Brottvísun systkinanna Ali, Kayan, Saja og Jadin og foreldra þeirra hefur verið frestað fram í næstu viku. Sema Erla Serdar, stofnandi Solaris – hjálparsamtaka fyrir hælisleitendur og flóttafólk á Íslandi, greinir frá þessu á Facebook-síðu sinni og staðfestir þetta í samtali við Kjarnann og segir að ekki sé komin nákvæm dagsetning brottvísunar. Til stóð að vísa þeim úr landi í dag.
Rauði krossinn á Íslandi mótmælti í gær fyrirhuguðum brottvísunum barnafjölskyldna til Grikklands þar sem þær hafa alþjóðlega vernd. Í tilkynningu frá Rauða krossinum kemur fram að íslensk stjórnvöld hafi hingað til ekki sent börn frá Íslandi til Grikklands en nú hafi að minnsta kosti fimm fjölskyldur fengið tilkynningu um að íslensk stjórnvöld muni flytja þau til Grikklands á næstu dögum og vikum.
„Á sama tíma berast fregnir af hræðilegu ástandi við Miðjarðarhaf, t.a.m. drukknun ungs drengs þegar hann og fjölskylda hans fóru yfir hafið frá Tyrklandi á ótryggum bát. Þá er afar viðkvæmt ástand við landamæri Tyrklands og Grikklands þar sem fréttir herma að um 13.000 flóttamenn bíði inngöngu. Þá berast einnig fregnir af harðræði grísku lögreglunnar og öðrum yfirvöldum og að fólki sé meinað inngöngu. Mikil ólga og andúð fólks í Grikklandi á flóttafólki er einnig áberandi í fjölmiðlum sem ætla má að fari aðeins vaxandi,“ segir í tilkynningu Rauða krossins.
Flugvél fyllt af barnafjölskyldum?
Sema Erla segir í stöðuuppfærslu sinni á Facebook að systkinin Ali, Kayan, Saja og Jadin og foreldrar þeirra verði flutt í beinu einkaflugi til Grikklands í boði íslenskra yfirvalda. „Þar til annað kemur í ljós geri ég ráð fyrir því að sú flugvél hafi ekki verið tekin á leigu fyrir sex einstaklinga og verði því fyllt af barnafjölskyldum og öðrum einstaklingum sem sótt hafa um vernd á Íslandi en íslensk yfirvöld hafa hafnað og ætla að endursenda á einu bretti til Grikklands – sem vekur upp ansi óþægilegar tilfinningar,“ skrifar hún.
Þá segir hún að Íslendingar standi á tímamótum.
„Íslensk stjórnvöld hafa nú nokkra daga til þess að ákveða hvort framlag okkar til stærstu mannúðarkrísu sögunnar verði að veita flóttabörnum í viðkvæmri stöðu það skjól og öryggi sem þau þurfa nauðsynlega á að halda eða hvort framlag okkar verði að senda börn á flótta beinustu leið til helvítis, eins og stöðunni á Grikklandi er lýst í dag. Hvort framlag okkar muni einkennast af mannúð og samkennd eða óskiljanlegri grimmd og forkastanlegum aðgerðum sem felast í að senda börn á flótta í aðstæður sem einkennast af neyðarástandi, öfgakenndu ofbeldi, óreiðu, óöryggi, ótta og eymd.
Boltinn er í ykkar höndum kæru stjórnvöld. Það er undir ykkur komið að ákveða nú hvernig sagan muni dæma okkur fyrir meðferð okkar á fólki á flótta og börnum í neyð!“
Brottvísun systkinanna Ali, Kayan, Saja og Jadin og foreldra þeirra hefur verið frestað fram í næstu viku (já, þetta er...
Posted by Sema Erla Serdar on Wednesday, March 4, 2020