Einn þingmaður Framsóknarflokks og tveir þingmenn Pírata hafa lagt fram þingsályktunartillögu um að fela Ásmundi Einari Daðasyni, félags- og barnamálaráðherra, að beita sér fyrir því að einstaklingar sem setið hafa í gæsluvarðhaldi eða afplánað refsivist og stundað vinnu, nám eða starfsþjálfun til samræmis við lög um fullnustu refsinga ávinni sér rétt til atvinnuleysisbóta meðan á varðhaldi eða vist stendur.
Samkvæmt tillögunni, sem Silja Dögg Gunnarsdóttir er fyrsti flutningsmaður að og Helgi Hrafn Gunnarsson og Björn Leví Gunnarsson er einnig skrifaðir fyrir, á ráðherrann að leggja fyrir Alþingi frumvarp sem miðar að þeim markmiðum sem sett eru fram í tillögunni á haustþingi 2020.
Í greinargerð sem fylgir þingsályktunartillögunni segir að flutningsmennirnir þrír telji að núverandi kerfi auki líkur á því að einstaklingar sem lokið hafa afplánun brjóti af sér á ný og vinni þannig gegn markmiðum refsivörslukerfisins um betrun.
Finnland er sem stendur eina ríkið á Norðurlöndunum sem veitir einstaklingum sem nýlega hafa lokið afplánun afkomubætur úr atvinnuleysistryggingasjóðum fagfélaga ef umsækjandi er atvinnulaus og getur sýnt fram á að vera í virkri atvinnuleit.