Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, virðist hafa mismælt sig ítrekað er hann ávarpaði milljónir í sjónvarpi í kvöld. Í ávarpinu greindi hann frá aðgerðum sem gripið verður til í landinu til að verjast nýju kórónuveirunni. Sá fréttapunktur sem flestir fjölmiðlar um allan heim tóku upp var sá að ferðabanni verður komið á á milli Evrópu og Bandaríkjanna.
Jú, það verða teknar upp mjög strangar takmarkanir á ferðalögum en þær ná ekki til „allra Evrópulanda“ eins og Trump sagði í ávarpi sínu (hann tók svo seinna í því fram að Bretland væri undanskilið). Þá eiga þær ekki að ná til vöruflutninga heldur aðeins fólks ef marka má tíst sem hann birti strax eftir sjónvarpsútsendinguna.
Reyndar er margt enn nokkuð óljóst um hvernig aðgerðirnar sem hann boðaði verða útfærðar, hver áhrifin verða og á hverja.
Í ávarpinu sagði Trump að öllum ferðalögum (e. travel) frá Evrópu til Bandaríkjanna yrði aflýst í mánuð frá næsta föstudegi. Hann bætti svo við að undanþágur yrðu gerðar fyrir Bandaríkjamenn sem hefðu farið í gegnum „viðeigandi skoðun“.
Í frétt CNN, þar sem ávarp forsetans er borðið saman við yfirlýsingu frá bandaríska heimavarnarráðuneytinu, segir að undanþágurnar virðist eiga að vera miklu umfangsmeiri. Samkvæmt ráðuneytinu eigi þær að ná til allra bandarískra ríkisborgara og þeirra sem eru með dvalarleyfi í landinu sem og einhverra í fjölskyldum þessara hópa.
Þá virðist bannið ekki eiga að ná til „allra Evrópulanda“ (fyrir utan Bretland) heldur til landa sem eru innan Schengen-svæðisins. Ísland er samkvæmt þessu í hópi þeirra landa sem ferðabannið nær til.
Fréttamenn CNN telja sig komast næst sannleikanum með því að segja að Bandaríkjamenn og þeir sem eru með dvalarleyfi í Bandaríkjunum munu áfram geta flogið til Evrópu og aftur til Bandaríkjanna á meðan ferðabannið er í gildi. Þeir munu hins vegar gangast undir skoðun við komuna til landsins og geta þurft að fara í sóttkví í tvær vikur eftir heimkomuna, rétt eins og nú þegar er í gildi fyrir fólk á ferðalögum milli Kína og Bandaríkjanna.
Hins vegar vaknar sú spurning hvort að flugfélög komi til með að halda úti óbreyttu áætlanaflugi milli Evrópu og Bandaríkjanna þegar eftirspurn Evrópubúa eftir flugsætum yfir hafið þornar upp vegna ferðabannsins.
Í tísti sem Trump birti svo í nótt, eftir að hann hafði ávarpað þjóðina, virtist hann vera að leiðrétta sjálfan sig hvað varðar vöruflutninga milli heimsálfanna. Í ávarpinu sagði hann: „Það verða veittar undanþágur fyrir Bandaríkjamenn sem hafa gengist undir viðeigandi skoðun og þessi bönn munu ekki aðeins ná til gríðarlegs magns af vöruflutningum (e. trade and cargo) heldur einnig til annarra hluta þegar við fáum til þess samþykki“.
Í tístinu stóð hins vegar: „Og vinsamlega munið, mjög mikilvægt fyrir öll lönd og fyrirtæki að vita að vöruskipti munu ekki á nokkurn hátt verða fyrir áhrifum vegna þrjátíu daga ferðatakmarkanna frá Evrópu. Takmarkanirnar stöðva fólk ekki vörur.“
Hoping to get the payroll tax cut approved by both Republicans and Democrats, and please remember, very important for all countries & businesses to know that trade will in no way be affected by the 30-day restriction on travel from Europe. The restriction stops people not goods.
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) March 12, 2020