Mynd: Ríkissáttarsemjari. Ástráður Haraldsson Mynd: Ríkissáttasemjari

Ástráður með það til skoðunar að stefna íslenska ríkinu ... aftur

Ástráður Haraldsson hefur fjórum sinnum sóst eftir því að komast að sem dómari við Landsrétt. Þrívegis hefur honum verið hafnað en ekki hefur verið tekin ákvörðun um eina umsókn hans. Ástráður telur sig hafa mátt þola ítrekuð réttarbrot í meðferð umsókna sinna og áskilur sér rétt til að stefna ríkinu vegna þessa. Í það minnsta vill hann „upplýsa um þau vinnubrögð sem höfð eru uppi.“

Ástráður Haraldsson héraðsdómari er með það til skoðunar að stefna íslenska ríkinu vegna ákvörðunar Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra um setningu í tvö embætti dómara við Landsrétt í lok síðustu viku. Ef Ástráður ákveður að stefna mun hann fara fram á ógildingu á ákvörðun ráðherrans. 

Í bréfi sem hann sendi dómsmálaráðherra 12. febrúar síðastliðinn, og Kjarninn hefur undir höndum, segir Ástráður að hann hafi ítrekað mátt þola „réttarbrot í meðferð umsókna minna um skipun og nú setningu í embætti Landsréttardómara“. Því sé óhjákvæmilegt að hann freisti þess með öllum tiltækum ráðum að fá hlut sinn réttan og „að minnsta kosti gera það sem í mínu valdi stendur til að upplýsa um þau vinnubrögð sem höfð eru uppi.“

Ástráður var einn tveggja umsækjenda, ásamt Ásu Ólafsdóttur prófessor, sem hæfisnefnd hafði metið hæfust til að vera sett í stöðurnar þegar hún skilaði niðurstöðu sinni í drögum 3. febrúar síðastliðinn. Hann sá ekki ástæða til að andmæla þeirri niðurstöðu.

Þegar að andmælaréttar umsækjenda var liðinn hafði niðurstaða hæfisnefndarinnar hins vegar breyst á þann veg að Sandra Baldvinsdóttir héraðsdómari væri jafnsett Ástráði í hæfi, en hún hafði skilað andmælum til nefndarinnar.

Áslaug Arna tók svo ákvörðun fyrir helgi um að skipa Ásu og Söndru hinar lausu stöður. 

Í bréfinu sem Ástráður sendi til dómsmálaráðherra 12. febrúar, daginn eftir að endanleg umsögn dómnefndar lá fyrir, segir hann að ekkert komi fram í álitsgerð nefndarinnar sem gefi neina vísbendingu um eða skýringu á því hvers vegna ályktun nefndarinnar hafi verið breytt.

Þar segir Ástráður enn fremur að hann telji málsmeðferðina ekki standast reglur stjórnsýsluréttar. „Ég hef engar upplýsingar um það hvaða forsendur hafa breyst og hef ekki notið andmælaréttar vegna þessa. Þá verð ég al láta þess getið að breytingin sem gerð er á ályktun nefndarinnar er að mínu mati augljóslega efnislega röng. Við mat á umsækjendum um embætti Landsréttardómara við stofnun dómsins 2017 var ég metinn 14. hæfastur en Sandra Baldvinsdóttir 22. Síðan þá er mér ekki kunnugt um að neinar verulegar breytingar hafi orðið á hennar háttum að því er starfsvettvang áhrærir en ég hef hins vegar með því að taka við embætti héraðsdómara bætt úr þeim ágalla sem helstur var talinn á hæfni minni 2017 og ætti því hlutrænt séð að aukast munur á hæfi okkar tveggja mér í hag frá hinu fyrra mati.“

Sagði nefnd hafa litið fram hjá auka- og félagsstörfum

Í athugasemdum sem Sandra gerði við drög að umsögn hæfisnefndar, þar sem hún var ekki metin á meðal hæfustu umsækjenda til að verða skipuð, segir hún að dómnefnd hafi litið fram hjá fjölmörgum aukastörfum sínum og félagsstörfum. Því gefi umsögnin ekki rétta mynd af starfsreynslu hennar. 

Sandra benti á að hún hefði setið í fjölmörgum nefndum og hópum síðastliðna tvo áratugi sem unnið hefðu að margvíslegum úrbótum innan stjórnsýslunnar. Í sumum tilvikum hafi nefndirnar skilað af sér í formi frumvarpsdraga. Á meðal slíkra sem hún var í er starfshópur dómstólaráðs um hagkvæmni og skilvirkni við vinnslu dómsmála. Lagt var fram frumvarp með tillögum starfshópsins sem samþykkt var sem lög árið 2015. 

