Vegna áhrifa Covid-19 á minnkandi eftirspurn hefur Icelandair tekið ákvörðun um að aflýsa um 80 flugum í mars og apríl. Það er um 2 prósent af flugáætlun félagsins þessa tvo mánuði. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu.
„Áætlaðar flugferðir félagsins í mars og apríl eru rúmlega 3.500 samtals. Félagið er nú að greina hugsanlegar sviðsmyndir og móta aðgerðir til að draga úr þeim áhrifum sem þessi þróun kann að hafa á starfsemi félagsins,“ segir í tilkynningunni.
Standa frammi fyrir óvissu
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group, segir að sá möguleiki að geta brugðist hratt við breyttum aðstæðum og viðhaldið sveigjanleika í leiðakerfinu sé einn helsti styrkleiki Icelandair.
„Þannig höfum við með góðum árangri lagt áherslu á ferðamannamarkaðinn til Íslands og aukið fjölda ferðamanna til Íslands umtalsvert undanfarið ár. Nú stöndum við frammi fyrir óvissu vegna útbreiðslu COVID-19 veirunnar og þeim áhrifum sem hún kann að hafa á starfsemi okkar. Heilsa og öryggi starfsmanna og viðskiptavina okkar er ávallt forgangsmál. Við vinnum nú að því að greina stöðuna, meta hugsanleg áhrif og mögulegar aðgerðir. Áhersla okkar er á að lágmarka áhrif á viðskiptavini, starfsfólk og hluthafa félagsins,“ segir hann í tilkynningunni.
Farþegum fjölgar milli ára
Þá kemur fram að Icelandair hafi flutt um 131 þúsund farþega til Íslands í febrúar, sem sé um 27 prósent aukning á milli ára á meðan farþegum frá Íslandi hafi fjölgað um 4 prósent.
Farþegum Icelandair til Íslands hafi enn fremur fjölgað um 23 prósent á milli ára fyrstu tvo mánuði ársins. Tengifarþegum hafi fækkað um 17 prósent á milli ára í febrúar. Sætanýting félagsins sé um 75 prósent fyrstu tvo mánuði ársins og hafi aukist um eitt prósentustig á milli ára.