Alls var 330 milljörðum króna veitt í sex málaflokka sem teljast saman mynda almannatryggingakerfið á árinu 2018. Það þýðir að kostnaður við rekstur þess nam um einni milljón króna á hvert mannsbarn í landinu á því ári, en þegar allt er talið borgaði hver landsmaður nálægt þremur milljónum króna það ár til að reka ríkið. Því er rekstur almannatryggingakerfisins um þriðjungur af öllum þeim kostnaði sem ríkið stendur undir.
Þetta er meðal þess sem fram kemur í grein í nýjasta tölublaði Tíundar, fréttablaði ríkisskattstjóra, sem skrifuð er af rekstrarhagfræðingnum Páli Kolbeins.
Í grein Páls segir að kostnaður ríkisins vegna heilbrigðisþjónustu sem einstaka landsmanni sé veitt á einu ári geti hlaupið á milljónum og milljónatugum á hverju ári. „Þeir sem njóta opinberrar þjónustu færa hana sér hins vegar ekki til tekna á skattframtali, en um veruleg verðmæti getur verið að ræða. Sem dæmi má nefna að árið 2018 varði ríkið tæpum 82,6 milljörðum til sjúkrahúsþjónustu og öðrum 46 milljörðum til heilbrigðisþjónustu utan sjúkrahúsa, 42,3 milljörðum í hjúkrunar- og endurhæfingarþjónustu og 22,6 milljörðum í lyf og lækningavörur. Þá var um 61,5 milljörðum varið í málefni öryrkja og fatlaðra og tæpum 74,2 milljörðum í málefni aldraðra. Samtals var því um 330 milljörðum varið í þessa sex málaflokk.[...]Lífeyrir sem Tryggingastofnun greiðir út er hins vegar að mestu skattskyldur á sama hátt og greiðslur úr lífeyrissjóðum.“
Tæplega 61 þúsund fengu bætur
Í greininni segir að á árinu 2018 hafi Tryggingastofnun ríkisins samanlagt 124,2 milljarða í ellilífeyri, dánarbætur, endurhæfingarlífeyri, foreldragreiðslur, heimilisuppbót, maka- og umönnunarbætur, mæðra- og feðralaun, orlofs- og desemberuppbætur, ráðstöfunarfé, sérstaka uppbót á lífeyri vegna framfærslu, tekjutryggingu, uppbót vegna rekstrar bifreiðar, uppbætur á lífeyri vegna kostnaðar, örorkulífeyri og örorkustyrk og örorkulífeyri vegna slysa. Þessar tryggingabætur voru 6,6 milljörðum eða 5,6 prósent, hærri að raungildi en greitt var ári fyrr.
Páll tiltekur í greininni að nokkrar tegundir greiðslna frá Tryggingastofnun ríkisins og Sjúkratryggingum Íslands teljist ekki til skattskyldra tekna, til dæmis greiðslur vegna andláts maka eða framfæranda. Þá teljist barnalífeyrir, barnsmeðlög, bifreiðakaupastyrkur, dánarbætur vegna slysa, styrkir til kaupa á sérfæði og tækjakaupa fatlaðra, umönnunargreiðslur og örorkubætur vegna varanlegrar örorku til skattfrjálsra greiðslna, sem námu 12,6 milljörðum króna 2018.
Sú upphæð fór til alls rúmlega 18 þúsund manns, sem var 222 færri en árið áður. „Samtals greiddu þessar stofnanir því 136,8 milljarða í tryggingabætur sem var 6,6 milljörðum meira en árið áður en 69.915 framteljendur fengu tryggingagreiðslur, 1.503 færri en árinu á undan.“
Ríkið greiðir líka út atvinnuleysisbætur. Greiðslur vegna þeirra voru ellefu milljarðar króna á árinu 2018, sem er um tveimur milljörðum krónum meira en árið 2016 og 2,4 milljörðum krónum meira en 2016. Páll segir í grein sinni að það sé ef til vill til marks um að nokkuð hafi dregið úr hinum mikla vexti í íslensku efnahagskerfi síðastliðin ár að greiðslur atvinnuleysisbóta hafi hækkað tvö ár í röð.
Þar kemur hins vegar fram að færri fengu greiddar bætur 2018 en árið á undan.