Ólafur Ísleifsson, þingmaður Miðflokksins, hefur lagt fram skriflega fyrirspurn til Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra þar sem hann fer fram á að vita hverjir séu raunverulegir eigendur Arion banka. Í fyrirspurninni er vísað í lög um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka þegar kemur að skilgreiningu á raunverulegum eiganda.
Ólafur spyr einnig hvers vegna lögaðilar sem skráðir eru á skipulögðum markaði, eins og íslenskum hlutabréfamarkaði, fái undanþágu frá því að upplýsa um hverjir séu raunverulegir eigendur þeirra, á sama tím að og „lögaðilar sem hafa ófjárhagslegan tilgang, svo sem almannaheillasamtök, foreldrafélög, áhugamannafélög og fleiri í úr þeim ranni þurfi að upplýsa um raunverulega eigendur.
Ísland á gráum lista
Ísland var sett á gráan lista alþjóðlegu samtakanna Financial Action Task Force (FATF) í október í fyrra. Ein af ástæðum þess var sú að ekki lágu fyrir upplýsingar um hverjir væru raunverulegir eigendur lögaðila hérlendis með boðlegum hætti, en það er ein meginreglan í vörnum gegn peningaþvætti að slíkar upplýsingar liggi skýrt fyrir.
Samkvæmt upplýsingum Kjarnans er staða mála varðandi skráninguna í dag, þegar tímafresturinn er liðinn, þannig að langur vegur er frá því að hún sé fullnægjandi. Sérstaklega á það við skráningu raunverulegra eigenda ýmissa tegunda félaga sem hafa ekki þann tilgang að hagnast fjárhagslega, heldur eru búin til utan um ýmis konar félagsstarfsemi.
Skortur á skráningu á raunverulegum eigendum var ein ástæða þess að Ísland var áfram á gráa listanum við síðustu endurskoðun FATF á honum, sem fram fór í síðasta mánuði. Næsta endurskoðun er í júní.
Seldu sjálfum sér íslenskan banka
Arion banki var lengi vel að uppistöðu í eigu Kaupþings ehf., félags sem heldur utan um eftirstandandi eignir hins fallna banka eftir að kröfuhafar hans kláruðu gerð nauðasamnings í kjölfar stöðugleikasamkomulags við íslenska ríkið snemma árs 2016.
Á árinu 2017 keyptu fjórir af stærstu eigendum Kaupþings, Taconic Capital, Och-Ziff Capital Management Group, sjóðir í stýringu Attestor Capital og Goldman Sachs, samtals 29,6 prósent hlut í Arion banka.
Tveir þeirra, Attestor og Goldman Sachs, bættu við sig 2,8 prósent hlut 13. febrúar 2018. Sama dag var kaupréttur Kaupþings á 13 prósent hlut ríkisins í Arion banka virkjaður. Sá kaupréttur var formgerður í samningi frá árinu 2009, var fortakslaus og einhliða. Ríkið mátti því ekki hafna tilboðinu án þess að gerast brotlegt við gerða samninga.
Erlendu eigendur Kaupþings, og þar með Arion banka á þessum tíma, voru, og eru, að uppistöðu skammtímasjóðir. Það þýðir að þeir ætla sér ekki að eiga bankann til lengri tíma, heldur að hámarka virði eigna sinna á nokkrum árum. Svo verður sjóðnum slitið og þeir sem eiga hlut í honum fá greitt út ágóðann af fjárfestingunni.
Engar upplýsingar veittar um endanlega eigendur Arion banka
Íslensk stjórnvöld hafa ekki talið ástæðu til þess að upplýsa um það hverjir „raunverulegir eigendur“ (e. beneficial owner) þessarra sjóða eru.
Í dag eiga sjóðir í stýringu Taconic, Och -Ziff og Goldman Sachs samtals tæplega 37 prósent í Arion banka. Auk þess eiga sjóðir í stýringu Eaton Vance og Lansdowne Partners 6,78 prósent í viðbót.
Arion banki hefur skorið sig úr á meðal íslensku bankanna síðustu ár, þar sem stefna hans er mjög skýr: að greiða út eigið fé til hluthafa og minnka umfang bankans til að auka arðsemi þeirrar starfsemi sem mun standa eftir. Kjarninn hefur fjallað ítarlega um þessi áform og hægt er að lesa um þau hér.
Í þeim felast meðal annars áframhaldandi breytt fjármögnun, samdráttur í útlánum, stórtæk uppkaup á eigin bréfum og arðgreiðslur sem eru langt umfram hagnað. Greinendur spá því að arðgreiðslugeta Arion banka geti aukist um allt að 50 milljarða á næstu 12 mánuðum.