Í ljósi þeirrar óvissu sem skapast hefur eftir að smit vegna COVID-19 greindust hér á landi, hefur stjórn Viðreisnar ákveðið að fresta landsþingi flokksins sem átti að fara fram dagana 14. og 15. mars næstkomandi. Stefnt er að því að landsþing fari þess í stað fram í haust og verður ný tímasetning auglýst síðar. Frá þessu er greint í fréttatilkynningu sem flokkurinn sendi frá sér í dag.
Fram kom í fréttum í dag að þrjú tilfelli veirunnar sem veldur COVID-19 sjúkdómi hefðu verið greind á sýkla- og veirufræðideild Landspítala í dag. Heildarfjöldi staðfestra tilfella er núna sex.
Þá segir í tilkynningu flokksins að undanfarna mánuði hafi farið fram mikil vinna í málefnanefndum Viðreisnar til undirbúnings Landsþings. „Við viljum halda áfram með þá vinnu og draga hana fram til almennrar umræðu á vefþingi sem Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar og Þorsteinn Víglundsson, varaformaður Viðreisnar munu leiða. Dagsetning vefþingsins verður kynnt í vikunni.“
Enn fremur segir í tilkynningunni að Viðreisn hafi reynslu af reglubundnum og opnum málefnafundum á netinu. „Við viljum nýta þá reynslu til að ræða vinnu málefnanefndanna á vefþingi sem verður opið öllum. Hægt verður að taka þátt í umræðunni á öllum samfélagsmiðlum Viðreisnar.“