Nítján þingmenn hafa lagt fram þingsályktunartillögu þess efnis að dómsmálaráðherra verði falið að tryggja að umsækjendur um alþjóðlega vernd verði ekki sendir frá Íslandi til Grikklands, óháð því hvort viðkomandi hafi hlotið alþjóðlega vernd þar í landi eða ekki.
Í tillögunni segir að hætta sé á flóttafólk í Grikklandi verði fyrir meðferð sem teljist ómannúðleg í skilningi laga útlendingalaga og samnings Sameinuðu þjóðanna um réttarstöðu flóttamanna. Að tillögunni standa þingmenn Viðreisnar, Samfylkingar og Pírata, Rósa Björk Brynjólfsdóttir þingmaður Vinstri grænna og Andrés Ingi Jónsson sem stendur utan flokka.
„Flutningsmenn tillögunnar telja yfir vafa hafið að aðstæður í Grikklandi gefi fullt tilefni til þess að stöðva allar brottvísanir og endursendingar flóttafólks þangað. UNICEF og Barnaheill hafa gagnrýnt stjórnvöld harðlega fyrir endursendingar barna til Grikklands. Þá hefur Rauði krossinn á Íslandi að auki ítrekað bent á að aðstæður þeirra sem þegar hafa hlotið alþjóðlega vernd í Grikklandi séu síst skárri en þeirra sem hafi umsókn sína til meðferðar þar í landi,“ segir í greinargerð með tillögunni.
Þingmennirnir lýsa yfir eindregnum stuðningi við sjónarmið Rauða krossins, sem á dögunum mótmælti áformum stjórnvalda um að senda fjölskyldur með börn héðan til Grikklands á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar.