Mynd: EPA

Virði Icelandair undir 30 milljarða í fyrsta sinn í átta ár

Áföllin sem dunið hafa á Icelandair á undanförnum árum eru af ýmsum toga. Sum vegna rangra ákvarðana en önnur eru vegna ytri aðstæðna sem félagið getur lítið eða ekkert gert við. Afleiðingin er hins vegar sú að rúmlega 160 milljarðar króna af markaðsvirði Icelandair hefur þurrkast út frá því í apríl 2016 og virði félagsins hefur ekki verið minna frá því í upphafi ferðaþjónustubyltingarinnar á Íslandi.

Gengi bréfa í Icelandair hefur ekki verið lægra frá því í lok jan­úar 2012, eða í rúm átta ár. Fjöldi ferða­manna sem heim­sótti Íslands á árinu sem þá var nýlokið var 541 þús­und. Í fyrra komu hingað til lands um tvær millj­ónir erlendra ferða­manna og lands­lagið hefur því breyst umtals­vert.

Á einum mán­uði, frá því í byrjun febr­úar 2020, hefur gengi bréfa í Icelandair lækkað um 40 pró­sent. á þessum rúma mán­uði hefur mark­aðsvirði fyr­ir­tæk­is­ins farið úr því að vera 48 millj­arðar króna í að vera 28,8 millj­arðar króna við lokun mark­aða á föstu­dag. Það er í fyrsta sinn frá því í mars 2012 sem að mark­aðsvirði Icelandair fer undir 30 millj­arða króna. Hæst reis það í apríl 2016 og fór þá í 191,5 millj­arð króna. Síðan þá hefur mark­aðsvirði íslenska flug­fé­lags­ins lækkað um 162,7 millj­arða króna. 

Við þá tölu verður að bæta að í apríl 2019 var hlutafé í Icelandair aukið um 11,5 pró­sent og það selt til banda­ríska fjár­fest­ing­ar­sjóðs­ins PAR Capi­tal Mana­gement á 5,6 millj­arða króna. 

Eigið fé Icelandair var um 60 millj­arðar króna um síð­ustu ára­mót. Mark­aðsvirðið er því minna en helm­ingur af eigin fé félags­ins. 

Á árunum 2018 og 2019 tap­aði Icelandair sam­tals rétt tæp­lega 14 millj­örðum króna. Í febr­úar var kynnt afkomu­spá sem gerði ráð fyrir rekstr­ar­hagn­aði á árinu 2020. Tæpum mán­uði síðar var greint frá því að afkomu­spáin væri ekki lengur í gildi. Ein­fald­lega væri ómögu­legt að spá fyrir um hver afkoma Icelandair yrði á þessu ári. Ástæðan væri til­tölu­lega ný: útbreiðsla veirunnar sem leiðir til COVID-19 sjúk­dóms­ins. 

Fyrsta ástæða: Breyt­ingar sem skil­uðu ekki árangri

Það var mik­ill vöxtur hjá Icelandair eftir banka­hrun­ið, sam­hliða því að fjöldi ferða­manna sem heim­sótti Íslands óx á nokkrum árum úr um hálfri milljón í 2,3 millj­ónir á metár­inu 2018. Flug­floti félags­ins fór úr því að telja tíu vélar árið 2008 í 33 snemma árs 2019, þar af nokkrar breið­þot­ur.

Eftir mörg góð ár í röð, frá 2012 og fram til árs­ins 2018, þá hefur mót­vind­ur­inn auk­ist veru­lega hjá Icelanda­ir. Það átti þó ágætis sjóði til að takast á við þá stöðu, en eigið fé þess var 64 millj­arðar króna um mitt ár 2017. 

Nokkrar ástæður eru fyrir þess­ari breyt­ingu. Sum vanda­málin voru heima­til­búin en önnur komu til vegna ytri aðstæðna sem Icelandair gat lít­ið, eða ekk­ert, gert við. 

