Icelandair hefur sent frá sér tilkynningu til Kauphallar Íslands vegna áhrifa af útbreiðslu veirunnar sem veldur COVID-19 sjúkdómnum. Þar segir að félagið sé að endurskoða flugferðir sínar í mars og apríl, sem áttu að vera um 3.500, og að það megi búast við því að þeim muni fækka enn meira en þegar hefur verið tilkynnt um. Það sé tilkomið vegna enn meiri samdráttar í eftirspurn og bókunum.
Á föstudag greindi Icelandair frá því að félagið hefði fellt niður 80 ferðir í mánuðunum tveimur.
Í tilkynningunni segir að Icelandair muni halda áfram að fylgjast með stöðunni og tilkynna um breytingar á flugferðum strax og þær liggi endanlega fyrir.
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group, segir að það sé ljóst að útbreiðsla COVID-19 veirunnar hafi áhrif á ferðaplön viðskiptavina félagsins. „Eins og við höfum áður sagt, þá gera sveigjanleiki leiðakerfisins og sterk lausafjárstaða félagsins okkur kleift að bregðast hratt við breyttri stöðu á mörkuðum félagsins. Heilsa og öryggi viðskiptavina og starfsmanna okkar er ávallt forgangsmál og um þessar mundir leggjum við gríðarlega mikla áherslu á reglulega upplýsingagjöf, aukna vöktun og uppfærslu verkferla. Við höldum áfram að fylgjast náið með þróun mála og vinnum náið með yfirvöldum og fylgjum leiðbeiningum þeirra á hverjum tíma.“
Eigið fé þess var rúmlega 60 milljarðar króna um síðustu áramót og því er markaðsvirðið tæplega helmingur þess.
Á árunum 2018 og 2019 tapaði Icelandair samtals rétt tæplega 14 milljörðum króna. Í febrúar var kynnt afkomuspá sem gerði ráð fyrir rekstrarhagnaði á árinu 2020. Tæpum mánuði síðar var greint frá því að afkomuspáin væri ekki lengur í gildi. Einfaldlega væri ómögulegt að spá fyrir um hver afkoma Icelandair yrði á þessu ári. Ástæðan væri tiltölulega ný: útbreiðsla veirunnar sem leiðir til COVID-19 sjúkdómsins.