Líf Magneudóttir, borgarfulltrúi VG í borgarstjórn, hefur tjáð sig um kjaradeilur borgarinnar og félagsmanna Eflingar á samfélagsmiðlum en hún segir að samningar náist við samningaborðið en ekki með stöðuuppfærslum á Facebook.
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, sagðist á Facebook í morgun vera tilbúin að hitta Dag B. Eggertsson, borgarstjóra í Reykjavík, á fundi en þó með tveimur skilyrðum.
Í fyrsta lagi að hann birti opinberlega það tilboð sem samninganefnd Eflingar var kynnt á samningafundi þann 19. febrúar síðastliðinn, daginn sem hann mætti í Kastljóssviðtalið, þannig að allir geti borið tilboðið saman við ummæli hans í Kastljósinu. Í öðru lagi að hann fallist á að mæta sér eða öðrum fulltrúa Eflingar í setti í útvarps- eða sjónvarpsviðtali áður en vikan er úti.
Líf segir í stöðuuppfærslu sinni að fyrir borgarstjórnarkosningarnar hafi þau í Vinstri grænum haft kjaramálin að kosningamáli. „Við sögðum að það væri löngu orðið tímabært að hækka laun láglaunafólks í borginni og sér í lagi stórra kvennastétta í umönnunarstörfum og á leikskólum. Það þyrfti verulegar krónutöluhækkanir til þessara hópa og einnig bæta starfsumhverfi þeirra m.a. með styttingu vinnuvikunnar sem við Vinstri græn stóðum fyrir að innleiða á sínum tíma og er til úrlausnar nú við samningsborðið. Við hefðum aldrei myndað meirihluta með þremur öðrum flokkum nema að fá þetta inn í meirihlutasáttmálann. Eitt af okkar brýnustu forgangsmálum. Sama áhersla endurspeglaðist í lífskjarasamningunum þar sem mest var lagt á að hækka laun tekjulægri hópa og jafna kjörin almennt,“ skrifar hún.
Samningar nást með samtali
Hún bendir enn fremur á að nú hafi verkfall staðið yfir í rúmar tvær vikur. „Við finnum öll fyrir því. Ef fólk hefur ekki leitt hugann að mikilvægi þessara starfa þá gerir það það eflaust núna.“
Borgarfulltrúinn telur að samningar náist hins vegar ekki með facebookstatusum og fyrir milligöngu fjölmiðlamanna. Samningar náist við samningaborðið. Þeir náist með samtalinu. „Við sem komum að málum eigum öll að sýna íbúum Reykjavíkur og félagsmönnum Eflingar þá virðingu að gera okkar ítrasta og besta til að funda og ljúka samningum. Verkfallsvopninu er aldrei beitt af léttúð og þetta er mikið réttlætismál sem við vonandi leysum farsællega sem fyrst,“ skrifar hún að lokum.
Fyrir borgarstjórnarkosningarnar gerðum við Vinstri græn kjaramálin að kosningamáli. Við sögðum að það væri löngu orðið...
Posted by Líf Magneudóttir on Wednesday, March 4, 2020