Markús Sigurbjörnsson, fyrrverandi forseti Hæstaréttar og dómari við réttinn í aldarfjórðung, segir að eftir tilkomu Landsréttar, sem hóf störf í byrjun árs 2018, hafi honum fundist botninn detta svolítið úr starfi Hæstaréttar. Við þá breytingu fækkaði málum sem fóru til meðferðar í Hæstarétti til muna. „Mér leið bara eins og ég væri kominn í 25% starf og var þó með þá búbót að vera að fjalla um áfrýjunarleyfisbeiðnir. Ég held ég hafi aldrei aðlagast þessum nýju aðstæðum. Maður var búinn að vera á þessu tempói í 25 ár og erfitt að stíga allt í einu á bremsuna. Það var því ósköp þægilegt að geta bara kvatt og látið þetta duga. En þegar maður horfir til baka þá var nú helvíti gaman að þessu.“
Þetta kemur fram í viðtali við Markús í nýjasta tölublaði Lögmannablaðsins. Þar segir Markús, sem hætti störfum í fyrrahaust, að hann ætli nú að taka til við að skrifa um einkamálaréttarfar og aðfarargerðir ásamt því að passa barnabörnin sín. Hann ætlar líka að reyna að feta sig yfir á annars konar tilverustig.
Segir tal um málamiðlanir vera „út í hött“
Markús ræðir einnig gagnrýni sem Hæstiréttur Íslands hefur orðið fyrir í viðtalinu. Þar vísar hann fullyrðingum um að dómar sem felldir hafi verið þar í fjölskipuðum dómi séu málamiðlanir milli þeirra sem dæmi hverju sinni. „Klassíski hugsunarhátturinn er að þetta sé stofnunin Hæstiréttur sem er að tala en ekki einhver egóisti, þessi eða hinn að láta sitt ljós skína.
Þótt vissulega sé það einn maður sem semur uppistöðuna í textanum þá er þetta sameiginleg hugarsmíð fólks sem er búið að ræða málið í þaula í framhaldi af málflutningi. Þetta eru engar málamiðlanir, slíkt tal er út í hött, og það er ekki verið að sjóða saman ólík viðhorf. Fólk ræðir sig áfram að niðurstöðu og ef einhver dettur útbyrðis þá kemur bara sératkvæði.“
Hann segist einungis einu sinni lent í því að vera hótað með einhverjum hætti á meðan að hann gegndi starfi dómara við Hæstarétt. „„Það hringdi í mig gagnmerkur samtíðarmaður að næturlagi, nokkuð við skál, og kynnti sig eins og mönnum ber að gera. Hann var ekkert feiminn við að bera upp sitt erindi og tjáði mér af mikilli siðfágun að hann gæti alveg hugsað sér að hjálpa mér yfir ætternisstapa. Ég þakkaði manninum bara mjög pent fyrir enda væri gott að vita af þessu ef ég þyrfti einhvern tíma slíka aðstoð. Ég hefði þó ekki hugsað mér að gera þetta alveg í bráð en ég myndi hafa hann í huga.“