Aflaverðmæti fyrstu sölu á afla sem íslensk fiskveiðiskip veiddu í fyrra var 17 milljörðum krónum meira en á árinu 2018. Aflaverðmætið fyrir allt árið 2019 var 145 milljarðar króna sem er það mesta sem verðmætið hefur verið innan árs síðar árið 2015.
Stærstur hluti fiskaflans er seldur í beinni sölu útgerða til vinnslu. Árið 2019 var 75 prósent af heildarafla seldur í beinum viðskiptum og nam verðmæti þess afla 77,5 milljörðum sem er um 53 prósent af heildarverðmæti aflans. Verðmæti sjófrysts afla nam 37,8 milljörðum og verðmæti afla sem fór á fiskmarkaði nam 22,2 milljörðum.
Þetta kemur fram í nýjum bráðabirgðatölum frá Hagstofu Íslands.
Þessi verðmætaaukning átti sér stað þrátt fyrir að afli botnfisktegunda hafi verið álíka mikil og á árinu 2018, eða tæplega 481 þúsund tonn. Aflaverðmæti hans jókst hins vegar um 23,7 prósent á síðasta ári og var í heild 112,3 milljarðar króna. Mest veiddist að venju af þorski, eða 273 þúsund tonn, sem var svo seldur fyrir um 70 milljarða króna, sem er 12,6 milljörðum krónum meira en þorsksala skilaði útgerðum árið 2018.
Áframhald á góðum gangi í sjávarútvegi
Frá hruni og til loka árs 2018 batnaði eiginfjárstaða 92 prósent sjávarútvegsfyrirtækja um 355 milljarða króna samkvæmt Sjávarútvegsgagnagrunni Deloitte fyrir árið 2018.
Alls greiddu þau fyrirtæki sem grunnurinn nær yfir sér arð upp á 12,3 milljarða króna árinu 2018. Frá árinu 2010 og til loka árs 2018 greiddu þau því 92,5 milljarða króna til eigenda sinna í arðgreiðslur.
Samanlagt hefur hagur sjávarútvegarins, því vænkast um 447,5 milljarða króna frá árinu 2008 og út árið 2018, eða á einum áratug.
Miðað við aukið aflaverðmæti er ljóst að sá góði gangur hefur haldið áfram í fyrra og að eigið fé útgerðarfyrirtækja hafi haldið áfram að aukast.
Veiðigjöldin lækkuðu umtalsvert í fyrra, og áætlað var að þau myndu skila um sjö milljörðum króna í ríkiskassann samkvæmt fjárlagafrumvarpi stjórnvalda. Veiðigjöldin áttu síðan að skila inn enn minna í ríkiskassann á í ár vegna fjárfestinga í greininni eða alls um fimm milljörðum króna.
Ný lög um veiðigjald tóku gildi í byrjun árs í fyrra þar sem meðal annars var settur nýr reiknistofn sem byggist á afkomu við veiðar hvers nytjastofns. Í fjárlagafrumvarpinu sagði að með breytingunum sé dregið úr töf við meðferð upplýsinga um átta mánuði. „Þá er veiðigjaldið nú ákveðið fyrir almanaksár í stað fiskveiðiárs.“
Nokkrar blokkir með stærstan hluta kvótans
Í september 2019 var Samherji með 7,1 prósent kvótans. Útgerðarfélag Akureyrar, sem er í 100 prósent eigu Samherja, heldur svo á 1,3 prósent kvótans og Sæból fjárfestingafélag heldur á 0,64 prósent hans. Síldarvinnslan heldur á 5,3 prósent allra aflaheimilda og sjávarútvegsfyrirtækið Bergur-Huginn er síðan með 2,3 prósent kvótans en það er að öllu leyti í eigu Síldarvinnslunnar. Samherji á beint og óbeint 49,9 prósent í Síldarvinnslunni og í Samherjaskjölunum kom fram að fyrirtækið hefði verið kynnt sem uppsjávarhluti Samherjasamstæðunnar erlendis, þrátt fyrir að forsvarsmenn fyrirtækjanna tveggja hafi ávallt neitað því hérlendis að þau væru tengdir aðilar.
Samanlagt er aflahlutdeild þessara aðila er því rúmlega 16,6 prósent, eða langt yfir tólf prósent lögbundnu hámarki, sem var sett til að koma í veg fyrir að of mikið af aflaheimildum myndi safnast á fárra hendur.
Samherjasamstæðan er ekki sú eina sem liggur undir grun um að vera komin vel yfir tólf prósent aflahlutdeildarmarkið.
Stærsti eigandi Brim er Útgerðarfélag Reykjavíkur, sem á um 46 prósent hlut í því félagi. Það félag var 1. september síðastliðinn með 3,9 prósent af öllum úthlutuðum kvóta. Auk þess var félagið Ögurvík með 1,3 prósent aflahlutdeild. Samanlagður kvóti þessara þriggja félaga, sem eru ekki skilgreind sem tengd, var því 15,6 prósent í byrjun september síðastliðins.
Aðrir hópar eru líka stórir. Kaupfélag Skagfirðinga á til dæmis FISK Seafood, sem heldur á 5,3 prósent heildarkvótans. FISK á 32,9 prósent í Vinnslustöðinni í Vestmannaeyjum sem er með fimm prósent heildaraflahlutdeild. Þá eignaðist FISK allt hlutafé í Soffanías Cecilsson hf. síðla árs 2017, en það fyrirtæki heldur á um 0,3 prósent kvótans. Samtals nam heildarkvóti þessara þriggja aðila 10,6 prósent í september.
Vísi og Þorbirni í Grindavík halda síðan samanlagt á 8,4 prósent af heildarkvótanum, Skinney-Þinganes á 4,2 prósentum og Ísfélag Vestmannaeyja á 3,8 prósentum.
Samanlagt eru ofangreind fyrirtæki því með 60 prósent alls úthlutaðs kvóta.