguna um þjóðhagslega mikilvæg fyrirtæki er Samherji.
Mynd: Samherji

Frumvarpið er liður í aðgerðum ríkisstjórnarinnar sem miða að því að auka traust á íslensku atvinnulífi með því að gera ríkari kröfur um gagnsæi í rekstri stærri óskráðra fyrirtækja. Það er samið í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu í samvinnu við forsætisráðuneytisráðuneyti, fjármála- og efnahagsráðuneyti og samgöngu- og sveitastjórnarráðuneyti. Því koma ráðuneytin sem stýrt er af formönnum allra þriggja stjórnarflokkanna að gerð frumvarpsins. 

Gjaldfrjáls aðgangur að ársreikningum

Til viðbótar við ofangreint er einnig lögð til sú grundvallarbreyting að ársreikningar og samstæðureikningar allra félaga sem skila ársreikningi sínum til ársreikningaskrár verði aðgengilegir almenningi og fjölmiðlum að kostnaðarlausu á opinberu vefsvæði. Í frumvarpsdrögunum segir að með breytingunni sé meðal annars ætlunin að auka aðgengi almennings að upplýsingum sem félögum sé skylt að útlista í ársreikningi. „Eðlilegt þykir að almenningur hafi greiðan aðgang að slíkum upplýsingum frá félögum. Greiðari aðgangur að ársreikningum er til þess fallinn að auka aðhald með rekstri félaga, stuðla að upplýstri umræðu og efla þannig traust almennings.“

Frumvarp um gjaldfrjálst aðgengi almennings og fjölmiðla liggur reyndar þegar fyrir á Alþingi. Það var lagt fram af Birni Leví Gunnarssyni, þingmanni Pírata, í fyrrahaust. Mælt var fyrir því fyrr á þessu ári og það gekk til efnahags- og viðskiptanefndar í janúar. Umsagnarfrestur hagsmunaaðila vegna þess rennur út í dag. 

Björn Leví Gunnarsson er fyrsti flutningsmaður frumvarps sem þegar hefur verið mælt fyrir, og leggur til að aðgangur að ársreikningum verði gjaldfrjáls.
Mynd: Bára Huld Beck

Á meðal þeirra sem hafa lýst yfir stuðningi við breytinguna í umsögnum sínum eru Kjarninn, Blaðamannafélag Íslands og Alþýðusamband Íslands. Á meðal þess fram kom í umsögn Kjarnans um málið, sem skilað var inn í byrjun viku, er að sú gjaldtaka sem sé  til staðar, og skilaði m.a. Ríkisskattstjóra 134 milljónum krónum í tekjur á árinu 2017, kemur í veg fyrir að Kjarninn og aðrir miðlar sem fjalla um íslenskt atvinnulíf ráðist í umfangsmiklar úttektir á atvinnugreinum og takmarki kaup sín á efni úr áðurnefndum skrám við það allra nauðsynlegasta, enda safnast hratt upp umtalsverður kostnaður ef mikið af gögnum eru sótt. 

Þeir sem hagnist af núverandi fyrirkomulagi virðast fyrst og síðast vera þriðju aðilar sem selja aðgang að upplýsingum um fyrirtæki sem milliliðir. „Fjárhagslegir hagsmunir þeirra fyrirtækja, sem eru örfá, geta vart trompað lýðræðislegt mikilvægi þess að fjölmiðlar og almenningur allur hafi frjálst, frítt og takmarkalaust aðgengi að opinberum upplýsingum um fyrirtækin sem starfa hérlendis.“

Í frumvarpsdrögum ríkisstjórnarinnar sem birt voru í gær segir að ljóst sé að ríkið verði af tekjum verði frumvarpið að lögum, þar sem ársreikningaskrá verðu óheimilt að taka gjald fyrir aðgengi að ársreikningum félaga sem birtir verða á opinberu vefsvæði. Auk þess sem kostnaður muni hljótast af smíði tæknilegrar lausnar svo hægt sé að birta ársreikninga á opinberu vefsvæði. 

Ert þú í Kjarnasamfélaginu?

Kjarninn er opinn vefur en líflínan okkar eru frjáls framlög frá lesendum, Kjarnasamfélagið. Sú stoð undir reksturinn er okkur afar mikilvæg.

Með því að skrá þig í Kjarnasamfélagið gerir þú okkur kleift að halda áfram að vinna í þágu almennings og birta vandaðar fréttaskýringar, djúpar greiningar á efnahagsmálum og annað fréttatengt gæðaefni. 

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur undanfarin sjö ár og við ætlum okkur að standa vaktina áfram. 

Fyrir þá sem nú þegar eru stoltir styrkjendur Kjarnans þá leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka mánaðarlega framlagið með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar