Tímabundið ferðabann bandarískra stjórnvalda til og frá Evrópu, sem gildir í 30 daga frá 14. mars., mun hafa veruleg áhrif á flugáætlun Icelandair á tímabilinu og mun félagið draga enn frekar úr framboði á flugi í mars og apríl, umfram það sem áður hefur verið tilkynnt.
Þetta kemur fram í tilkynningu félagsins í Kauphöll rétt í þessu. Þar segir að alls hafi verið um 490 flugferðir eru áætlaðar til Bandaríkjanna á tímabilinu. „Ljóst er að útbreiðsla COVID-19 veirunnar hefur veruleg áhrif á ferðalög um allan heim. Fjárhagsleg áhrif þessa á Icelandair Group eru enn óviss en eins og tilkynnt hefur verið um er félagið að greina mögulegar sviðsmyndir og mótvægisaðgerðir í ljósi stöðunnar. Fjárhagsstaða Icelandair Group er sterk og lausafjársstaða félagsins nam rúmum 39 milljörðum króna (301,6 milljónir bandaríkjadala) í árslok 2019 og er á sama stað í dag.“
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, greindi frá aðgerðunum í ávarpi í nótt. Ferðabannið, sem á að standa yfir í 30 daga frá og með komandi föstudegi, mun virka þannig að öllum íbúum landa sem tilheyra Schengen-svæðinu, þar á meðal Ísland og þorri Evrópu, verður meinað að koma til Bandaríkjanna á tímabilinu. Bandarískir ríkisborgarar og aðrir sem eru með fasta búsetu í Bandaríkjunum munu fá að ferðast ef þeir vilja en samkvæmt fréttatilkynningu sem birt var í nótt á vef heimavarnarráðuneytisins mun þeim bandarísku farþegum sem dvalið hafa á Schengen-svæðinu hleypt inn í landið í gegnum valda flugvelli þar sem sérstakar ráðstafanir verða gerðar til að skima fyrir smiti.
Allar líkur eru því til þess að flug milli Bandaríkjanna og landa sem tilheyra Evrópska efnahagssvæðinu muni að mestu liggja niðri á meðan að bannið stendur yfir, enda ólíklegt að flugfélög muni fljúga mikið þegar þorri Evrópu má ekki koma til Bandaríkjanna, og Bandaríkjamenn hafa verið hvattir til að fara helst ekki til Evrópu.
Það mun hafa gríðarleg áhrif rekstur Icelandair.
Ætluðu að snúa vörn í sókn en nú verður ekki að því
Flestir sem heimsóttu Íslands á síðasta ári komu frá Bandaríkjunum, eða 464 þúsund manns. Því er um að ræða mikilvægasta markað flugfélagsins. Þeim farþegum sem komu þaðan fækkaði um þriðjung milli ára og spilaði gjaldþrot WOW air þar stóra rullu, enda flaug flugfélagið á nokkra áfangastaði í Norður-Ameríku. Nú er viðbúið að sú fækkun muni verða umtalsvert meiri að óbreyttu.
Þegar Icelandair kynnti uppgjör sitt fyrir síðasta ár, og afkomuspá fyrir 2020, voru skilaboðin þau að félagið myndi snúa vörn í sókn í ár. Félagið gerði meðal annars ráð fyrir að flytja að lágmarki jafnmarga farþega til Íslands á árinu 2020 og árið 2019.
Nú er sú staða gjörbreytt og algjör óvissa er um hvernig rekstarárið hjá Icelandair, og ferðaþjónustunni í heild, verður. Afkomuspá félagsins hefur verið aftengd og sá möguleiki er raunverulega fyrir hendi að hrun gæti orðið í komu ferðamanna til Íslands vegna útbreiðslu veirunnar sem veldur COVID-19 sjúkdómnum.
Alþjóðasamtök flugfélaga, IATA, gáfu út greiningu í síðustu viku þar sem reynt var að henda reiður á hver áhrif útbreiðslunnar yrðu á fjölda flugfélaga. Ef þær niðurstöður eru heimfærðar á skiptingu ferðamanna á Íslandi efir þjóðernum þá blasir við að fjöldi ferðamanna mun dragast saman um 200 þúsund milli ára og fara niður í 1,8 milljón. Það er um hálfri milljón ferðamanna færri en komu til landsins árið 2018.
Þessi greining byggir þó á því að áhrif af útbreiðslu veirunnar verði skammvinn. Verði ástandið viðvarandi í lengri tíma gæti fjöldi ferðamanna farið niður í 1,6 milljónir. Það yrði lægst fjöldi sem hefur heimsótt landið frá árinu 2015. Nú má búast við því að tala ferðamanna geti orðið jafnvel enn lægri.