Hlutabréf í Icelandair féllu um 22 prósent í fyrstu viðskiptum í Kauphöll Íslands í morgun. Alls lækkaði úrvalsvísitalan um rúmlega níu prósent í fyrstu viðskiptum.
Gengi Icelandair er sem stendur 3,9 krónur á hlut. Gengi bréfa í félaginu hefur ekki verið lægra frá því í janúar 2011. Markaðsvirði Icelandair er nú um 21,2 milljarðar króna en það fór niður fyrir 30 milljarða króna í fyrsta skipti í átta ár í byrjun viku. Þegar markaðsvirði var hæst, í apríl 2016, var það 191,5 milljarðar króna. Síðan þá hefur hlutafé í Icelandair verið aukið um rúmlega fimm milljarða króna en markaðsvirðið samt komið niður í ofangreinda tölu.
Ástæðan fyrir þessari stöðu nú er tímabundið ferðabann bandarískra stjórnvalda til og frá Evrópu, sem gildir í 30 daga frá 14. mars. Það mun hafa veruleg áhrif á flugáætlun Icelandair á tímabilinu og mun félagið draga enn frekar úr framboði á flugi í mars og apríl, umfram það sem áður hefur verið tilkynnt.
Í nýrri tilkynningu sem félagið sendi frá sér rétt fyrir klukkan 10 í morgun var ítrekað að allt flug hjá Icelandair verði á áætlun í dag og á morgun. „Þegar ferðabannið tekur gildi á laugardag, verður flug til eftirfarandi áfangastaða Icelandair í Bandaríkjunum á áætlun: New York (JFK og EWR), Chicago, Seattle og Washington DC en ferðabann gildir þá fyrir alla sem dvalið hafa á Schengen svæðinu, nema bandaríska ríkisborgara. Þann 14.-16. mars verður öllu flugi til Boston, Minneapolis, Denver og Orlando aflýst. Flug frá Orlando og Denver laugardaginn 14. mars verður á áætlun. Öll flug til Evrópu eru á áætlun. Ferðabannið gildir ekki um fraktflutninga.“
Eigið fé Icelandair var um 60 milljarðar króna um síðustu áramót. Markaðsvirðið er um einn þriðji af eigin fé félagsins og rétt rúmur helmingur af lausu fé þess.
Tilkynnt í sögulegri ræðu forseta í nótt
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, greindi frá aðgerðunum í ávarpi í nótt. Ferðabannið, sem á að standa yfir í 30 daga frá og með komandi föstudegi, mun virka þannig að öllum íbúum landa sem tilheyra Schengen-svæðinu, þar á meðal Ísland og þorri Evrópu, verður meinað að koma til Bandaríkjanna á tímabilinu. Bandarískir ríkisborgarar og aðrir sem eru með fasta búsetu í Bandaríkjunum munu fá að ferðast ef þeir vilja en samkvæmt fréttatilkynningu sem birt var í nótt á vef heimavarnarráðuneytisins mun þeim bandarísku farþegum sem dvalið hafa á Schengen-svæðinu hleypt inn í landið í gegnum valda flugvelli þar sem sérstakar ráðstafanir verða gerðar til að skima fyrir smiti.
Allar líkur eru því til þess að flug milli Bandaríkjanna og landa sem tilheyra Evrópska efnahagssvæðinu muni að mestu liggja niðri á meðan að bannið stendur yfir, enda ólíklegt að flugfélög muni fljúga mikið þegar þorri Evrópu má ekki koma til Bandaríkjanna, og Bandaríkjamenn hafa verið hvattir til að fara helst ekki til Evrópu.
Það mun hafa gríðarleg áhrif rekstur Icelandair.