Stærstu eigendur Borgunar, Íslandsbanki og Eignarhaldsfélagið Borgun slf., hafa selt 95,9 prósent hlut í greiðslumiðlunarfyrirtækini til Salt Pay Co Ltd., alþjóðlegs greiðslumiðlunarfyrirtækis með starfsemi í fjórtán löndum. Í tilkynningu Íslandsbanka til Kauphallar segir að kaupverðið sé trúnaðarmál en Markaðurinn greindi frá því í morgun að kaupverðið væri um fimm milljarðar króna.
Í tilkynningunni segir að salan sé gerð með fyrir um að Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands veiti samþykki fyrir virkum eignarhlut kaupanda. Íslandsbanki mun frá og með deginum í dag flokka Borgun sem eign haldin til sölu til afhendingardags.
Íslandsbanki var fyrir söluna stærsti eigandi Borgunar með 63,5 prósent eignarhlut. Eignarhaldsfélagið Borgun hélt á 32,5 prósentum og BPS ehf. á tveimur prósentum. Aðrir eigendur áttu minna.
Í fréttum vegna sölu á hlut Landsbankans
Borgun er búin að vera umtalsvert í fréttum undanfarin ár, eftir að Landsbankinn seldi 31,2 prósent hlut sinn í fyrirtækinu til Eignarhaldsfélagsins Borgunar bakvið luktar dyr í nóvember 2014. Kaupin áttu sér þann aðdraganda að maður að nafni Magnús Magnússon, með heimilisfesti á Möltu, setti sig í samband við ríkisbankann og falaðist eftir eignarhlutnum fyrir hönd fjárfesta. Á meðal þeirra sem stóðu að kaupendahópnum voru þáverandi stjórnendur Borgunar.
Enn fremur var ekki gerður neinn fyrirvari í kaupsamningnum um viðbótargreiðslur vegna valréttar Borgunar vegna mögulegrar sölu Visa Europe til Visa Inc.
Þrír stærstu aðilarnir sem stóðu að Eignarhaldsfélaginu Borgun voru gamla útgerðarfyrirtækið Stálskip, félagið P126 ehf. (eigandi er félag í Lúxemborg og eigandi þess er Einar Sveinsson), og félagið Pétur Stefánsson ehf. (Í eigu Péturs Stefánssonar). Einhver viðskipti hafa síðan verið með hluti í Borgun frá því að Landsbankinn seldi sinn hlut.
Í nóvember 2016 birti Ríkisendurskoðun skýrslu um fjölmargar eignasölur Landsbankans á árunum 2010 til 2016 og gagnrýndi þær harðlega. Á meðal þeirra er salan á hlut í Borgun. Tíu dögum síðar var Steinþóri Pálssyni, bankastjóra Landsbankans, sagt upp störfum. Sú ákvörðun var rakin beint til Borgunarmálsins.
Haukur Oddsson, sem var forstjóri Borgunar þegar kaupin áttu sér stað og er einn þeirra sem Landsbankinn stefndi í lok árs 2016, hætti störfum hjá Borgun í október 2017. Við starfi hans tók Sæmundur Sæmundsson.
Arðgreiðslur hærri en kaupverðið
Rekstur Borgunar gekk ótrúlega vel næstu árin eftir kaupin. Hagnaður ársins af reglulegri starfsemi var undir einum milljarði króna árið 2013. Árið 2016 var hann rúmlega 1,6 milljarðar króna. En hlutdeildin í sölunni á Visa Europe skiptir auðvitað mestu máli þegar virðisaukning fyrirtækisins er metin. Hún skilaði Borgun 6,2 milljörðum króna.
Í ljósi þess að hlutur Landsbankans var seldur í nóvember 2014 fyrir 2.184 milljónir króna voru arðgreiðslurnar sem runnu hafa til nýrra eigenda að hlutnum frá því að hann var seldur og til loka árs 2016 218 milljónir króna fram yfir það sem greitt var fyrir hlut ríkisbankans haustið 2014. Kaupendurnir eru því þegar búnir að fá allt sitt til baka auk 218 milljóna króna og eiga enn hlutinn í Borgun.
Á árinu 2017 hagnaðist Borgun um 350 milljónir króna og eignir þess voru metnar á 31,7 milljarða króna í árslok. Bókfært eigið fé á þeim tíma var 6,8 milljarðar króna.
Verri rekstur síðustu árin
Reksturinn versnaði hins vegar til muna á árinu 2018 þegar Borgun tapaði alls tæplega 1,1 milljarði króna. Hreinar rekstrartekjur fyrirtækisins rúmlega helminguðust á því ári, úr um 4,2 milljörðum króna í rúmlega tvo milljarða króna. Í ársreikningi ársins 2018 sagði að tapið á því ári skýrist „fyrst og fremst af hratt minnkandi tekjum af erlendum viðskiptum hjá seljendum sem selja vöru og þjónustu eingöngu yfir internetið. Auk þess má rekja lægri hreinar þjónustutekjur til aukins kostnaðar umfram tekjur af innlendri færsluhirðingu sem skýrist fyrst og fremst drætti í innleiðingu á nýjum lögum um lækkun milligjalda. Að síðustu má nefna að hreinar þjónustutekjur hafa lækkað vegna neikvæðrar framlegðar af stórum erlendum seljenda sem félagið tók í viðskipti undir lok árs 2017.“
Í fyrra tapaði Borgun svo 972 milljónum króna og rekstrartekjur voru 2,6 milljarðar króna. Eignir fyrirtækisins voru metnar á 22,4 milljarða króna um síðustu áramót og eigið fé þess var á þeim tíma 6,6 milljarðar króna.
Landsbankinn stefndi og málinu ólokið
Í janúar 2017 stefndi Landsbankinn Borgun hf., fyrrverandi forstjóra Borgunar Hauki Oddssyni, BPS ehf. og Eignarhaldsfélaginu Borgun slf. vegna þess að það væri mat bankans að hann hefði orðið af söluhagnaði við sölu á 31,2 prósent hlut sínum í Borgun á árinu 2014.
Landsbankinn hefur ekki tilgreint þá upphæð sem hann fer fram á að fá greidda vinni hann málið en í níu mánaða uppgjöri Íslandsbanka, stærsta eiganda Borgunar, í fyrra kemur fram að mat Landsbankans á tapi sínu á sölunni sé um 1,9 milljarður króna. Landsbankinn er nánast að öllu leyti í eigu íslenska ríkisins. Því er tap hans tap skattgreiðenda.
Matsmenn sem lögðu mat á ársreikning Borgunar fyrir árið 2013 við meðferð málsins komust að þeirri niðurstöðu að upplýsingar um tilvist valréttar um kaup og sölu á eignarhlut Borgunar í Visa Europe Ltd til Visa Inc., skilmála hans og mögulegar greiðslur til Borgunar á grundvelli hans hafi verið mikilvægar við gerð, framsetningu og þar af leiðandi endurskoðun ársreiknings Borgunar árið 2013. Þá hefði Borgun átt að upplýsa um eignarhlut sinn í Visa Europe Ltd. og að félagið væri aðili að Visa Europe Ltd. í ársreikningnum.
Borgun hefði jafnframt átt að gera grein fyrir valréttinum þar í samræmi við ákvæði alþjóðlegs reikningsskilastaðals og upplýsa um óvissu um hann í skýrslu stjórnar samkvæmt lögum auk þess sem að matsmenn telja að ársreikningur Borgunar fyrir árið 2013 hafi ekki uppfyllt allar kröfur laga um ársreikninga og alþjóðlegra reikningsskilastaðla.