Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, hefur haft samband við heilbrigðisyfirvöld og boðist til að skima í samfélaginu fyrir nýju kórónuveirunni. „Einstakt á heimsvísu,“ sagði Alma Möller landlæknir um málið á sameiginlegum blaðamannafundi almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra, Landlæknisembættisins og Landhelgisgæslunnar í dag.
Nýja kórónaveiran hefur nú greinst hjá 43 einstaklingum hér á landi. Þar af eru tvö svokölluð innanlandssmit.
„Við höfum verið að velta því fyrir okkur hvort að veiran hafi hugsanlega búið um sig í samfélaginu án þess að við höfum orðið hennar vör,“ sagði Alma á fundinum. Kári Stefánsson hefði svo haft samband og boðist til að skima fyrir veirunni hjá fólki sem ekki endilega hefur verið á áhættusvæðum eða í tengslum við fólk frá áhættusvæðum. Með þeim hætti væri hægt að komast að því hvort að um samfélagssmit væri að ræða.
Alma sagði að hjá Íslenskri erfðagreiningu væri góð aðstaða til að framkvæma slíka skimun. Áður en til þessa kæmi á þó eftir að útfæra málið betur.
Viðkvæmt fólk forðist mannamót
Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá ríkislögreglustjóra, sagði að enn væri ekki tímabært að setja á samkomubann hér á landi vegna COVID-19. Hann sagði þó að notkun þeirrar varúðarráðstöfunar verði þó á einhverjum tímapunkti óumflýjanleg. „Við erum ekki þar enn,“ sagði hann en bætti við að viðkvæmir einstaklingar í áhættuhópum væru hvattir til að forðast mannamót.
Á vef landlæknis segir að sóttvarnalæknir geti mælt með því við ráðherra að gripið verði til opinberra sóttvarnaráðstafana með ónæmisaðgerðum, einangrun smitaðra, sótthreinsun, afkvíun byggðarlaga eða landsins alls, lokun skóla eða samkomubann. „Sóttvarnalæknir getur beitt slíkum vörnum til bráðabirgða án þess að leita heimildar fyrir fram ef hann telur að hvers konar töf sé hættuleg, en gera skal hann ráðherra jafnskjótt kunnar ráðstafanir sínar.“
Æfi sig í að fara í og úr hlífðarfatnaði
Alma landlæknir sagði á fundinum í dag að útbreiðslan á Ítalíu, þaðan sem flest smitin sem greinst hafa hér á landi eru upprunnin, endurspegli alvarleika faraldursins. Hún sagði viðbragðsaðila hér á landi viðbúna og brýndi fyrir heilbrigðisstarfsfólki að klæðast viðeigandi hlífðarbúnaði. Hvatti hún það til að æfa sig í að fara í búningana og einnig að fara úr þeim.
Yfir 100 þúsund manns hafa nú greinst með veiruna víða um heim og 3.411 hafa látist. Tæplega 56 þúsund hafa náð sér af veikindunum.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði á fundinum að veiran væri komin til að vera næstu tvo til þrjá mánuði.
Neyðarstig almannavarna vegna COVID-19 Ríkislögreglustjóri hefur lýst yfir neyðarstigi almannavarna í samráði við...
Posted by Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra on Friday, March 6, 2020