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra setti tvo aðra umsækjendur í stöðu Landsréttardómara á föstudag.
Mynd: Bára Huld Beck

Þá hafi þess ekki verið getið í drögunum að Sandra hafi undanfarin ár „setið í stjórn Dansíþróttasambands Íslands, en sambærileg reynsla annars umsækjanda er tilgreind í fyrirliggjandi drögum, þ.e. að Ása Ólafsdóttir hafi verið í stjórn Kraftlyftingasambands Íslands. Það kemur heldur ekki fram að ég var formaður félags sumarhúsaeigenda í Hvammi, Skorradal, frá 2005-2006.“

Með vísan til ofangreinds taldi hún ljóst að verulegir ágallar væru á drögum að umsögn hæfisnefndar og fór fram á að þau yrðu endurskoðuð. 

Hæfisnefndin varð við þeirri beiðni og í endanlegri umsögn hennar var Ása metin hæfust, en Ástráður og Sandra metin jafnsett. 

Var á meðal hæfustu en ekki skipaður

Þetta er ekki í eina skiptið sem Ástráður hefur sóst eftir því að vera skipaður dómari við Landsrétt. Hann sótti um að vera einn þeirra 15 sem valdir voru til að sitja þar við stofnun dómstigsins á árinu 2017 og var þá, líkt og áður sagði, talinn sá 14. hæfasti af hæfisnefnd. 

Sig­ríður Á. Andersen, þáver­andi dóms­mála­ráð­herra, ákvað hins vegar að færa fjóra umsækj­endur sem dóm­nefndin hafði mælt með að yrðu skip­aðir af skip­un­ar­list­anum og bæta fjórum öðrum inn á hann, sem nefndin hafði ekki talið á meðal þeirra hæfustu. Alþingi sam­þykkti svo breyttan lista Sig­ríð­ar. Ást­ráður var því ekki skip­aður á þeim tíma. Hann, og annar umsækj­andi sem var í sömu stöðu, stefndu rík­inu vegna þessa.

Hæst­i­­­­­réttur komst að þeirri nið­­­­­­ur­­­­­­stöðu í des­em­ber 2018 í málum þeirra að Sig­ríður hafi brotið gegn stjórnsýslulögum þegar hún ákvað að fara gegn áliti dóm­­­­­­nefnd­­­­­­ar­inn­­­­­­ar. Auk þess kom­st Mann­rétt­inda­­­­dóm­­­­stóll Evr­­­­ópu að þeirri nið­­­­ur­­­­stöðu í mál­inu í mars í fyrra að dóm­­­­ar­­­­arnir fjórir sem voru færðir upp á lista Sig­ríðar væru ólög­­­­lega skip­að­ir, og geti þar með ekki fellt dóma yfir þeim sem fyrir þá koma, enda hafi þeir ekki hlotið rétt­láta máls­­­­með­­­­­­­ferð. Í kjöl­far þess að dómur Mann­rétt­inda­­­­dóm­stóls­ins féll þá sagði Sig­ríður af sér emb­ætti dóms­­­­mála­ráð­herra.

Ástráður sóttist síðar eftir því að verða skipaður héraðsdómari og var skipaður slíkur í byrjun mars 2018.

Athugasemdir við einkunn

Í fyrravor sagði einn þeirra ellefu dómara sem löglega voru skipaðir í Landsrétt, Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, starfi sínu lausu og greindi frá því að hann hygðist setjast í helgan stein. 

Alls sóttu átta um þá stöðu. Þar á meðal var Ástráður. 

Þá var Eiríkur Jónsson, þá prófessor við Háskóla Íslands, skipaður, en Eiríkur hafði verið í sjöunda sæti yfir þá sem sem hæfisnefnd hafði metið hæfasta til að vera dómarar við Landsrétt í aðdraganda þess að hann var stofnaður. Hann var, líkt og Ástráður, færður af listanum af þáverandi dómsmálaráðherra. 

Valið á Eiríki kom ekki á óvart og ekki voru gerðar athugasemdir við það að hálfu annarra umsækjenda. Kjarninn hefur hins vegar undir höndum andmælaskjal sem Ástráður sendi hæfnisnefndinni sem mat umsækjendur sumarið 2019, þar sem hann gerir athugasemdir við ýmislegt sem sett var fram við mat á hæfni hans í drögum að umsögn og tveimur vinnuskjölum nefndarinnar sem honum höfðu verið send.

