Frá því í gærkvöldi hafa fimmtán tilfelli af veirunni sem veldur COVID-19 sjúkdóminum verið greind á sýkla- og veirufræðideild Landspítala. Samtals hafa því 103 einstaklingar verið greindir hér á landi. 80 smit tengjast ferðum erlendis en 23 eru innanlandssmit.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá samhæfingarstöðu almannavarna.
Uppruna flestra smita má rekja til Norður-Ítalíu og skíðasvæða í Ölpunum en þrjú smit hafa greinst frá einstaklingum sem komu hingað frá Bandaríkjunum. Um 1.000 sýni hafa verið tekin í heild.
Fram kom í máli Þórólfs að ef ekkert yrði að gert myndi faraldurinn líklega ganga yfir á 2-3 mánuðum. Hér á landi væri hins vegar verið að reyna að hægja á faraldrinum eins og hægt er, svo að við gætum horft fram á að vera með viðvarandi ástand vegna útbreiðslu kórónuveirunnar í lengri tíma en þessa 2-3 mánuði.
Aðgerðir yfirvalda hérlendis miða að því að reyna að hefta og seinka útbreiðslu veirunnar eins mikið og hægt er og dreifa álaginu á heilbrigðiskerfið.