Efling - stéttarfélag og Reykjavíkurborg undirrituðu í nótt kjarasamning sem gildir til 31. mars 2023. Verkfallsaðgerðir Eflingar höfðu staðið yfir í meira en mánuð og þar af hafði staðið yfir allsherjarverkfall frá miðjum febrúar sem hafði meðal annars mikil áhrif á starf leikskóla, dvalarheimila og á sorphirðu. Þeim aðgerðum er nú lokið.
Í tilkynningu frá Eflingu segir að með samningnum sé stigið mikilvægt skref í átt að kjaraleiðréttingu láglaunafólks og kvennastétta.
„Með samningnum hækka byrjunarlaun Eflingarfélaga í lægstu launaflokkum um allt að rúmlega 112.000 krónur á samningstímanum miðað við fullt starf. Hækkunum umfram 90 þúsund króna taxtahækkun að fyrirmynd almenna vinnumarkaðarins er náð fram með töflubreytingu sem skapar að meðaltali um 7.800 krónur í viðbótargrunnlaunahækkun hjá öllum Eflingarfélögum og einnig er samið um sérstaka viðbótarhækkun lægstu launa í formi sérgreiðslu.
Sérgreiðslan sem um samdist er 15.000 krónur í lægstu launaflokkum og fjarar út eftir því sem ofar dregur í launaflokkum. Sérgreiðslan kemur á 26 starfsheiti Eflingar önnur en þau sem þegar hafa sérstaka kaupauka. Hún mun skila sér í stiglækkandi mynd til tæplega þriggja af hverjum fjórum Eflingarfélögum hjá borginni.“
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, segir að áður þaggaðar og jaðarsettar konur, sem fáir höfðu fram að því haft áhuga á, hafi stigið fram í aðgerðum Eflingar með sjálfsvirðinguna að vopni og skilað skömm láglaunastefnunnar þangað sem hún á heima. „Láglaunakonur búa yfir ólýsanlegum kröftum sem þær ákváðu að nýta í eigin baráttu frekar en að fórna sér ævina langa í að taka til eftir aðra,“ sagði Sólveig
„Allar stofnanir valdsins stóðu sameinaðar gegn okkur. Okkur átti að berja til hlýðni, eins og tíðkast hefur áratugum saman. En Eflingarfélagar hjá borginni hafa fært valdastéttinni og raunar samfélaginu öllu fréttir; þegar verkafólk kemur saman í krafti fjöldans, samstöðunnar og baráttuviljans þá stöðvar það ekkert. Eflingarfélagar hjá borginni hafa skrifað nýjan kafla í sögu íslenskrar verkalýðsbaráttu.“