Boðuðum verkfallsaðgerðum félagsmanna Landsambands slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna (LSS) hefur verið frestað á meðan hættustig almannavarna vegna kórónuveiru (COVID-19) er í gildi.
„LSS treystir á að samningsaðilar nýti sér ekki þessa frestun til að tefja samninga og haldi áfram viðræðum með sama krafti eins og að verkföllum hafi ekki verið frestað,“ segir í tilkynningu.
Frestun verkfalla gildir þar til almannavarnir hafa aflýst hættustigi.
Mikill meirihluti félagsmanna í Landssambandi slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna (LSS) samþykkti boðun verkfallsaðgerða í atkvæðagreiðslu sem fram fór dagana 18. til 21. febrúar.
Til stóð að verkfallsaðgerðir LSS færu fram samhliða aðgerðum annarra aðildarfélaga BSRB sem boðað hafa til verkfallsaðgerða frá 9. mars.