Útgerðarfélag Reykjavíkur var í gær dæmt í héraðsdómi Reykjavíkur til að greiða Glitni HoldCo, eignarhaldsfélagi utan um eftirstandandi eignir hins fallna banka Glitnis, tvo milljarða króna ásamt dráttarvöxtum frá 6. maí 2016.
Þrír dómarar dæmdu málið, þeir Arnar Þór Jónsson, dómsformaður, Þórður Clausen Þórðarson, héraðsdómari og Eymundur Sveinn Einarsson, löggiltur endurskoðandi.
Útgerðarfélag Reykjavíkur, er stærsti eigandi sjávarútvegsrisans Brim og í meirihlutaeigu Guðmundar Kristjánssonar forstjóra þess. Alls á Útgerðarfélagið og dótturfélag þess um 46 prósent eignarhlut í Brimi.
Útgerðarfélag Reykjavíkur hefur verið í deilum við Glitnir HoldCo árum saman vegna 31 afleiðusamninga sem gerðir voru haustið 2008, rétt áður en að íslenska bankakerfið hrundi. Samningarnir voru upp á alls um tvo milljarða króna. Útgerðarfélagið hefur ávallt neitað kröfunni og hún ekki verið færð í rekstur eða efnahag fyrirtækisins.
Málið hefur tekið á sig margskonar myndir. Meðal annars kærði Útgerðarfélagið framferði Ólafs Eiríkssonar, lögmanns Glitnis HoldCo, í dómsmálinu til Úrskurðarnefndar lögmanna sem úrskurðaði í málinu þann í lok janúar í fyrra. Þar var háttsemi hans, sem í fólst að veita lykilvitni rangar upplýsingar um staðreyndir og láta hjá líða að tilkynna Útgerðarfélaginu að til stæði að hafa samband við vitnið, sögð vera aðfinnsluverð.
Þá kærði Útgerðarfélag Reykjavíkur til lögreglu, þann 17. apríl 2018, það sem í ársreikningi fyrirtækisins var kallað þá „háttsemi að rangfæra sönnunargögn“ í dómsmálinu. Sú háttsemi á að hafa falið í sér „að „klippa“ eða fjarlægja með öðrum hætti, 7 cm neðan af öllum samningum svo að þeir myndu líta út á annan veg en þeir gerðu.
Töldu Glitni hafa hag af því að fella krónuna
Í dómnum kemur fram að Útgerðarfélag Reykjavíkur hafi meðal annars byggt varnir sínar á því að samningarnir fælu í sér ólögmæta og saknæma háttsemi af hálfu starfsmanna Glitnis. „Eigi stefndi af þessum sökum skaðabótakröfu gegn stefnanda sem nemi a.m.k. stefnufjárhæð. Þessu til stuðnings hefur stefndi einkum vísað til þess að hagsmunir stefnanda af þróun gengis gjaldmiðla hafi verið andstæðir hagsmunum stefnanda. Nánar tiltekið telur stefndi að matsgerð dómkvaddra matsmanna sanni að stefnandi hafi haft beina og verulega hagsmuni af því að gengi íslensku krónunnar lækkaði með því að slík þróun hækkaði efnahagsreikning hans og styrkti gengi hlutabréfa. Við aðalmeðferð málsins var lögð á það áhersla af hálfu stefnda að stefndi hefði aldrei gert umrædda samninga ef hann hefði vitað af því að bankinn ætti í lausafjárvanda og yrði tekinn yfir af skilanefnd í október 2008 og síðar slitastjórn.“
í dómnum kemur fram að forstjóri Útgerðarfélags Reykjavíkur hafi undirritað almenna skilmála Glitnis þar sem hann lýsti því yfir að honum væri ljóst að þau viðskipti sem hann kynni að eiga við stefnanda gætu verið sérlega áhættusöm. Útgerðarfélagið hafi átt í verulegum viðskiptum með erlenda gjaldmiðla árum saman, þ. á m. með framvirkum skiptasamningum. „Er það álit dómsins að starfsmönnum stefnda hafi verið vel ljóst eðli þessara viðskipta og sú áhætta sem óhjákvæmilega leiddi af mögulegum breytingum á gengi gjaldmiðla. Í ljósi reynslu og þekkingar hjá stefnda á gjaldeyrisviðskiptum var það því fyrst og fremst á forræði hans að taka afstöðu til þess hvort hann tæki þá áhættu sem fólst í gerð einstakra gjaldmiðlaskiptasamninga, svo og hvernig hann leitaðist við að dreifa eða takmarka áhættu sína vegna þessara samninga. Alkunna er að bankar sem bjóða viðskiptamönnum sínum á að gera afleiðusamninga, leitast við að minnka eða eyða áhættu sinni með margvíslegum hætti, þ. á m. með áætlunum um að gerðir samningar við mismunandi viðskiptamenn vegi hver annan upp með þeim afleiðingum að heildaráhætta bankans minnki. Hins vegar kann banki einnig að hafa sjálfstæða hagsmuni af þróun þeirra atriða sem afleiðusamningur lýtur að, t.d. gengi tiltekins gjaldeyris, og geta mismunandi ástæður legið þeim hagsmunum til grundvallar.“