Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins, hefur ákveðið að gefa kost á sér í embætti varaformanns Miðflokksins sem kosinn verður á Landsþingi flokksins sem fer fram 28. og 29. mars næstkomandi.
Varaformaður Miðflokksins stýrir almennu innra starfi og er tengiliður stjórnar við flokksfélög og sveitarstjórnarfulltrúa. Vigdís segir að reynsla sín af þingsetu og af störfum í borgarstjórn muni koma til með að styrkja böndin á milli stjórnar flokksins, sveitastjórnarstigsins og grasrótarinnar nái hún kjöri. „Ég vil þakka alla þá hvatningu og stuðning sem ég hef fengið víðs vegar að af landinu til að stíga þetta skref. Ég hef ígrundað málið vel og met það svo að ég geti ekki skorast undan ábyrgð. Jafnframt heiti ég því að vinna af heilindum og dugnaði til að gera hlut Miðflokksins sem mestan í framtíðinni, landi og þjóð til heilla.“
Formaður Miðflokksins er Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, en flokkurinn var stofnaður í kringum hann í aðdraganda þingkosninga haustið 2017. Þar náði flokkurinn að fá 10,9 prósent atkvæða og fékk sjö þingmenn kjörna.
Tveir til viðbótar bættust svo í þingflokkinn þegar Ólafur Ísleifsson og Karl Gauti Hjaltason gengu til liðs við hann í kjölfar Klausturmálsins svokallaða, en Flokkur fólksins rak þá úr sínum röðum vegna þess.
Í nýjustu könnun Gallup mældist Miðflokkurinn með 14,2 prósent fylgi, sem er það mesta sem hann hefur nokkru sinni mælst með. Framsóknarflokkurinn, sá sem flestir forvígismenn Miðflokksins tilheyrðu áður, mældist í sömu könnun með sjö prósent fylgi.