Þrjú tilfelli af veirunni SARS-CoV-2 sem veldur COVID-19 sjúkdómi verið staðfest hér á landi. Þriðja tilfellið var staðfest fyrr í kvöld á veiru- og sýklafræðideild Landspítala. Frá þessu er greint í tilkynningu frá Samhæfingarstöðinni í kvöld.
Um er að ræða konu á fimmtugsaldri. Þau tilfelli sem greind hafa verið í dag tengjast bæði flugferðum á vegum Icelandair til landsins í gær; annars vegar flugi sem kom frá Veróna og hins vegar flugi sem kom frá Munchen. Báðir einstaklingarnir höfðu verið á skíðum á Ítalíu. Líðan þeirra sem greindust með veiruna í dag er góð, en þau sýna dæmigerð einkenni sjúkdómsins (hósti, hiti og beinverkir). Allir þrír einstaklingar sem greindir hafa verið með veiruna eru búsettir á höfuðborgarsvæðinu. Um 300 manns eru nú í sóttkví á landinu, samkvæmt tilkynningunni.
Eins og greint var frá fyrr í dag var öllum þeim sem voru um borð í flugvélinni frá Veróna ráðlagt að fara í sóttkví. Haft verður samband við hópinn í gegnum tölvupóst og með símtali frá heilbrigðisstarfsmanni. Um er að ræða 180 einstaklinga, en til að sinna þessu verki var hópur hjúkrunarfræðinga fenginn til liðsinnis við smitrannsóknarteymi almannavarna og sóttvarnalæknis.
Sóttvarnalæknir hefur, í samráð við almannavarnir og borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins, skilgreint gjörvallt Ítalíu sem hættusvæði. Þýskaland er hins vegar ekki skilgreint hættusvæði. Því er ekki talin þörf á sóttkví fyrir þá farþega sem komu frá Munchen með Icelandair í gær nema þá sem komu frá Ítalíu. Hins vegar mun smitrannsóknateymi almannavarna og sóttvarnalæknis hafa samband við þá farþega sem útsettir voru fyrir smiti í flugvélinni og upplýsa þá um helstu staðreyndir í tengslum við COVID-19, persónulegt hreinlæti og síma 1700, samkvæmt Samhæfingarstöðinni.
Þá kemur fram í tilkynningunni að stjórnendur Icelandair hafi fundað með sóttvarnalækni og fulltrúum almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra í kvöld vegna málsins. „Á meðal þess sem var ákveðið á þeim fundi var að áhafnir Icelandair munu dreifa upplýsingamiðum til allra þeirra sem ferðast munu með flugfélaginu til Íslands.“
Sóttvarnalæknir minnir á að einstaklingar, með búsetu á Íslandi, sem hafa verið á skilgreindum áhættusvæðum, það er Ítalíu, Kína, Suður Kóreu og Íran og snúa heim eru hvattir til að halda sig heima í 14 daga eftir að þeir hafa yfirgefið skilgreind áhættusvæði, sjá leiðbeiningar til einstaklinga í sóttkví. Ef þeir fá einkenni frá öndunarfærum innan 14 daga, sérstaklega með hita, skulu þeir hafa samband við Læknavaktina í síma 1700 eða sína heilsugæslu símleiðis en ekki mæta óboðaðir á sjúklingamóttökur.