Landsréttur hefur verið stanslaust þrætuepli frá því að til hans var stofnað, vegna þess hvernig til hans var stofnað.
Mynd: Bára Huld Beck

Annars vegar er um að ræða athugasemdir við einkunnagjöf nefndarinnar og hins vegar athugasemdir sem varða minnisblað nefndarinnar um færni umsækjenda um embætti landsréttardómara til að semja dóma. 

Taldi nefndina hafa uppi meiðyrði

Nefndin gerði athugasemdir við það hvernig Ástráður semdi dóma sem héraðsdómari. Í umsögn nefndarinnar sagði að Ástráður virtist ekki „ gera nægan greinarmun á þeirri skyldu sinni sem dómara að dæma einungis eftir lögunum og persónulegum viðhorfum sínum til málsaðila eða sakarefnisins, sem til úrlausnar er hverju sinni.“

Í andmælabréfi Ástráðs segir að sé þessi texti skilinn bókstaflega verði ekki annað séð en að dómnefndin sé að halda því fram að hann hafi gerst sekur um hlutdrægni gagnvart málsaðilum og byggi dóma sína á persónulegum skoðunum sínum en ekki lögum. „Hvort sem væri fæli auðvitað í sér brot á starfsskyldum mínum og stjórnarskrá svo varðað gæti embættismissi. Dómari verður varla borinn þyngri sökum. Hér hlýtur einhver misskilningur að hafa orðið.[...]Það getur varla hafa verið tilætlun nefndarinnar að hafa uppi meiðyrði við einstaka umsækjendur í álitsgerð sinni. Við þessa framsetningu óbreytta verður ekki búið. Ég treysti því að þessi framsetning verði löguð en verði það ekki gert er óhjákvæmilegt að benda á að þessi ummæli eru órökstudd og efnislega röng. Ég áskil mér allan rétt til að bregðast við ef ekki verður úr þessu bætt.“

Lækkaði í hæfi þrátt fyrir að hafa bætt við sig

Varðandi einkunnargjöfina þá kom það Ástráði í opna skjöldu að hann lækkaði töluvert í einkunn frá þeim tíma sem að hæfisnefnd um skipun dómara við Landsrétt mat hann árið 2017, þrátt fyrir að hafa tekið við dómarastöðu við héraðsdóm í millitíðinni. „Þetta tel ég að hljóti að teljast einsdæmi og afar undarleg þróun. Ég minni á að mat hæfnisnefndar frá 2017 hefur sætt sérstakri umfjöllun Hæstaréttar sem ekki taldi ástæðu til að gera við það athugasemdir,“ segir í bréfi Ástráðs. 

Aðrir umsækjendur sem metnir voru bæði 2017 og 2019 breyttust ekki með sama hætti og Ástráður í einkunn í mati hæfisnefndarinnar, og einn hækkaði jafnvel að teknu tilliti til aukinnar dómarareynslu sem hann hafði aflað sér í millitíðinni. „Þetta gerist þrátt fyrir að ég sé hinn eini úr þessum fjögurra manna hópi sem ætti að hafa verulega möguleika á að hækka í einkunn. Ég er sá eini úr hópnum sem hef frá 2017 gert verulegar breytingar á starfsferli mínum og högum sem hlutlægt séð ættu að leiða til hækkunar á einkunn minni. Ég gekk í það með því að taka að mér starf héraðsdómara að vinna mér inn reynslu á því sviði sem helst þarfnaðist úrbóta að mati hæfnisnefndarinnar árið 2017,“ segir Ástráður í bréfinu.

Hann tók fram að ef einkunnargjöf hans yrði ekki lagfærð þá myndi hann ekki una því og áskilja sér rétt til að láta á niðurstöðu nefndarinnar reyna fyrir dómi. 

Þegar endanlega umsögn lá fyrir hafði einkunn Ástráðs hækkað, en hún var samt lægri en vorið 2017. 

Vill að þrír víki úr hæfisnefnd

Í desember 2019 var ekki bara auglýst eftir setningu í tvö embætti dómara við Landsrétt heldur líka skipun í eina stöðu, eftir að Ingveldur Einarsdóttir var skipuð dómari við Hæstarétt. 

