Forstjóri Landspítalans greindi frá því í dag að fjörutíu
starfsmenn spítalans vær nú í sóttkví. Einn sjúklingur með COVID-19 liggur á
spítalanum en hann verður útskrifaður fljótlega.
Í dag hafa 69 smit verið staðfest hér á landi. Þar af eru fimmtán smit innanlands. Hátt í 600 manns eru í sóttkví. Eitt svokallað þriðja stigs tilfelli hefur greinst. Þar er um að ræða maka manneskju sem smitaðist af einstaklingi er smitaðist erlendis. Langflest smit hafa greinst á höfuðborgarsvæðinu utan tveggja sem greinst hafa á Suðurlandi.
Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, sagði á upplýsingafundi almannavarnardeildar ríkislögreglustjóra í dag að þótt að gjörgæsla Landspítalans í Fossvogi hefði lent í smiti hefði verið farið algjörlega að öllum reglum og að enginn sjúklingur hefði orðið fyrir skaða. Hann sagði að nú væri að hefjast samstarf forstjóra allra heilbrigðisstofnana á landinu um beitingu fjarheilbrigðisþjónustu. „Spítalinn er viðbúinn og það öfluga fólk sem hjá okkur er,“ sagði Páll.
Nokkrum aðgerðum hefur verið frestað á Landspítalanum vegna faraldursins.
Alma Möller landlæknir sagði að nú væri að fást staðfesting á því hér innanlands að veiran er vissulega mjög smitandi. Hún sagði ekki vitað enn sem komið er hversu veiran lifir lengi á yfirborði hluta. Hvatti hún því áfram til mikillar varúðar og hreinlætis og benti sérstaklega á snertiskjái, greiðsluposa og aðra hluti sem margir snerta á. Huga þurfi að því að nota snertilausar lausnir í viðskiptum og að nú sé unnið að því að hækka úttektarheimild hvað það varðar.
Veiran greinst í 104 löndum
Veiran hefur nú greinst hjá um 116 þúsund manns í 104 löndum. Dauðsföll af hennar völdum eru orðin tæplega 4.100. Langflestir, yfir 3.000, hafa látist í Kína þar sem veiran er upprunnin. Utan Kína er ástandið alvarlegast á Ítalíu. Þar hafa 463 dáið vegna hennar og tæplega 9.200 manns greinst með smit. Stjórnvöld þar í landi hafa gripið til strangra varúðarráðstafana. Fólki er sagt að halda sig heima og öll mannamót eru bönnuð. Þá hafa flugfélög í dag tilkynnt að þau fljúgi ekki til Ítalíu á meðan faraldurinn gangi yfir.
Nýjar tölur frá heilbrigðisyfirvöldum í Íran benda til að veiran sé enn að breiðast þar út. 291 dauðsfall er nú rakið til hennar og rúmlega 8.000 hafa greinst.
Hins vegar eru vísbendingar um að útbreiðslan hafi náð hámarki í Kína og Suður-Kóreu. Í dag hafa engin ný dauðsföll verið tilkynnt og síðustu daga hefur verulega dregið úr fjölda nýrra tilfella.