Pósturinn hefur gengið frá sölu á dótturfélagi sínu prenstmiðjunni Samskiptum. Kaupendur eru hópur lykilstarfsmanna undir forystu Þórðar Mar Sigurðssonar framkvæmdastjóra Samskipta. Kaupverðið er trúnaðarmál að beiðni kaupenda.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Póstinum í dag.
Þá segir að ráðgjafafyrirtækið Deloitte hafi annast söluferlið sem hófst þann 12. september 2019, alls hafi 33 aðilar sótt sölugögn og 21 fengið formlega kynningu á fyrirtækinu. Í kjölfarið hafi sjö óskuldbindandi tilboð borist og þrír haldið áfram í lokaáfanga söluferlisins.
„Með sölunni hefur Pósturinn nú gengið frá sölu á öllum þeim þremur dótturfélögum sem fyrirtækið átti og voru á samkeppnismarkaði, Frakt flutningsmiðlun var seld í september 2019, Gagnageymslan í nóvember síðastliðnum og nú Samskipti,“ segir í tilkynningunni.
Birgir Jónsson, forstjóri Póstsins, segir við tilefnið að þau hjá Póstinum hafi verið mjög trú þeirri sýn að selja dótturfélög sem tengjast ekki kjarnastarfsemi Póstsins. „Það eru því virkilega góðar fréttir að við höfum lokið sölu á Samskiptum sem er flott fyrirtæki á sínum markaði en hefur í raun enga samlegð með Póstinum. Ég er mjög ánægður með hvað hefur verið vandað vel til verka í söluferlinu en Deloitte hefur haldið mjög faglega utan um söluferlið. Það er svo gaman að segja frá því að það eru stjórnendur og hluti starfsmanna Samskipta sem eru kaupendur þannig að við vitum að við skiljum við fyrirtækið í traustum og reynslumiklum höndum. Við óskum nýjum eigendum og öðrum starfsmönnum Samskipta velfarnaðar í framtíðinni og þökkum þeim fyrir vel unnin störf.“
Þórður Mar Sigurðsson, framkvæmdastjóri Samskipta, segir að þau séu gríðarlega ánægð með að söluferlið sé að baki. „Það er mjög öflugur hópur starfsmanna stendur á bakvið kaupin og erum við spennt að takast á við þetta verkefni. Samstarfið við Íslandspóst hefur verið mjög gott frá upphafi og ég vil nýta tækifærið og þakka öllu því góða fólki sem þar starfar fyrir góð ár undir þeirra stjórn. Nú er hins vegar kominn tími til að leiðir skilji, ég hlakka tilað leiða Samskipti í nýja tíma með öflugu starfsfólki fyrirtækisins, það má með sanni segja að framtíð Samskipta sé björt.“