Á árinu 2018 hóf Icelandair að birta afkomu­við­var­anir nokkuð reglu­lega. Í einni slíkri, sem birt var í ágúst á því ári, voru áætl­anir um væntan rekstr­ar­hagnað félags­ins teknar niður enn og aft­ur. Ástæðan var sögð sú að „inn­leið­ing breyt­inga sem gerðar voru í byrjun sum­ars 2017 á sölu- og mark­aðs­starfi félags­ins ekki gengið nægi­lega vel fyrir sig auk þess sem gerðar voru breyt­ingar á leiða­kerfi félags­ins í byrjun þessa árs sem hafa valdið misvægi á milli fram­boðs fluga til Evr­ópu ann­ars vegar og Norð­ur­-Am­er­íku hins veg­ar.“ 

Í kjöl­far þessa sagði Björgólfur Jóhanns­son, sem hafði verið for­stjóri Icelandair í rúm tíu ár, af sér og vildi með því axla ábyrgð á ákvörð­unum sem teknar höfðu verið á hans vakt.

Breyt­ing­arnar sem höfðu þessar afleið­ingar voru nokkr­ar. Ein þeirra var sú að í lok maí 2017 bár­ust Icelandair upp­lýs­ingar um lyk­il­stjórn­andi hjá félag­inu, sem hafði í um ára­tug verið for­stöðu­maður leið­ar­kerf­is­stjórn­unar Icelanda­ir, hefði stöðu grun­aðs manns í rann­sókn hér­aðs­sak­sókn­ara á meintum brotum í við­skiptum með bréf í félag­inu. Hann var sendur í leyfi í kjöl­farið og loks sagt upp störf­um. Mað­ur­inn, sem var skráður inn­herji hjá Icelanda­ir, átti að hafa veitt manni inn­herj­a­upp­lýs­ingar sem lík­legar voru til að hafa áhrif á hluta­bréf í Icelanda­ir. Mað­ur­inn not­aði svo þær upp­lýs­ingar til að stunda við­skipti með bréf í félag­inu auk þess sem hann deildi þeim með öðrum manni. Með þessu áttu menn­irnir að hafa átt að hagn­ast um 61 milljón króna með því að veðja m.a. á að verð í Icelandair myndu falla skömmu áður en til­kynnt var um að afkomu­spá félags­ins yrði lækkuð veru­lega. Menn­irnir þrír voru ákærðir og lokst dæmdir til í fyrra­vor

Næstu miss­eri var ráð­ist í breyt­ingar á leiða­kerfi Icelandair sem kynntar voru í upp­hafi árs 2018 heppn­uð­ust illa, með til­heyr­andi áhrifum á tekjur Icelanda­ir. Meðal breyt­inga sem gerðar voru á leiða­kerf­inu var að fella burt næt­ur­flug til Evr­ópu og morg­un­flug til Banda­ríkj­anna.

Fleiri stór­tækar breyt­ingar fylgdu á stjórn­un­arteymi Icelandair næstu miss­eri sem end­aði með því að nýtt skipu­lag var kynnt hjá Icelandair í byrjun árs 2018. Menn sem höfðu starfað hjá félag­inu lengi voru látnir fara og nýju fólki fengin stór umbreyt­ing­ar­verk­efni. Stór ástæða fyrir þessu var mik­ill vöxtur WOW air, sem fór þá með him­in­skaut­un­um. Breyt­ing­arnar mið­uðu allar að því að færa Icelandair nær lág­far­gjalda­mód­el­inu sem WOW air var keyrt á. Það var hins vegar flókið umbreyt­ing­ar­ferli, sér­stak­lega vegna þess að launa­kostn­aður hjá Icelandair var afar hár. 

Á meðal þeirra breyt­inga sem ráð­ist var í var að gera ráða inn­an­hús­mann í stöðu fram­kvæmda­stjóra sölu- og mark­aðs­sviðs. Sá tók við starf­inu vorið 2017 og skömmu síðar var greint frá stefnu­breyt­ingu sem í fólst að færa sölu- og mark­aðs­­starf fé­lags­ins heim til Íslands, og setji auk­inn kraft í mark­aðs­­setn­ingu á net­inu. Sett hafði verið saman teymi 25-30 sér­fræð­inga í höf­uð­stöðvum Icelandair sem þekkti vel ýmsar hliðar nets­ins. Eft­ir­stand­andi erlendum sölu­skrif­stofum átti sam­hliða að loka og þeir starfs­menn þeirra sem ynnu áfram hjá félag­inu var boðið að vinna heiman frá sér. Icelandair sagð­ist vera að aðlaga sig að breyttri heims­mynd.

Samkeppnin við WOW air ýtti Icelandair út í ýmiskonar breytingar sem skiluðu ekki tilætluðum árangri. WOW air varð gjaldþrota í lok mars 2019.
Mynd: EPA

Í júlí 2018 var til­kynnt um enn eina breyt­ingu á skipu­lagi Icelandair Group. Í henni fólst að fram­kvæmda­stjóri sölu- og mark­aðs­sviðs var færður í annað starf hjá félag­inu, rúmu ári eftir að hann tók við fram­kvæmda­stjóra­stöð­unni. Undir hefur verið ofan af mörgum þeirra breyt­inga sem ráð­ist var í. 

Önnur ástæða: Erf­ið­ari rekstr­ar­skil­yrði og kyrr­setn­ing 737 Max

Þegar leið á árið 2018 fór hækk­andi olíu­verð að bíta flest flug­fé­lög í heim­in­um, þótt Icelandair hafi verið mun betur varið fyrir slíkum hækk­unum en WOW air, sem var það alls ekki. Vanda­mál WOW air, sem voru nær dag­legt frétta­efni frá ágúst 2018 og þangað til að félagið fór á haus­inn í lok mars 2019, smit­uð­ust líka yfir á Icelanda­ir. 

Ofan á þetta bætt­ist að 12. mars 2019 voru allar Boeing 737 Max vélar heims­ins kyrr­sett­ar. Þar á meðal þrjár sem voru í rekstri hjá Icelanda­ir. Alls hafði íslenska félagið þó pantað 16 slíkar vélar og áttu þær meðal ann­ars að leysa af hólmi margar gamlar 757 200 vélar sem eyða mun meiru en Max vél­in, en 757-­vél­arnar eru uppi­staðan í flota Icelanda­ir. 

Ástæðan fyrir kyrr­­­­setn­ing­unni voru flug­­­­slys í Indónesíu 29. októ­ber 2018 og í Eþíópíu 13. mars 2019, en í þeim lét­ust allir um borð, sam­tals 346. Frum­n­ið­­­­ur­­­­stöður rann­­­­sókna í lönd­unum fyrr­­­­nefndu benda til þess að vél­­­­arnar hafi verið með gallað MCAS-­­­­kerfi, sem á að sporna gegn ofrisi, og því hafi þær tog­­­­ast til jarðar með fyrr­­­­nefndu afleið­ing­­­um.

Fyrst sagði Icelandair í til­kynn­ingum að kyrr­setn­ingin myndi ekki hafa veru­leg áhrif á rekstur félags­ins og jafn­vel var búist við því að vél­arnar yrðu til taks á ný yfir háanna­tím­ann sum­arið 2019. 

Þær hafa enn ekki hafið sig á loft og nú liggur fyrir að þær munu ekki fljúga í sum­ar, en Icelandair hafði gert ráð fyrir að níu 737 Max vélar yrðu í notkun í leiða­kerfi félags­ins á þessu ári. Áhrif kyrr­­setn­ing­ar Boeing 737 MAX-­véla Icelandair á rekst­ur fé­lags­ins á síð­asta ári voru 100 millj­­ón­ir Banda­­ríkja­dala, eða um 12,8 millj­­arðar króna þegar tekið hef­ur verið til­­lit til bóta sem Boeing hef­ur þegar greitt Icelanda­ir. Kyrr­setn­ingin var lyk­il­breyta í rúm­lega sjö millj­arða króna tapi félags­ins á árinu 2019. 

Þriðja ástæða: Útbreiðsla veirunnar sem veldur COVID-19

Í ár hafði Icelandair und­ir­búið sig betur fyrir afleið­ingar á kyrr­setn­ing­unni. Vélar voru teknar á leigu til að geta staðið undir eft­ir­spurn yfir háanna­tím­ann og þótt flot­inn væri mun dýr­ari í rekstri en hann yrði ef Max vél­arnar væru að leysa ára­tugagamlar vélar af hólmi þá ríkti bjart­sýn­i. 

Þegar Icelandair kynnti upp­gjör sitt fyrir síð­asta ár, og afkomu­spá fyrir 2020, voru skila­boðin þau að félagið myndi snúa vörn í sókn í ár.  Fé­lagið gerði meðal ann­ars ráð fyrir að flytja að lág­­marki jafn­­marga far­þega til Íslands á árinu 2020 og árið 2019.

Útbreiðsla kórónaveirunnar um heiminn mun hafa miklar efnahagslegar afleiðingar, meðal annars á ferðaþjónustu.
Mynd: EPA

Nú er sú staða lík­lega breytt, og algjör óvissa er um hvernig rekst­ar­árið hjá Icelanda­ir, og ferða­þjón­ust­unni í heild, verð­ur. Afkomu­spá félags­ins hefur verið aftengd og sá mögu­leiki er raun­veru­lega fyrir hendi að hrun gæti orðið í komu ferða­manna til Íslands. Ástæðan er útbreiðsla veirunnar sem veldur COVID-19 sjúk­dómn­um, sem leitt hefur til mik­ils sam­dráttar í ferða­lögum alls staðar í heim­in­um. 

Alþjóða­sam­tök flug­fé­laga, IATA, gáfu út grein­ingu í síð­ustu viku þar sem reynt var að henda reiður á hver áhrif útbreiðsl­unnar yrðu á fjölda flug­fé­laga. Ef þær nið­ur­stöður eru heim­færðar á skipt­ingu ferða­manna á Íslandi efir þjóð­ernum þá blasir við að fjöldi ferða­manna mun drag­ast saman um 200 þús­und milli ára og fara niður í 1,8 millj­ón. Það er um hálfri milljón ferða­manna færri en komu til lands­ins árið 2018. 

Þessi grein­ing byggir þó á því að áhrif af útbreiðslu veirunnar verði skamm­vinn. Verði ástandið við­var­andi í lengri tíma gæti fjöldi ferða­manna farið niður í 1,6 millj­ón­ir. Það yrði lægst fjöldi sem hefur heim­sótt landið frá árinu 2015.

Áhrifin eru þegar farin að koma fram. Vegna áhrifa Covid-19 á minn­k­andi eft­ir­­spurn hefur Icelandair tekið ákvörðun um að aflýsa um 80 flugum í mars og apr­íl. Það er um tvö pró­­sent af flug­­á­ætlun félags­­ins þessa tvo mán­uði. Í til­kynn­ingu sem Icelandair sendi frá sér í lok síð­ustu viku sagði að félagið væri nú að „greina hugs­an­­legar sviðs­­myndir og móta aðgerðir til að draga úr þeim áhrifum sem þessi þróun kann að hafa á starf­­semi félags­­ins.“

Skiptir Kjarninn þig máli?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við erum til staðar fyrir lesendur og fjöllum um það sem skiptir máli.

Ef Kjarninn skiptir þig máli þá máttu endilega vera með okkur í liði.

Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar