Það mun ráðast á næsta sólarhring hvort Efling og Reykjavíkurborg hafi færst nær því að gera nýjan kjarasamning. Sem stendur er það tvísýnt hvort svo sé. Þetta kemur fram í stöðuuppfærslu á Facebook-síðu Eflingar.
Efling og fulltrúar Reykjavíkurborgar hafa fundað nokkuð stíft frá því á fimmtudag en þær viðræður hafa, samkvæmt Eflingu, að mestu „snúist um að greiða úr óvissuatriðum í tilboðum og málflutningi borgarinnar.“
Ekki hefur verið greint frá því hvernig fundarhöldum um helgina verði háttar en gert var fundarhlé um kvöldmatarleytið í gær eftir nokkuð stífa fundarsetu.
Takist ekki að semja fyrir mánudagsmorgun mun ótímabundið verkfall rúmlega 1.800 félagsmanna Eflingar sem starfa fyrir Reykjavíkurborg sem staðið hefur yfir frá 17. febrúar halda áfram. Starfsmennirnir sem um ræðir eru meðal annars ófaglærðir starfsmenn leikskóla, starfsfólk á dvalarheimilum og sorphirðumenn. Áhrif verkfallsins hafa verið víðtæk og birtingarmyndir þess ýmiskonar. Til að mynda hefur leiksskólastarf víða riðlast verulega og mörg börn hafa þurft að sæta skerðingu á dvalartíma eða hafa ekki getað dvalið neitt á leikskólum sínum. Þá hefur sorp safnast upp víða í höfuðborginni, þrátt fyrir að undanþága hafi fengist í síðustu viku til að hirða sorp.
Á mánudag hefst einnig verkfall um 18 þúsund félagsmanna BSRB. Á meðal þeirra sem fara þá í verkfall eru starfsmenn leik- og grunnskóla sem eru í stéttarfélaginu Sameyki. Semjist ekki um helgina mun því skólastarf riðlast verulega í næstu viku.
Undanþágunefndum Sameykis stéttarfélag í almannaþjónustu og Sjúkraliðafélags Íslands barst í gær beiðni frá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og Landspítala vegna fordæmalausra aðstæðna sem nú er uppi vegna COVID-19 veirunnar og aukinni útbreiðslu hennar sem hefur leitt til þess að Almannavarnarnefnd lýsti yfir neyðarstigi.
Þær féllust á beiðni Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og Landspítala um undanþágu allra starfsmanna vegna verkfalls félagsmanna dagana 9. og 10. mars 2020.