Ríkisstjórnin, Samtök atvinnulífsins og Alþýðusamband Íslands hafa komist að samkomulagi um hvernig staðið verði að launagreiðslum til fólks sem þarf að vera í sóttkví vegna COVID-19.
Í sameiginlegri tilkynningu frá aðilunum þremur kemur fram að í samkomulaginu felist að Samtök atvinnulífsins muni beina þeim tilmælum til atvinnurekenda að laun verði greidd til einstaklinga sem sæta sóttkví að fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda og að Alþýðusamband Íslands muni beina þeim tilmælum til aðildarsamtaka sinna að sjóðfélagar í sjúkrasjóðum þeirra sem sýkjast njóti óskertra greiðslna úr sjóðunum að tæmdum veikindarétti.
Útfærsla á aðkomu stjórnvalda á að liggja fyrir í síðasta lagi 13. mars næstkomandi.
Í tilkynningunni segir allir aðilar samkomulagsins séu sammála um nauðsyn þess að hægja á útbreiðslu COVID-19 veirunnar. „Vitað er að veiran er meira smitandi en hefðbundin inflúensa og bóluefni er ekki fyrir hendi. Veiran og aðgerðir gegn henni eru nú þegar byrjuð að hafa áhrif á vinnumarkaðinn og samfélagið allt og má búast við að þau áhrif muni aukast á næstu dögum. Markmið sóttvarna er að hægja á útbreiðslu veirunnar, vernda viðkvæma hópa fyrir smiti og draga úr álagi á heilbrigðiskerfið og innviði samfélagsins á meðan veiran gengur yfir. Sóttkví er mikilvægt úrræði í þessu skyni og er því beint til fólks sem af ýmsum ástæðum má ætla að sé í verulegri hættu að smitast eða smita aðra virði fyrirmæli heilbrigðisyfirvalda um að dvelja í sóttkví. Ákvörðun um sóttkví er tekin með hagsmuni heildarinnar í huga og því mikilvægt að einstaklingar geti fylgt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda um að fara í sóttkví án þess að hafa áhyggjur af afkomu sinni.“