Verði frumvarp Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra að lögum mun verða sett þak á fjölda sendiherra á hverjum tíma þannig að þeir verði aldrei fleiri en fjöldi sendiskrifstofa að fimmtungi viðbættum. Í dag eru sendiskriftstofurnar 25 talsins og hámarksfjöldi sendiherra væri því 30 ef frumvarpið væri orðið að lögum, en þeir eru 36 í dag. Enginn sendiherra verður rekinn heldur verður ekki skipaður nýr fyrr en að þeim hefur verið fækkað niður fyrir 30.
Frá þessu greinir Guðlaugur Þór í aðsendri grein sem birt er í Morgunblaðinu í dag.
Í frumvarpinu felst einnig að laus embætti sendiherra verða að vera auglýst laus til umsóknar og umsækjendum gert að uppfylla lögákveðin hæfisskilyrði. Gert verður ráð fyrir að umsækjendur verði að hafa háskólapróf og reynslu af alþjóða- og utanríkismálum. Samkvæmt frumvarpinu verður þó utanríkisráðherra áfram heimilt að skipa „einstakling tímabundið til allt að fimm ára í embætti sendiherra til að veita sendiskrifstofu forstöðu eða að gegna hlutverki sérstaks erindreka án þess að starfið yrði auglýst. Skipun þeirra sem koma að starfi sínu með þessum hætti verður þó hvorki heimilt að framlengja eða senda annað og fjöldi þeirra má ekki nema meira en fimmtungi af heildarfjölda skipaðra sendiherra. Að þessu marki yrði ráðherra áfram heimilt að leita út fyrir raðir fastra starfsmanna utanríkisþjónustunnar eftir sendiherrum sem hafa aflað sér sérþekkingar, reynslu og tengsla á öðrum vettvangi, svo sem í stjórnmálum eða í atvinnulífinu, til að annast afmörkuð verkefni í þágu hagsmuna Íslands á alþjóðavettvangi. Með þessu móti verður þeirri heimild, sem nú er ótakmörkuð, settar málefnalegar skorður.“
Þar segir enn fremur að frumvarpið geri ráð fyrir þeirri breytingu að ráðherra geti tímabundið sett lægra setta starfsmenn, sendifulltrúa, í embætti sendiherra.
Hefur ekki skipað einn sendiherra
Í greininni segir Guðlaugur Þór að samkvæmt núgildandi lögum hafi ráðherra að mestu leyti frjálsar hendur við skipan sendiherra. Engar sérstakar hæfniskröfur séu gerðar til sendiherra umfram það sem almennt tíðkast og embætti þeirra séu undanþegin auglýsingaskyldu áður en í þau er skipað. „Þessi skipan mála hefur sætt gagnrýni. Auk þess hefur sendiherrum fjölgað jafnt og þétt hin síðustu ár og er nú svo komið að fjöldi þeirra samræmist illa umfangi og verkefnum utanríkisþjónustunnar. Þetta hefur einnig leitt til þess að framgangur yngri starfsmanna hefur reynst hægari en ella enda er þröngt á fleti fyrir þegar fjórðungur starfsmanna utanríkisþjónustunnar gegnir stjórnendastöðu.“
Guðlaugur Þór bendir á að frá því að hann tók við sem utanríkisráðherra 11. janúar 2017 hafi hann ekki skipað neinn nýjan sendiherra eftir að ég tók við embætti. Þeim hafi á sama tíma fækkað um fjóra, úr 40 í 36. „Það er einsdæmi í síðari tíma sögu utanríkisþjónustunnar að meira en þrjú ár líði án þess að nýr sendiherra sé skipaður.“
Utanríkisráðherra segist vera þeirrar skoðunar að óbreytt fyrirkomulag standist ekki lengur og því ætlar hann að leggja fram áður tilgreindar breytingar í frumvarpinu.