Alls sóttu fjórir um þá stöðu: Þau Ástráður og Sandra og tveir þeirra dómara sem skipaðir voru ólöglega við stofnun Landsréttar, Ásmundur Helgason og Ragnheiður Bragadóttir.

Þegar greint var frá því hverjir sóttu um starfið gleymdist hins vegar að hafa nafn Ástráðs með í frettatilkynningunni. Það var síðar lagfært. 

Við þetta tilefni skrifaði Ástráður dómsmálaráðherra einnig bréf þar sem hann tilkynnti henni að hann myndi áskilja sér rétt til þess að láta á það reyna fyrir dóm­stólum ef þegar skip­aðir dóm­arar við Lands­rétt verði skip­aðir í lausa stöðu við rétt­inn.

Í bréfinu, sem var einnig sent til Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra, sagði að það sé að mati Ást­ráðs aug­ljós hætta á því að ef umsókn skip­aðs Lands­rétt­ar­dóm­ara sé talin gild og myndi svo leiða til nýrrar skip­unar umsækj­and­ans í emb­ætti Lands­rétt­ar­dóm­ara gætu þeir sem svo kysu látið á það reyna hvort slík skipun teld­ist lög­mæt.

Með slíkri skipan væri í raun verið að gera til­raun til að lög­helga eftir á skipun dóm­ara sem þegar hefði verið metin ólög­mæt. „Ég tel tals­verðar líkur á að nið­ur­staða dóm­stóla yrði sú að slík skipan stæð­ist ekki. Það væri, svo vægt sé til orða tek­ið, í ljósi for­sög­unn­ar, afar óheppi­legt bæði fyrir dóms­kerfið og umsækj­and­ann ef það yrði nið­ur­stað­an. Slíkur fram­gangur væri auk þess til þess fall­inn að draga á lang­inn ríkj­andi réttaró­vissu um fram­tíð­ar­skipan Lands­réttar og fæli í sér afar sér­kenni­leg skila­boð inn í yfir­stand­andi mála­rekstur fyrir Mann­rétt­inda­dóm­stóli Evr­ópu. Ég tel raunar að Lands­réttur megi illa við frek­ari slíkum skakka­föll­u­m.“

Kjarninn hefur einnig undir höndum annað bréf sem Ástráður sendi til hæfnisnefndarinnar um hæfi umsækjenda um skipunina, sent 13. febrúar síðastliðinn, þar sem hann fer fram á að þeir þrír nefndarmenn sem tóku líka ákvörðun um hæfi þeirra sem sóttust eftir því að vera settir dómarar í Landsrétt fyrr í mánuðinum, víki úr nefndinni. Um er að ræða Ingimund Einarsson, Ragnhildi Helgadóttur og Óskar Sigurðsson. Í bréfinu segir Ástráður að hann telji nefndarmennina þrjá mögulega hafa brotið stjórnsýslureglur bæði um form og efni og með aðkomu sinni að niðurstöðunni frá 12. febrúar valdið því að fyrir hendi séu aðstæður sem séu til þess fallnar að draga megi í efa óhlutdrægni þeirra varðandi mat á hæfi Ástráðs. 

Það hafi þremenningarnir gert með því að „gera á elleftu stundu óvæntar breytingar á áður boðaðri niðurstöðu sinni vegna andmæla annars umsækjanda án þess að gefa mér kost á að koma að sjónarmiðum mínum um þennan breytta grundvöll afgreiðslu nefndarinnar viðrist mér að nefndin hafi brotið andmælareglu gagnvart mér. Þá tel ég að allt bendi til þess að fyrrgreind breyting á hæfnisröðun standist bersýnilega ekki efnislega skoðun og sé röng og ómálefnaleg og brot á efnisreglum stjórnsýsluréttar. [...]Ályktun hæfnisnefndar frá 12. febrúar hefur leitt til þess að ég hef nú til skoðunar að höfða mál til ógildingar niðurstöðu nefndarinnar og þeirrar ákvörðunar sem ráðherra mun taka á grundvelli hennar og í því máli munu ofangreindir nefndarmenn verða kallaðir til sem vitni. Ekki þarf að fjölyrða um hversu óheppileg aðkoma þeirra að starfi hæfnisnefndar verður í því ljósi.“

Hæfnisnefndin tók erindið fyrir á fundi sínum í síðustu viku, þann 17. febrúar. Þar var kröfu Ástráðs um að þremenningarnir myndu víkja sæti hafnað.

Enn hefur ekki verið skipað í þá stöðu sem er laus við Landsrétt.   

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Efnisflokkar:
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar