„Það skiptir ekki máli hversu margir fá þessa veiru, það skiptir máli hverjir fá hana,“ sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir á blaðamannafundi vegna útbreiðslu kórónuveirunnar í dag, en fram kom í heimspressunni í dag að Angela Merkel Þýskalandskanslari teldi líklegt, samkvæmt mati sérfræðinga, að um það bil tveir þriðju þýsku þjóðarinnar smitaðist af veirunni.
Þórólfur sagði að þetta mat væri mikið á reiki og tölur um hugsanlegt hlutfall smita væru gripnar úr lausu lofti. Hann benti á að norsk yfirvöld hefðu gefið út að talið væri að 25 prósent Norðmanna fengju veiruna og að dönsk yfirvöld hefðu talað um að 10 prósent íbúa þar í landi smituðust á einhverjum tímapunkti. Ekkert samræmi væri í þessu og mestu máli skipti að vernda þá sem eru viðkvæmir.
Níutíu manns hafa nú í heildina greinst með COVID-19 sjúkdóminn hér á landi. Alls hafa þrír verið lagðir inn á spítala og einn er inni á spítala sem stendur, samkvæmt Þórólfi.
Fram kom í máli Þórólfs að ef ekkert yrði að gert myndi faraldurinn líklega ganga yfir á 2-3 mánuðum. Hér á landi væri hins vegar verið að reyna að hægja á faraldrinum eins og hægt er, svo að við gætum horft fram á að vera með viðvarandi ástand vegna útbreiðslu kórónuveirunnar í lengri tíma en þessa 2-3 mánuði.
Aðgerðir yfirvalda hérlendis miða að því að reyna að hefta og seinka útbreiðslu veirunnar eins mikið og hægt er og dreifa álaginu á heilbrigðiskerfið.
Unnið að rakningu tveggja smita
Enn á eftir að rekja uppruna tveggja smita sem greinst hafa hérlendis, en fjögur smit hafa þegar greinst sem flokkast sem svokölluð þriðja stigs smit, en talað er um þriðja stigs smit þegar einstaklingar smitast af öðrum einstaklingi sem ekki hefur verið staddur erlendis á skilgreindum áhættusvæðum.
Fimmtán manns hafa greinst með COVID-19 hér á landi eftir að hafa verið í samskiptum við fólk sem kom smitað frá skilgreindum áhættusvæðum, en allir aðrir sem greinst hafa með veiruna hafa smitast erlendis. Langflestir voru á skíðasvæðum í Ölpunum, þar af 35 sem komu frá Norður-Ítalíu, 29 sem voru í Austurríki, fjórir sem voru í Sviss og einn sem kom smitaður eftir að hafa verið í Asíu. Alls níutíu manns, sem áður segir.
Yfir 700 manns eru í sóttkví á Íslandi sem stendur, samkvæmt því sem fram kom í máli Þórólfs, sem hóf blaðamannafundinn á að fara yfir þessar tölulegu upplýsingar um útbreiðslu veirunnar. Hann sagði nokkra smitaða einstaklinga vera með hita. „Vonandi mun það ástand ekki versna,“ sagði Þórólfur.
Fram kom í máli sóttvarnalæknis að verið væri að útvíkka þann hóp sem verður tekinn til sýnatöku og að komin væri til landsins ný sending af veirupinnum til þess að taka sýni, en yfir 830 sýni hafa verið tekin hérlendis til þessa. Til stendur að setja aukinn kraft í sýnatökuna, sem hingað til hefur einskorðast að mestu við þá sem taldir hafa verið í sérstökum áhættuhópi.
Landlæknir klár í bakvarðasveit heilbrigðisþjónustunnar
Í dag hafa borist fregnir af því að starfsmenn Landspítala hafi farið í skíðaferð til Austurríkis eftir að biðlað var til heilbrigðisstarfsfólks um að fara ekki erlendis á meðan óvissa væri um útbreiðslu veirunnar. Þessir starfsmenn eru nú í sóttkví og var Alma Möller landlæknir spurð út í þetta mál á fundinum í dag.
„Við notuðum orðið að biðla til svo það var auðvitað ekkert valdboð í því,“ sagði landlæknir, en bætti því við að hún væri vonsvikin með að þessi staða hefði komið upp, biðlað hefði verið til fólks um að halda sig heima af frjálsum og fúsum vilja. Heilbrigðisyfirvöld hafa nú óskað eftir því að heilbrigðisstarfsfólk, sem er að starfa í öðrum geirum, skrái sig í svokallaða bakvarðasveit heilbrigðisþjónustunnar.
Alma sagðist hafa skráð sig þar sem gjörgæslulækni, en óvíst væri vegna núverandi starfs hennar hvort hún gæti stokkið til ef kallið kæmi, en hún væri allavega klár í að leggja sitt af mörkum ef svo bæri undir.
Allir skólar þurfi að búa sig undir að bregðast við smiti
Fimmtíu nemendur við Menntaskólann í Hamrahlíð eru nú í sóttkví eftir að einn nemandi, sem var í skólanum á fimmtudag og föstudag, greindist með COVID-19 um helgina.
Steinn Jóhannsson rektor MH var á blaðamannafundinum í dag og sagði að þetta hefði strax raskað skólastarfin. Rík áhersla hefði verið lögð á gott upplýsingastreymi til allra sem málið varðaði, kennara, nemenda og aðstandenda þeirra.
„Það sem við þurftum að gera og allir skólar þurfa að undirbúa sig fyrir ef þetta gerist er, hvernig við breytum skólastarfinu,“ sagði Steinn og bætti við að ljóst væri að það þyrfti að breyta kennsluáætlunum og sýna aukið umburðarlyndi, meðal annars þeim nemendum sem væru hikandi við að koma í skólann sökum þess að þeir ættu aðstandendur með undirliggjandi sjúkdóma.
Hann sagði að lögð væri áhersla á að hvetja nemendur til dáða og huga að andlegri líðan allra, á þessum óvissutímum.
Hefðbundið skólahald er í MH í dag og ágætis mæting í skólann, þó einhverja vanti. Nemendur í sóttkví höfðu sumir tök á að taka þátt í kennslustundum í gegnum síma, að sögn rektorsins.