Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir að nú þegar búið
er að lýsa yfir neyðarstigi almannavarna vegna kórónuveirunnar, þýði það að
meiri þungi muni færast í aðgerðir stjórnvalda og þeirra stofnana sem hafa
hlutverk í að hemja útbreiðslu veirunnar en þessi breyting mun ekki hafa áhrif
á almenning strax.
„Það er hins vegar þannig að það er óumflýjanlegt að einhverjar takmarkanir verða settar á mannamót og samkomur á næstunni til að hefta útbreiðsluna,“ skrifar Katrín á Facebook-síðu sína eftir að blaðamannafundi almannavarna, landlæknis og Landhelgisgæslunnar lauk nú síðdegis. „Nú sem fyrr skiptir það öllu máli að við leggjum öll okkar af mörkum til að það megi takast að hægja á útbreiðslunni.“
Katrín segir að á sama tíma sé ljóst að þessi faraldur muni hafa áhrif á stöðu efnahagsmála. „Stjórnvöld undirbúa nú aðgerðir í ríkisfjármálum til að vinna gegn slaka í efnahagsmálum og sama á við um Seðlabankann. Við erum vel í stakk búin, með öflugan gjaldeyrisvaraforða, lágt skuldahlutfall og góðan aðgang að erlendu fjármagni.
Stjórnvöld munu gera það sem þarf til að hemja útbreiðslu veirunnar og vinna gegn áhrifum hennar á efnahagslífið.“
Núna áðan var lýst yfir neyðarstigi almannavarna vegna kórónaveirunnar. Það þýðir að meiri þungi mun færast í aðgerðir...
Posted by Katrín Jakobsdóttir on Friday, March 6, 2020